Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Af pólitískum merkimiðum
Fimmtudagur 25. ágúst 2011 kl. 15:41

Af pólitískum merkimiðum

Atburðir undanfarinna daga í íslenskum stjórnmálum hafa leitt af sér slagorðakennda umræðu um stefnu og strauma í pólitík. Umræðan er helst drifin áfram af óðagoti Samfylkingarinnar og helstu stuðningsmanna aðildar Íslands að Evrópusambandinu og tilraun þeirra til þess að gera Evrópumálin að sérstakri skilgreindri stjórnmálastefnu í íslenskum stjórnmálum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Magnús Orri Schram, þingmaður Samfylkingarinnar segir t.a.m. í grein í Fréttablaðinu í síðustu viku í tilefni af ummælum formanns Sjálfstæðisflokksins um að draga skuli ESB umsókn Íslands til baka:  „Þessi afstaða er einnig vonbrigði fyrir miðju og hægri kjósendur sem telja að alþjóðaviðskipti, lægri viðskiptakostnaður og öryggi í rekstrarumhverfi fyrirtækja gegni lykilhlutverki við uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur nú snúið bakinu við þessum kjósendum og gefið yfirlýsingu um íhalds- og einangrunarstefnu“.  


Það er óneitanlega kúnstugt að stuðningsmaður vinstri stjórnarinnar hætti sér út á þessa braut. Vinstri stjórn Magnúsar Orra Schram hefur á starfstíma sínum slegið öll met í skattahækkunum, andúð á atvinnulífinu, baráttu gegn fjárfestingum af öllu tagi og hefur ein og óstudd komið á þvílíku óöryggi í rekstrarumhverfi fyrirtækja í heilu atvinnugreinunum að bankahrunið verður sem hjóm eitt í samanburði, og er aðförin að sjávarútveginum skýrasta dæmið um það.  Og þetta hefur þingmaðurinn stutt gegnumsneitt með atkvæði sínu á Alþingi jafnvel þótt hann með hjáróma rödd reyni að bóka mótmæli endrum og sinnum. Stríðir það kannski ekki gegn frelsi í alþjóðaviðskiptum að koma í veg fyrir að hægt sé að flytja erlenda sjúklinga til Íslands til læknismeðferðar? Er það ekki einangrunarstefna að hóta þjóðnýtingu á einkafyrirtækjum vegna þess að um erlent eignarhald er að ræða? Þessi tvö dæmi eru aðeins brot af því sem vinstri stjórnin hefur á afrekalista sínum í þessum efnum.
Þetta er á ábyrgð þingmanna eins og Magnúsar Orra Schram sem vogar sér svo að stimpla Sjálfstæðismenn sem sérstaka andstæðinga frelsis í viðskiptum og einangrunarsinna. Þetta er svo fjarstæðukennt að það tekur engu tali.


Ég hafna því að afstaðan til Evrópusambandsaðildar geti skipað mönnum í hugmyndafræðilegar fylkingar, nema að hugmyndafræðin risti ekki dýpra en þetta eina mál. Evrópusambandsaðild eða ekki er aðeins eitt af fjölmörgum viðfangsefnum sem við þurfum að glíma við og taka afstöðu til á vettvangi stjórnmálanna. Ég er á móti því að Ísland gangi í Evrópusambandið, ég var andvíg því að sótt yrði um vegna þess að ég er eindregið þeirrar skoðunar að hagsmunum Íslands sé betur varið utan sambandsins. Þetta hefur ekkert að gera með einangrun eða þjóðernishyggju. Ég er ákafur stuðningsmaður þess að Ísland eigi í góðu og nánu alþjóðlegu samstarfi hér eftir sem hingað til. Ég tel að Ísland eigi nú þegar í góðu og nánu samstarfi við Evrópusambandið í gegnum samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og það samstarf er hvorki dæmi um einangrunarhyggju eða afturhald.


Ég virði skoðanir þeirra sem telja hagsmunum Íslands betur borgið innan ESB. Ég er þeim einfaldlega ekki sammála. En ég bið þá líka að virða mín sjónarmið og leggja af þann leiða sið að gera mér upp skoðanir í öðrum málum byggðar á afstöðu minni til Evrópusambandsins. Samfylkingin verður ekki að frjálslyndum flokki sem berst fyrir atvinnufrelsi og lágum viðskiptakostnaði við það eitt að berjast fyrir ESB aðild. Það sést svart á hvítu þegar afrekaskrá ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur er skoðuð. Samfylkingin hefur með verkum sínum ítrekað tekið afstöðu gegn atvinnulífinu, gegn erlendri fjárfestingu, með auknum viðskiptakostnaði  og skattahækkunum, og virðist aðeins aðeins hafa eitt markmið í stjórnmálum - að koma Íslandi inn í Evrópusambandið. Það má svo spyrja hversu djúpt hugmyndafærðin risti.


Ragnheiður Elín Árnadóttir
formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins