Af hverju Viðreisn?
- Aðsend grein frá Kristínu Maríu Birgisdóttur
Því hún stendur fyrir breytingar og almannahag.
Það er gaman og gefandi að hafa áhrif til góðra verka og undanfarin ár hef ég einbeitt mér að því að vinna í þágu minnar heimabyggðar, með góðum árangri. Sveitarstjórnarmál hafa freistað mín og ég hef gaman af starfi mínu sem bæjarfulltrúi í Grindavík. Ég hafði engin áform um að leggja lóð mín á vogarskálar þeirra sem buðu fram til þings. Einfaldlega vegna þess að ekkert þeirra framboða sem þar var heillaði mig - fyrr en Viðreisn kom fram. Stjórnmálaafl sem er reiðubúið að leggja sig fram í mikilvægar kerfisbreytingar sem munu skila sér verulega til almennings í landinu.
Stjórnmálaflokkar og stjórnvöld eiga alltaf að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum. Þetta ein af grunnstefnum Viðreisnar, en þau eru fjölmörg stefnumálin. Eitt þeirra eru nýjar leiðir í kvótakerfinu. Leiðir sem kollvarpa engu en skila auknum auðlindatekjum til þeirra sem auðlindina eiga - þjóðarinnar.
Umræðan um auðlindir landsins og nýtingu þeirra hefur verið mikið í umræðunni. Viðreisn ætlar að beita sér fyrir markaðslausn í sjávarútvegi. Það er stefna okkar að auka tekjur ríkisins af sjávarauðlindinni með því að fara svokallaða markaðsleið. Hluti (3-5%) þess heildarkvóta sem úthlutað er ár hvert er boðinn upp árlega á markaðsvirði. Við trúum því að með þeirri leið sé ekki verið að ógna rekstrargrundvelli þeirra fyrirtækja sem stunda sjávarútveginn en sanngjarnt markaðsverð fyrir þann kvóta sem færi á uppboð myndi skila sér til þjóðarinnar. Það verði ekki í höndum stjórnvalda að ákveða hversu hátt auðlindagjaldið ætti að vera, heldur markaðarins. Því yrði einfaldlega skipt út fyrir tekjurnar af uppboðskvótanum. Nýtingartími þessa uppboðskvóta yrði sá sami og þeirra sem hafa afnot á núverandi kvóta.
Það hefur í gegnum tíðina mikið verið rætt um sanngirni þess hvernig kvótanum var úthlutað fyrir þremur áratugum þegar kvótakerfið var sett á. Það er ekki sanngjarnt að færa óréttlæti af einum stað yfir á annan. Þessa lausn tel ég vera best til þess fallna til að sætta málefnin er varða sjávarauðlindina og þær tekjur sem af henni skapast.
Kosningar til Alþingis eru handan við hornið. Einhverjar þær mikilvægustu og þýðingarmestu í sögunni. Það verður kosið um kerfisbreytingar í þágu þjóðarinnar. Það verður kosið um almannahagsmuni ofar sérhagsmunum. Fyrir þeim breytingum mun Viðreisn standa.
Kristín María Birgisdóttir
Höfundur skipar 5. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi