Af hverju raunfærnimat?
– Jónína Magnúsdóttir náms- og starfsráðgjafi hjá MSS skrifar
Miðstöð símenntunar hefur boðið upp á raunfærnimat í hinum ýmsu greinum frá árinu 2010 og hafa nú yfir 100 manns fengið starfsreynslu sína metna á móti námsgreinum á framhaldsskólastigi. Viðkomandi þarf því ekki að sækja nám í þeim námsáföngum sem hann fær metna. Stytting námstíma er því töluverð og meiri hvati til að ljúka námi.
Raunfærnimat er stökkpallur fyrir fullorðna einstaklinga inn í menntakerfið á ný þar sem starfsreynsla, félagsstörf, nám og lífsreynsla er metin formlega í skipulögðu ferli. Náms- og starfsráðgjafi fylgir þátttakendum í gegnum ferlið alla leið og styður jafnframt við einstaklinginn eftir matið.
Í haust er Miðstöðin m.a. með raunfærnimat í Fisktækni sem er hagnýtt 2ja ára nám og byggt upp sem bóklegt og verklegt nám. Námið skiptist í þrjár línur, fiskvinnslulínu, fiskveiðilínu og fiskeldislínu. Námið gefur möguleika á fjölbreyttum atvinnutækifærum í vaxandi sjávarútvegi og/eða til áframhaldandi náms.
Einstaklingar sem hafa að minnsta kosti 3ja ára starfsreynslu á þessu sviði og eru orðir 23ja ára eiga erindi í raunfærnimat á þessari braut. Eftir matið hefur þátttakandi tækifæri til að ljúka brautinni en jafnframt möguleika á áframhaldandi sérhæfðu námi fyrir sjávarútveginn eins og Marel vinnslutækni og gæðastjórnun. Marel vinnslutækni er eins árs nám við vélar og hugbúnað frá Marel. Gæðastjórnun er einnig eins árs nám sem skiptist í fagbóklegar greinar og vinnustaðanám undir leiðsögn tilsjónarmanns.
Raunfærnimat í Fisktækni er frábært tækifæri fyrir einstaklinga sem hafa starfsreynslu í fiskvinnslu, á sjó eða í fiskeldi. Þess ber að geta að raunfærnimat er þátttakanda að kostnaðarlausu.
Raunfærnimat er ekki skuldbinding af hálfu þátttakanda til frekari náms. En oft leiðir matið til frekari náms. Nokkuð margir sem hafa mikla reynslu úr sjávarútveginum hafa fengið 75-85% metið af fisktæknibrautinni og hafa í kjölfarið nýtt sér matið til frekara náms.
Sveinn Örvar er einn þeirra sem fór í gegnum raunfærnimat í fisktækni og er nú í miðju námi í fiskeldisfræði í Hólaskóla.
„Starfsmaður hjá MSS og gamall nágranni vissi að ég hafði slasað mig út á sjó og þá hafði ég verið mörg ár á sjónum. Hún benti mér á að raunfærnimat í fisktækni væri sniðugt fyrir mig til að fá reynslu mína á sjó metna til eininga. Ég tók vel í þetta og í gang fór ferli. Ég þurfti að svara nokkrum spurningum og meta hvar ég stæði á hinum ýmsu sviðum sem tengjast sjómennsku. Seinna fór ég síðan í munnlegt samtal þar sem ég þurfti að svara hinum ýmsu spurningum um sjómennskuna. Ég var ansi stressaður um að ég hafði klúðrað því, huggaði mig þó við að ég hafði gert mitt besta og meira var ekki hægt að gera. Seinna fékk ég út úr matinu og stóðst ég það með stæl og fékk tæpar 80 feiningar metnar. Í framhaldi af því skellti ég mér í Fisktækniskólann í Grindavík og útskrifaðist þaðan sem fisktæknir. Núna er ég í Háskólanum á Hólum að læra fiskeldisfræði og líkar mjög vel. Þannig að raunfærnimatið kom mér af stað aftur í skóla og mæli ég með því að fólk með mikla starfsreynslu á sjó skelli sér í matið, því það hefur engu að tapa.“
Áhugasamir um raunfærnimat geta haft samband við Jónínu Magnúsdóttur náms- og starfsráðgjafa MSS með því að senda póst á netfangið [email protected] eða hringja í síma 412-5958.