Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Af hverju Grindavík?
Þriðjudagur 10. maí 2022 kl. 18:32

Af hverju Grindavík?

Það mikilvægasta í mínu lífi er fjölskyldan, svo ég og maðurinn minn ákváðum að breyta til og flytja á stað þar sem við gætum notið okkar meira og boðið strákunum okkar upp á meira frelsi en á sama tíma öryggi.

Ég er s.s. nýflutt til Grindavíkur ásamt manni mínum og drengjunum okkar tveimur. Við bjuggum í íbúð á þriðju hæð á höfuðborgarsvæðinu áður en við tókum þá ákvörðun að flytja til Grindavíkur. Maðurinn minn vinnur í Hafnarfirði en er í raun fljótari í vinnuna en margir samstarfsmenn hans sem búa á höfuðborgarsvæðinu!

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Við tókum þá ákvörðun að flytja þegar við eignuðumst okkar annað barn. Við vildum betra umhverfi fyrir strákana okkar til að alast upp í. Við fórum ófáar ferðir í alla smábæina nálægt höfuðborgarsvæðinu, til að skoða húsnæði og umhverfi. Í eitt skipti vorum við að skoða húsnæði í Grindavík sem okkur leyst síðan ekki á, vissum af öðru á sölu svo við keyrðum þar framhjá og enduðum við á því að banka bara uppá, þetta er framtíðarheimili okkar í dag. Það tók mig ekki langan tíma að fá vinnu í bænum og eldri strákurinn fékk strax pláss á leikskólanum, en því miður engin ungbarnaleikskóli. Grindvíkingar eru þó heppnir að hafa nokkrar dagmæður sem taka við ungu börnunum okkar og hugsa alveg sérstaklega vel um þau.

Það sem heillaði okkur við Grindavík er svo margt, umhverfið er afslappað og fallegt og fullkomið til að ala upp börnin okkar. Nágrannar, starfsfólk í bænum og samstarfsfólk tók svo ótrúlega vel á móti okkur og fannst okkur við í raun strax vera heima. Eldri strákurinn okkar getur farið út, leikið við krakkana í nágrenninu án þess að foreldrarnir farist úr áhyggjum. Hurðin okkar stendur nánast opin allan daginn, því krakkarnir labba bara inn og út, mér finnst þetta draumur!

Út frá mínu starfi hef ég líka kynnst mikið af fólki í bænum og séð betur hvernig allt kerfið virkar innan skólanna og frístunda. Þetta umhverfi veitir öryggi og hef ég fulla trú á því að bæjarráð sé tilbúið að takast á við það sem betur má fara!

Ég er að stíga mín fyrstu skref í bæjarpólitík og hef ég lært svo mikið! Ég hef fengið svör við mínum spurningum, eins og með ungbarnaleikskóla, það er í plani að byggja ungbarnadeild við alla leikskóla í bænum! Þó ég taldi mig hafa lesið mikið um bæinn áður en ég flutti og kynnt mér hluti, þá hefur hópurinn sem ég tilheyri, Rödd unga fólksins, upplýst mig um svo margt og kveikt á einhverjum loga sem þráir að taka þátt í því að gera bæinn okkar enn betri.

Grindavíkurbær er frábært staður til að búa á, umhverfið og fólkið, hins vegar veit ég að það er alltaf hægt að gera enn betur, fjárfestum í framtíðinni!

Anna Long, forstöðumaður frístundar í Grindavík.

Skipar 10.sæti hjá Rödd unga fólksins