Af hverju ég og af hverju Viðreisn?
Eins og eflaust mörg okkar, forðaðist ég lengi vel að koma nálægt flokkspólitík. Ég vildi ekki merkja mig ákveðnum flokki og taldi það farsælla að vera óháð, þá sérstaklega vegna þess að ég er tengd fræðasamfélaginu og þar viljum við flest helst halda pólitísku hlutleysi. Ég er engu að síður í eðli mínu mjög pólitísk og brenn fyrir réttlátu samfélagi og umhverfis- og loftslagsmálum.
Ég komst svo að því fyrir nokkrum árum að það að skrifa lærðar greinar um umhverfismál og nauðsynlegar kerfisbreytingar virkar ekki eitt og sér, skilaboðin verða að rata á rétta staði. Það er, inn í umræðu og ákvarðanatöku í þingsal. Ég ákvað því að stíga út fyrir þægindarammann og blanda mér af fullum þunga í stjórnmálaumræðuna, allt í þágu málstaðarins.
Beint í umhverfis- og auðlindaráðuneytið
Það endaði þannig að árið 2017 var ég aðstoðarkona Bjartar Ólafsdóttur þáverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, í hennar ráðherratíð. Ég tók síðan þátt í að stofna óháða bæjarmálafélagið Okkar Hveragerði og sat sem bæjarfulltrúi þess frá 2018 út árið 2020, eða þar til ég flutti í Grímsnesið. Mér fannst ég þó eiga enn mikið ósagt og ógert hvað varðaði umhverfismálin, og fór að skoða hvaða flokki ég gæti hugsað mér að tengjast, til að nota röddina á ný. Til viðbótar því að vilja búa í réttlátu samfélagi þar sem umhverfis- og náttúruvernd er í öndvegi, er ég frjálslynd, alþjóðasinnuð og hrifin af norræna velferðarkerfinu svo dæmi séu tekin.
Viðreisn þorir
Ég fann það fljótt út að Viðreisn er málefnalega sá flokkur sem ég tengi best við. Það sem hrífur mig þó mest við Viðreisn er að flokkurinn þorir að láta í sér heyra og er óhræddur við að leggja til breytingar á núverandi stjórnkerfum, almenningi til hagsbóta. Það sést einna best á áherslum flokksins í sjávarútvegsmálum, í að þjónustuvæða heilbrigðiskerfið, í að vilja bæta hag landsmanna með því að tengja gengi krónunnar við Evru og ekki síst í stefnu flokksins í umhverfis- og loftslagsmálum. Viðreisn er til að mynda eini frjálslyndi flokkurinn með öfluga loftslagsstefnu, samkvæmt Sólarkvarða Ungra umhverfissinna.
Ég valdi því Viðreisn og vona að sem flest okkar geri slíkt hið sama á kjördag, þann 25. september nk.
Þórunn Wolfram
skipar annað sætið á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.