Aðstöðumál íþróttafélaga Reykjanesbæjar
- Opið bréf til oddvita stjórnmálaflokkanna í Reykjanesbæ
- Hver er framtíðarsýn framboðanna í bænum?
Nú styttist allverulega í sveitarstjórnarkosningar, rétt um þrjár vikur til stefnu, og lítið er farið að bera á kosningabaráttu framboðanna í Reykjanesbæ.
Á síðasta ári voru íþróttafélögin í bænum beðin um að leggja í stefnumótunarvinnu, vinnu sem ætti að draga upp skýra mynd af forgangsröðun þeirra í sambandi við uppbyggingu og þörf á endurbótum á aðstöðu félaganna í nánustu framtíð. Nú er staðan sú að einhver mannvirki sem hýsa íþróttaaðstöðu félaganna eru í söluferli, liður í samningum Reykjanesbæjar við kröfuhafa. Hvað ef þessar eignir seljast? Er búið að gera einhverjar ráðstafanir til að mæta þeirri þörf sem skapast ef það gerist? Nú hef ég lítillega kíkt á Facebook-síður og heimasíður framboðanna en finn litlar eða engar upplýsingar um stefnu þeirra. Því spyr ég forsvarsmenn framboðanna hér í bæ, beint út: „Hvað er á stefnuskrá þíns framboðs varðandi aðstöðu íþróttafélaganna í bænum?“
Ég óska eftir svörum í tölvupósti á [email protected] og mun birta þau á heimasíðu Golfklúbbsins, gs.is
Með kærri íþróttakveðju,
Jóhann Páll Kristbjörnsson,
formaður Golfklúbbs Suðurnesja