Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Aðgát skal höfð í nærveru sálar
Þriðjudagur 7. september 2004 kl. 16:15

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Heiðurslistar Grunnskóla Reykjanesbæjar eru því miður ekki tæmandi. Á listana vantar ýmsar keppnisgreinar. Má þar meðal annars nefna „Flottustu  skórnir“, „Best greidda hárið“, „Besta kennarasleikjan“, „Fæstu krummafætur í flokki 7 ára pilta“ o.s.frv. Síðan vantar í skólana áhorfendastúkur svo hægt sé að hvetja sinn keppanda og baula á hina. Eins vantar skýrar reglur um hvað lesblindir, smámæltir, sjóndaprir og aðrir flokkar fá í forgjöf.
Hvaða brenglun er komin í skólastjórnendur hér í Reykjanesbæ? Það sem manni datt fyrst í hug þegar maður sá þennan lista var: „Það þarf að finna þessu fólki eitthvað að gera.“ Síðan hvenær er grunnskólanám keppnisgrein? Ég hélt að svona hugsunarháttur hefði verið aflagður með spanskreyrnum og líkamlegum refsingum.
Hætt er við að þau börn sem komast á listann fari að telja sig betri en hin. Og þau sem ekki komast á listann upplifa þetta sem höfnum á allri þeirra vinnu, þó svo að þau hafi gert sitt besta. Svona listi getur aldrei orðið annað en óréttlátur. Því þeir sem raða á listann vita ekki allt um þá vinnu sem börnin leggja á sig. Og það er ekki til neinn mælikvarði á alla þá huglægu og líkamlegu vinnu sem börnin vinna. Það væri eins hægt að vera með tilviljunarkennt úrtak á þessum lista. Hugarfarið á bakvið svona lista er einnig mjög keimlíkt hugarfarinu á bakvið einelti. Því þó svo að yfirlýstur tilgangur sé góður þá er þarna verið að flokka börnin í hópa og refsa þeim að ósekju sem ekki lenda í réttum hóp.
Það er ekki nóg að ná prófunum í uppeldisfræðinni ef ekkert af henni situr eftir að námi loknu. Ég læt hér fljóta með tvær greinar úr grunnskólalögunum. Þar getið þið séð að svona listagerð er ekki hluti af starfi ykkar.

Í 29. gr. laga um grunnskóla segir:
„Í öllu skólastarfi skal tekið mið af mismunandi persónugerð, þroska, hæfileikum, getu eða áhugasviðum nemenda.“

Og síðan segir í 45. gr. sömu laga:
„Námsmat í grunnskóla skal að jafnaði framkvæmt af kennurum skólans og skulu nemendur og forráðamenn þeirra fá glöggar upplýsingar um námsárangur. Kennarar skulu gefa vitnisburð a.m.k. í lok hvers skólaárs.
 Óheimilt er að veita upplýsingar um vitnisburði einstakra nemenda öðrum en þeim sjálfum og forráðamönnum þeirra nema nauðsyn beri til vegna flutnings nemenda milli skóla. Þó skal heimilt að veita fræðsluyfirvöldum þessar upplýsingar og öðrum vegna fræðilegra rannsókna enda sé krafist fullrar þagnarskyldu.“

Vinsamlegast hættið nú þessari vitleysu og farið að gera eitthvað uppbyggilegt.
Sigurjón Kjartansson

Mynd úr safni VF

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024