Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

 Aðför gerð að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja
Sunnudagur 7. febrúar 2010 kl. 23:06

Aðför gerð að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja

Skurðstofur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja skulu lagðar af og reifaðar eru hugmyndir í Heilbrigðisráðneytinu um að selja tæki og áhöld til að minnka skuldir ríkissjóðs. Tæki sem sumhver voru gjafir frá góðgerðarsamtökum á Suðurnesjum.

Um þessar mundir ríkir mikið ófremdarástand í heilbrigðismálum á Suðurnesjum. Heilbrigðiskerfið er hvað viðkvæmast þegar beita á niðurskurði í fjárlögum, enda tengist það svo náið velferð hvers manns. Því miður er það svo að ekki allar heilbrigðisstofnanir sitja við sama borð og hafa raunar ekki gert það lengi. Frá árinu 2005 hefur íbúum Suðurnesja fjölgað mikið, en þrátt fyrir það hafa framlög til Heilbrigðisstofnunarinnar ekki verið leiðrétt í samræmi við íbúafjölda. Í um fjögurra ára skeið hefur stjórn og framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar haft það erfiða verkefni að aðlaga hverja rekstrareiningu sjúkrahússins að mjög svo skertum fjárframlögum svo um munar. Í ráðherratíð Ögmundar Jónassonar voru farnar þær leiðir til niðurskurðar að starfsmenn og framkvæmdarstjórn sameinuðust í aðgerðum til að draga úr kostnaði og lét árangurinn ekki á sér standa. Náðst hefur sparnarður upp á 5.2 % af áætluðum útgjöldm án þess að draga úr þjónustu eða að segja upp starfsfólki. Nú með tilkomu nýs Heilbrigðisráðherra og í aðdraganda stórfellds niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu er ljóst að ekki er hægt að skera meira kjöt af beinum. Beinin verða höggvin í sundur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Boðað er að skurðstofum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) í Reykjanesbæ verður lokað þann 1. maí nk. Þetta kom fram í uppsagnarbréfi til starfsmanna á skurðstofum. Þá hefur fleira starfsfólki verið sagt upp störfum og til tals hefur komið að sykursýkismóttöku verði lokað um næstu mánaðamót og starfsfólki sálfélagsþjónustu sagt upp. Fyrirhugað er að loka fyrir rannsóknir sem gerðar eru í nýju tölvusneiðmyndatæki, sem nýlega var tekið í notkun og var gjöf frá Kaupfélagi Suðurnesja.


Verið er að færa þjónustuna áratugi aftur í tímann og vísa á sjúklingum til Reykjavíkur í enn meiri mæli.


Læknaþjónusta verður skert enn meira, og enginn starfandi sérfræðingur bakhjarl fæðandi kvenna. Nú þegar er mönnun á heilsugæslu í algjöru lágmarki. Einungis sex heilsugæslulæknar og þrír almennir læknar starfa nú við heilsugæsluna og ekki er að sjá að þeim takist að sinna nema broti af þörf íbúanna.


Heilbrigðisstofnun Suðurnesja er dæmi um stofnun sem skipar veigamikið hlutverk í samfélagslegri þjónustu við íbúa sína. Hún hefur eflt sveitarfélagið, stuðlað að auknu menntunarstigi og laðað til sín fjölda fólks sem hér hafa sest að á Suðurnesjum. Stofnunin er samfélaginu mikilvæg og hafa starfsmenn sem þar starfa unnið af heilindum og þar hefur skapast einstakt andrúmsloft sem rómað er um allt land. Til að mynda hefur fæðingardeild Heilbrigðisstofnunarinnar einstakt yfirbragð sem laðar konur hvaðanæva af landinu til þess að eiga hér börnin sín. Forsvarsmenn fæðingardeildarinnar hafa barist í langan tíma fyrir opnun sólarhringsskurðstofu svo hér megi búa fæðandi konum gott umhverfi og skapa öryggi allt árið um kring. Baráttan hefur staðið lengi og ekki verið auðveld. Nú er svo komið að öll starfsemi skurðstofunnar verður lögð niður og á að færast til Reykjavíkur. Þetta mun hafa þau áhrif að þær konur sem er í áhættu á meðgöngu og fæðingu þurfi að leita til Reykjavíkur eftir þjónustu, svo ekki sé talað um áhrif þess að hafa hér enga skurðstofu ef eitthvað út af bregður í sjálfri fæðingunni, burt sé frá því hvort konan er í áhættu eður ei. Einnig munu almennar skurðarðgerðir leggjast af sem og lýtarlækningar.

Á Suðurnesjum er mesta atvinnuleysi á landinu, um 13.6 %, samkvæmt frétt frá Vinnumálastofnun sem birt var 14. janúar 2010. Suðurnesjamenn hafa aðlagað sig að nýjum aðstæðum og með dugnaði hefur þeim tekist að byggja upp nýtt samfélag á svæðinu í kjölfar brottfars varnarliðsins, tengt menntun og menningu. Ásbrú er fjölskylduvænt samfélag sem hefur laðað að fjölda fólks er þar starfar og nemur á svæðinu. Hér eru fjölmörg tækifæri og ef vel er hlúð að þessum nýju íbúum svæðisins eru meiri líkur á því að hér staldri fólk við og efli menntunarstig svæðisins og taki þátt í uppbyggingu, og er þá horft sérstaklega til frumkvöðlasetursins Eldey.


Fjármagn til heilbrigðisstofnana er reiknað út eftir ákveðnu líkani en spyrja má hvers vegna mismunun á fjárdreifingu er svo augljós, þegar samanburður er gerður á milli stofnana kragasjúkrahúsanna. Framlög per íbúa á Suðurnesjum eru lang minnst, rúmafjöldi er vantalinn og einingarverð á hvert rúm er lægra en annars staðar. Þegar að spurt er um leiðréttingu á misræmi er svarað að ekki sé fjármagn fyrir hendi til þess. Þá spyr maður sig, hvernig fjármagninu hafi verið útdeilt frá byrjun. Hvernig má það vera, ef sjúkrahúsin sitji við sama borð, að til lokunar þurfi að koma á stórum deildum á HSS, á meðan önnur kragasjúkrahús nái að hagræða án þess að til lokunar deilda þurfi að koma. Svarið er augljóst, þegar allt kjöt hefur verið skorið af beinum og laun starfsfólks lækkuð í samræmi við það, er ljóst að ekkert átti eftir að gera en að höggva beinin í sundur.


Starfsfólk Heilbrigðisstofnunarinnar hefur lagt sig fram við að finna lausnir til að minnka útgjöld, gefið af í launakröfum og jafnvel gefið vinnu sína. Hjúkrunarfræðingar og ljósmæður á sjúkrahússviði og heilsugæslusviði HSS hafa í fjöldamörg ár verið með næstlægstu laun á landsvísu, einnig hefur mannekla hrjáð þessa stofnun í áratugi og álag því verið mikið. Fram kemur í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins „Endurskipulagning sjúkrahúsþjónustu á Suðvesturhorninu“ að framlegð starfsfólks HSS sé meiri en á sambærilegum stofnunum. Samanborið við aðrar stofnanir sýna tölur að meira álag er á hjúkrunarfræðinga sem starfa á HSS.


Þetta er óásættanleg aðför að svæðinu. Hér er vegið að landshlutanum, íbúum bæjarins og Suðurnesjamenn eru settir í annars konar flokk en aðrir landsmenn og niðurlægðir. Það fyllti minn mæli ég heyrði frá fundi í Heilbrigðisráðuneytinu með framkvæmdastjórn HSS þar sem reifaðar voru þær hugmyndir að selja tæki og tól skurðstofu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Þessi tæki voru sumhver gjafir sem góðgerðarsamtök hafa gefið stofnuninni og aðrir velvildarmenn stofnunarinnar.


Ég spyr hvort það sé hægt með einhverju móti að réttlæta þessa aðför að starfsmönnum Heilbrigðisstofnunarinnar og íbúum á Suðurnesjum? Er það stefna Ríkisstjórnarinnar að mismuna íbúum landsins með þessum hætti? Þetta er með öllu óviðunandi og nú er mál að við íbúar tökum okkur saman og mótmælum þessu óréttlæti og gefumst ekki upp. Nú þegar hafa safnast yfir 5400 undirskriftir frá íbúum Suðurnesja sem harðlega mótmæla hvers skyns skerðingu á þjónustu á svæðinu og starfsmenn hafa skrifað greinar í ljósi þessarar gífurlegu mismununar.


En bíðum nú við, Álfheiður Ingadóttur hefur sett starfsmönnun stofnunarinnar stólinn fyrir dyrnar og bendir allt til þess að það sé ritskoðun í gangi. Hún hefur spurst fyrir um starfsmenn og reynt að draga úr því að þeir tjái sig um málefni stofnunarinnar og gagnrýnt skrif þeirra. Það getur hver maður séð að Heilbrigðisráðherra heldur starfsmönnun stofnunarinnar í gíslingu og þessi vinnubrögð eru með öllu ólýðræðisleg. Veit undirrituð ekki betur en hún hafi í broddi fylkingar staðið fyrir utan Alþingi og hrópað háðsyrði og skammarorð um þing er hún sjálf starfaði á. Aðspurð sagði hún að; „það að vera kjörinn á þing tekur ekki af mönnum stjórnarskrárvarinn rétt til þess að lýsa skoðunum sínum hvort heldur í orði eða með þátttöku í friðsamlegum mótmælum.“ Nú spyr ég Álfheiður Ingadóttir, hefur þú einkarétt á stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi? Er þín túlkun á lýðræði á einn veg, eða þannig að þín skoðun sé sú eina rétt og aðrar skoðanir séu að vettugi virtar.


Kæru þingmenn landhlutans, það er ykkar hlutverk, sama hvaða flokki þið tilheyrið að berjast fyrir það fólk sem kaus ykkur til Alþingis og sýna ykkar styrk. Þetta mál mun ekki gleymast heldur mun ykkar framganga sýna sig í næstu kosningum. Við verðuð öll sem eitt að berjast fyrir óskertri þjónustu á HSS.


Með virðingu
Hanna Björg Konráðsdóttir,

íbúi, móðir og nemandi í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri.