Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Aðfluttur í framboði
  • Aðfluttur í framboði
Fimmtudagur 8. maí 2014 kl. 14:50

Aðfluttur í framboði

– Viktor Scheving Ingvarsson skrifar

Ég er fæddur og uppalinn í Vestmannaeyjum. Það er sérstök reynsla að vera kominn í framboð í samfélagi eins og Grindavík, eftir nokkra ára búsetu. Það er svolítið öðruvísi en að bjóða sig fram hafi maður búið í samfélaginu alla tíð. Það er margt sem að maður þekkir ekki vel. Hvert samfélag hefur sín sérkenni. Ég er ákveðinn í að búa í þessu ágæta samfélagi, sem er ekki svo frábrugðið mínu uppeldisplássi. Eitt af því sem ég hugsaði þegar að ég ákvað að að fara í framboð var hvernig tengist ég samfélaginu best. Hvernig tengi ég mig við sögu þessa mikla sjávarútvegsbæjar sem Grindavík er. Ég er sannfærður um að í hverju samfélagi svífur yfir andi liðinna tíma. Gleði og sorgir liðinna tíma. Ég hugsaði með mér að til að tengjast þessu betur þá verð ég að gera eitthvað til þess. Það er ekkert betra til þess en að vinna að málum samfélagsins. Taka virkan þátt í viðhaldi og mótun þess. Reyna að gera gott betra. 
 


Það er eitt að hugsa um að fara í framboð og annað að framkvæma það. Sem betur fer hugsaði ég ekki um orðið framboðsraunir áður en ég tók þetta skref. Ég er ekki alveg viss um að ég hefði stokkið út í djúpu laugina ef ég hefði eitthvað velt fyrir mér því orði áður en að ég stökk. Ég er ánægður ákvörðunina. En engu að síður er til eitthvað sem að heitir framboðsraunir. 

 

Nýkominn heim af sjó og allt í einu er ég mættur á málefnahelgi, hjá framboðinu. Ég finn það að ég veit lítið um sum málefnin . Ég hlusta og reyni að læra af því fólki sem er þarna. Bæði frambjóðendum og því fólki sem að mætir þarna af áhuga og hugsjón fyrir Grindavík. Ég dáist að því fólki sem að mætir á þessa fundi. Sem lætur sig samfélagið varða án þess að bjóða sig fram. Ég á margt ólært. Ég fer í gegnum allan tilfinningaskalann á þessari helgi. Um tíma finnst mér að ég eigi að vita allt um það hvernig bæjarfélagið starfar og það án þess að hafa nokkurn tíma komið nálægt slíkri stjórnun. Það er náttúrulega mikið rugl. Maður getur ekki vitað alla hluti. Reynsluboltarnir ekki heldur. En ég er hluti af samfélaginu og finn það að ég hef áhugann. Það skiptir miklu máli. Ég bóka mig því í aukatíma hjá reynsluboltum og reyni að setja mig hratt inn í þau mál sem að brenna á í Grindavík. Ég hitti fólk sem er hafsjór af fróðleik. Við ræðum um lífið frá vöggu til grafar. Við ræðum um Leik og grunnskóla, málefni fatlaðra og eldri borgara, atvinnu og menningu, göngustíga og ferðamenn, höfnina og íþróttahús, skipulag og skipurit, rusl og drasl, grænar tunnur og gráar, debet og kredit og allt það sem að fylgir því að reka sveitafélagið Grindavík. 
 


Er ég einhverju nær eftir helgina. Já þetta var fín helgi. Mikill lærdómur fyrir mig. Þetta er skrifað á sunnudagskvöldi. Ég er ánægður með það fólk sem að ég hef kynnst um helgina. Það hefur lagt sig fram um að fræða mig um sína reynslu, vonir og væntingar. Það hefur tekið mér vel. Ég vona að sú tilfinning sé gagnkvæm. Ég vona að fólk upplifi mig sem hlekk í keðju jafnaðarstefnunnar. Ég vona að þetta hugsjónafólk sem ég kynntist um helgina upplifi svipaðan styrk í mér og ég upplifi í kynnum mínum af því. Einhversstaðar stendur að glöggt sé gests augað. Hugsanlega er eitthvað til í því. Kannski hjálpar það bara, að hafa einn aðfluttan með. Svo getur verið að það skipti ekki öllu hvað ég þekki og veit í dag, heldur hvernig ég mæti verkunum. Ég mun leggja mig fram um að gera það af virðingu og réttsýni. Ætli það sé ekki mikilvægast.
 
Viktor Scheving Ingvarsson áhugamaður um gott mannlíf.
Undirritaður er skipstjóri og skipar 3 sæti á lista Samfylkingarinnar. 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024