Aðdáendur fallna meirihlutans vita að sjálfssögðu betur!
Íbúar Reykjanesbæjar eru óðum að vakna upp við þann vonda veruleika að athugasemdir minnihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar síðustu 12 ár voru ekki sprottnar upp úr vankunnáttu á rekstri bæjarins, almennum leiðindum og tuði eða meintri fyrirtíðaspennu bæjarfulltrúa.
Athugasemdirnar tilkomnar vegna þess að að fjárhagsstjórn sjálfstæðismanna var í rugli. En þeir rugluðu í fleiru en fjárhagsáætlunum, þeir rugluðu í íbúum bæjarins. Sýndu kolvitlausa mynd af rekstri, tekjum og fjárstreymi. Það er sú mynd sem við blasir í dag í rekstri bæjarins. Það er sú arfleifð sem Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjanesbæ skilur eftir sig eftir 12 ára hreinan meirihluta.
Þrifið eftir veisluna
Partýið er búið, veislan endalausa þar sem stöðugt var veitt en þó aðallega innvígðum og prúðbúnum boðsgestum og allt tekið að láni eða eignir settar í pant.
En nú þarf að taka til eftir veisluna og það vita allir sem hafa þurft að taka til eftir partý að það er sama hversu gaman var og hversu vel var veitt og fólkið skemmtilegt, að þegar vínið fer að staðna í glösunum og ávextirnir að verða linir í skálunum fer mesti glansinn af veislunni. Slettur um gólf og veggi. Allt lekið og tekið og jafnvel einhver gleymt að sturta niður. Súr lyktin liggur í loftinu. Svo sannarlega verk að vinna!
En rétt þegar hreingerningarfólkið birtist og er að reyna átta sig á því hvar sé best að byrja þrifin eftir hið gegndarlausa partý, koma veisluhaldarar og vilja fá að stjórna því líka.
Meirihluti bæjastjórnar Reykjanesbæjar hefur frá því í vor verið að reyna átta sig á stöðu bæjarins. Því miður var lítið að græða á glærum íbúafunda síðustu ára.
Það þurfti að kafa dýpra. Reyndar hafði fyrverandi bæjarstjórn samþykkt að hefja þá vinnu fyrir kosningar. En hafi einhverja grunað að staðan væri slæm þá var hún verri. Það er ástæðan fyrir því að grípa þarf til róttækra aðgerða.
Sú aðgerð sem bæjarstjórn Reykjanesbæjar valdi að fara er blönduð leið. Í henni verður hagrætt í rekstri bæjarins, gjöld og skattar íbúa hækkaðir þó reynt verði að fara hóflega í það.
Þetta er margra ára vinna við að koma hlutunum í réttar skorður.
Klappstýruhópur íhaldsins
En nú ber svo við að rétt þegar vinnan við að hreinsa upp óreiðu Sjálfstæðisflokksins er að hefjast fer að bera á blaðagreinum sem skrifaðar eru til þess eins að gera lítið úr þeim björgunaraðgerðum sem þarf að grípa til.
Og það er furðulegra en orð fá lýst að fyrstur til að úttala sig um aðgerðaráætlunina, sem nefnist Sóknin, er brottfluttur íbúi, fyrrverandi meðlimur í klappstýruhópi íhaldsins í Reykjanesbæ, Margeir Vilhjálmsson.
Vissulega tapaði Sjálfstæðisflokkurinn meirihluta sínum í síðustu kosningum en að hrunið í röðum þeirra væri svo alvarlegt að það þurfi að leita út fyrir bæjarmörkin til að finna einhvern til að tala þetta niður er með hreinum ólíkindum.
Ekki nóg með það að Margeir tali fyrir gömlu gildum íhaldsins, um að skattahækkanir séu vonlaus leið til að rétta við bágan efnahag, þá ýjar hann að því að best sé að bíða eftir aukinni uppbyggingu atvinnulífsins.
En það er einmitt það sem við gerðum of lengi, allt of lengi, að bíða eftir kraftaverkum íhaldsins.
Nú er staðan þannig að engir peningar eru til. Lánalínur stíflaðar og ekkert annað að gera en bretta upp og hefjast handa. Þá ryðjast fram á ritvöllinn aðdáendur gamla vonlausa kerfisins og þykjast vita betur.
Og til að kóróna allt þá dettur Margeiri í hug að draga einn af bæjarfulltrúunum inn í umræðuna og gera hann tortryggilegan vegna atvinnu sinnar sem formaður stéttarfélags. Ósmekklegt af Margeiri. Ég er þess reyndar fullviss að andúð hans á Verslunarmannafélagi Suðurnesja og formanni þess eigi ekki rætur að rekja til einlægs áhuga Margeirs á bættum kjörum launafólks, heldur einhverju allt öðru sem ekki verður rætt hér.
Óhjákvæmilegar aðgerðir
Eins og áður sagði er það skítt að þurfa taka til eftir aðra, en valkostirnir sem við, íbúar okkar góða samfélags, stöndum frammi fyrir eru því miður ekki margir og engir góðir. Það verður að ráðast í þetta verkefni, ná niður skuldunum. Það er ekki hægt að bíða og vona að þetta reddist, því það gerist ekki!
Það verða íbúar í bænum sem munu þurfa að axla ábyrgð á fjármálaóreiðu íhaldins í bænum. Ekki brottfluttir aðdáendur fallna meirihlutans.
Kristján Jóhannsson
varabæjarfulltrúi Beinnar leiðar.