Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að vita upp á sig skömmina – Framsókn í vörn
Mánudagur 18. febrúar 2008 kl. 09:34

Að vita upp á sig skömmina – Framsókn í vörn

Viðbrögð framsóknarmanna við greinarstúf mínum á vf.is á fimmtudag hafa verið nokkur. Þó gerði ég ekki annað en að draga fram það sem formaður Framsóknarflokksins sagði í fréttum útvarps þann dag, þ.e. að Framsóknarflokkurinn legðist gegn þeim álversframkvæmdum sem fyrirhugaðar væru og þegar að því kæmi að stóriðjuframkvæmdir færu af stað ætti að byggja upp á Bakka en ekki í Helguvík. Skýrara gat það ekki verið og útilokað að skilja það öðruvísi.

Gremja Bjarna Harðarsonar og Helgu Sigrúnar Harðardóttur er skiljanleg í ljósi þess að þau eru frambjóðendur og fulltrúar Suðurkjördæmis og ættu því að styðja við atvinnuuppbyggingu í kjördæminu, atvinnuuppbyggingu sem skapar fjölda vel launaðra starfa á svæði sem löngum hefur verið talið láglaunasvæði. En gremja þeirra ætti fremur að snúa að formanni Framsóknarflokksins og því sem hann sagði en ekki að mér.

Það gildir einu hvort ég hef að aðalstarfi að vera aðstoðarmaður fjármálaráðherra eða bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ. Formaður framsóknarflokksins sagði eitt og hið sama í útvarpsfréttunum þennan dag gegn áformum um álver í Helguvík.

Það eru léleg og haldlaus rök að segja að óvíst sé um orku og línulagnir í Helguvík. Orkusamningar vegna álversins liggja fyrir við Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur og Norðurálsmenn eru tilbúnir að hefja framkvæmdir við fyrsta áfanga álversins með það í hendi. Síðar mun svo skýrast hvenær unnt verður að fara í annan áfanga framkvæmdarinnar. Nýjar og öflugri raflínur frá Hafnarfirði til Reykjanesbæjar verða lagðar með einum eða öðrum hætti. Ef menn efast um að nýjar raflínur til Suðurnesja verði lagðar getum við eins hætt strax að byggja upp á Suðurnesjum. Öll uppbygging, bæði íbúafjölgun og minni fyrirtæki, krefst þess að nýjar raflínur verði lagðar til Suðurnesja, óháð álveri í Helguvík eða ekki.

Ég tek undir orð Einars Bjarnasonar, vélvirkja úr Garði sem skrifaði á vf.is og hvatti menn til samstöðu um uppbyggingu álvers í Helguvík. Framsóknarmenn ættu að taka sér það til fyrirmyndar og setja krafta sína í það í stað þess að skamma mig fyrir það sem formaður Framsóknarflokksins sagði í útvarpinu.

Böðvar Jónsson
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ
og aðstoðarmaður fjármálaráðherra

  

 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024