Að vinda ofan af húsnæðisokrinu
- Aðsend grein frá Skúla Thoroddsen
Leigufélagið Ásabyggð sameinaðist í síðasta mánuði langstærsta leigufélagi landsins, Heimavöllum. Stærstu eigendur þess eru fjármagnseigendur sem auðvitað þurfa að hækka leiguna. Sorglegt er að sjá einn lífeyrissjóð, Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda, í þessum pakka. Eins og kunnugt er þurfa lífeyrissjóðir að fá að minnsta kosti 3,5 prósenta arð af fjárfestingum sínum. Því má gera ráð fyrir að arður af leigunni verði ekki minni en 3,5 prósent af fjárfestingunni, sennilega mun hærri. Það er eðli og tilgangur leigufélagsins að græða á þeim sem þurfa að leigja og eiga ekki annarra kosta völ. Sem sagt viðskiptasjónarmið og gróði í fyrirrúmi. Síðastliðin ár hafa leigufélögin keppst um að kaupa allt húsnæði sem kaupandi er á höfuðborgarsvæðinu til útleigu fyrir hæstbjóðanda. Þetta kallar á svimandi háa leigu á höfuðborgarsvæðinu, og svo hátt fasteignaverð að ungt fólk getur ekki keypt. Þessu er öðruvísi farið á Norðurlöndunum. Þá er brugðist við svona gróðabralli. Á hinum Norðurlöndunum öllum og í öðrum siðmenntuðum löndum, eins og til dæmis í Þýskalandi, Belgíu og Hollandi, er markvisst unnið að því að til dæmis ungu fólki standi til boða leiguhúsnæði við hæfi á kostnaðarverði. Þar er litið á húnsæði sem grunnþörf einstaklinga og fjölskyldna, en ekki til að græða á því. Ungt fólk á rétt á að flytja að heiman. Fólk á ekki að þurfa að verða að þrælum leigusala sinna.
Allir þurfa þak yfir höfuðið. Samfélagið á að gera það mögulegt með ódýru leiguhúsnæði, meðal annars eins eða tveggja herbergja íbúðum fyrir ungt fólk sem vill flytja að heiman og efnaminni einstaklinga. Það eru oftast sjálfseignarstofnanir sem reka slíkar íbúðir. Hagnaðurinn hverfur aldrei úr félaginu, hann er nýttur meðal annars til lækkunar á leigu auk þess sem stærð sjálfseignarstofnunarinnar leiðir til hagkvæmni í rekstri. Fjárfestingarkostnaður er greiddur niður á mjög löngum tíma, dreift á mörg ár, sem lækkar leigu. Það er eðli og tilgangur slíkra sjálfseignarstofnana að útvega húsnæði á viðunandi kjörum fyrir venjulegt fólk. Ekki til að mergsjúga leigjendur. Ekkert er því til fyrirstöðu að slíkar sjálfseignarstofnanir hasli sér völl hér á landi. Félagsstofnun stúdenta rekur og hefur rekið svona íbúðir í 38 ár með góðum árangri, þó aðeins fyrir námsmenn. Það má líka gera fyrir aðra. Lög um sjálfseignarstofnanir nr. 33/1999 ramma slíka starfsemi og nú í ár hafa bæst við ný lög, lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Markmið þeirra laga er að bæta húsnæðisöryggi fjölskyldna og einstaklinga, sem eru undir tekju- og eignamörkum. Í því skyni er ríki og sveitarfélögum heimilt að veita, til dæmis sjálfseignarstofnunum, stofnframlög til byggingar og kaupa á almennum íbúðum til að stuðla að því að í boði verði leiguíbúðir á viðráðanlegu verði fyrir þá sem þurfa á því að halda.
Hvernig væri nú að Reykjanesbær beitti sér, til dæmisí samvinnu við verkalýðsfélögin, fyrir stofnun sjálfseignarstofnunar sem hefði það að markmiði að leigja fólki húnsæði á kostnaðarverði að norrænni fyrirmynd? Slík leigustofnun mundi án efa mælast vel fyrir. Samkeppni við slíkar sjálfseignarstofnanir mundi vafalaust lækka, ekki bara leiguverð, heldur líka íbúðaverð á almenna fasteignamarkaðinum. Það yrði góð byrjun á að vinda ofan af húsnæðisokrinu.
Skúli Thoroddsen
Höfundur býr í Reykjanesbæ