Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að vera skólaforeldri
Miðvikudagur 25. ágúst 2010 kl. 15:32

Að vera skólaforeldri

Um leið og barn þitt hefur grunnskólagöngu verður þú sjálfkrafa meðlimur í foreldrafélagi skólans en þau eru nú lögbundin. Heimili og skóli - landssamtök foreldra hvetja foreldra til að vera virkir í skólastarfinu og taka þátt í starfsemi foreldrafélaganna strax frá skólabyrjun. Rannsóknir sýna að það að foreldrar hittist og þekkist hefur forvarnaráhrif. Mikilvægt er að foreldrar nálgist nauðsynlegar upplýsingar um starfsemi síns foreldrafélags og kynni sér skóladagatal og skólanámskrár. Þá er gott að yfirfara hvaða upplýsingar liggja fyrir um barnið í skólanum og tilkynna skólanum ef um er að ræða breytta hagi já barninu eða foreldrum þess.
Hafi foreldrar t.d. skipt um netfang er mikilvægt að skólinn fái að vita af því til að tryggja að nauðsynlegar upplýsingar berist milli heimila og skóla.

Á haustin er boðið uppá námsefniskynningar í mörgum skólum og þar geta foreldrar m.a. fengið upplýsingar um námsmarkmið,  námsmat og um tölvusamskipti sem fara fram í gegnum upplýsingakerfið Mentor.

Í flestum skólum er líka boðið upp á  skólafærninámskeið fyrir foreldra 6 ára barna. Þar fá þeir kynningu á skólastarfinu, til hvers ætlast er af þeim sem skólaforeldrum, fræðast m.a. um þroska barna á hinum ýmsu aldursskeiðum, kynnast kennurum barnsins, starfsfólki skólans  og foreldrum bekkjarfélaganna. Á vegum foreldrafélaganna starfa tengiliðir eða bekkjarfulltrúar í hverjum bekk og gefst fólki þannig kostur á að bjóða sig fram til virkrar þátttöku í foreldrasamfélaginu.

Sumir skólar hafa foreldraviðtöl í tengslum við skólasetningu þar sem foreldrar geta hitt kennara barnsins strax fyrsta daginn í persónulegu viðtali. Láta foreldrar mjög vel að því að fá aðgang að kennaranum í skólabyrjun. Við það fá þeir kærkominn stuðning og hægt er að miðla  nauðsynlegum upplýsingum.

Viðhorf foreldra endurspeglast oft í viðhorfi barnanna til skólans því er áríðandi að foreldrar séu jákvæðir og ræði ekki neikvæðar hliðar skólastarfsins í návist barnanna. Nemendur þurfa að koma að hreinu borði í orðsins fyllstu merkingu og ekki er gott að draga fram gamla drauga eða atburði síðasta skólaárs. Foreldrar þurfa að huga vel að líðan barna sinna og leggja sig fram um að skapa börnunum jákvætt og uppbyggilegt námsumhverfi til að þau verði móttækileg fyrir því sem skólinn hefur fram að færa.

Foreldrar verum til staðar fyrir börnin okkar, nú sem endranær.

Undirbúningur foreldra að góðum skóladegi felst í að sjá til þess að barnið:
- komi útsofið í skólann
- borði hollan og góðan morgunverð
- taki með nægt og hollt nesti í skólann
-sé ekki með of þunga tösku og að þyngstu bækurnar séu næst bakinu
-fái ríkulega af hlýju, stuðning og áhuga frá sínum nánustu

Helga Margrét Guðmundsdóttir,
verkefnastjóri hjá Heimili og skóla
.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024