Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að vera eða ekki vera Hafnfirðingur
Sunnudagur 18. september 2005 kl. 23:33

Að vera eða ekki vera Hafnfirðingur

Ég fagna grein Þorvaldar Arnar Árnasonar sem birtist nýverið á vef Víkurfrétta. Umræður um sameiningarkosningar Hafnarfjarðar/ Vatnsleysustrandarhrepps hafa verið í undarlega hljóðlátum farvegi. Upplifun mín af þeirri íbúakönnun sem Þorvaldur gerir að umræðuefni og sameiningarkosningarnar byggja á, var mjög í anda þess sem hann lýsir; mér fannst mér vera stillt upp gagnvart nokkrum slæmum kostum og þurfa að velja einn þeirra.

Síðan þessi könnun fór fram og sameiningarhugmyndir varðandi Vatnsleysustrandarhrepp komust í þann farveg sem nú blasir við hefur afar lítið, ef nokkuð, verið gert til að kynna íbúum hreppsins kosti og galla hugmyndarinnar. Þrátt fyrir það hefur Vatnsleysustrandarhreppur um margra mánaða skeið verið með ráðgjafarfyrirtæki á launum við að meta hverju slík sameining gæti skilað okkur. Þessi vinna er ekki enn farin að skila sér til íbúa hreppsins svo að þeir geti tekið upplýsta afstöðu í sameiningarmálinu.

Nú er að vísu verið að boða slíka kynningu, en að mínum dómi erum við fallin á tíma. Það er örstutt í sameiningarkosningar og málið allt í hinni mestu þoku. Umræðan sem forystumenn sveitarfélagsins boða nú til er fallin á tíma. Mér finnst of seint að boða til kynningar og umræðu um svona mikilvægt og umdeilanlegt mál rúmri viku fyrir kosningar. Spilin hefðu þurft að leggjast á borðið strax í vor og síðan hefði átt að ganga í að svara þeim spurningum sem vaknað hefðu í kjölfarið. Loforðalistar í aðdraganda sameiningarkosninga eru reyndar marklaus plögg. Það sýnir reynslan. Eftir kosningar í vor í sameinuðu sveitarfélagi eru nýkjörnir sveitarstjórnarmenn óbundnar af ákvörðunum forvera sinna.

Hið opinbera markmið með sameiningu sveitarfélaga er að efla sveitarstjórnarstigið og þáttur í þeirri eflingu er að færa verkefni frá ríkinu til sveitarfélaganna. Á það hefur til að mynda verið bent að lítil og vanmáttug sveitarfélög eigi erfitt með að halda uppi lögboðinni þjónustu, s.s. skólahaldi. Almennar staðhæfingar um að stór og öflug sveitarfélög geti veitt betri og grunnþjónustu þarfnast nákvæmari útskýringa. Við höfum fjölmörg dæmi um sameinuð byggðarlög sem standa hallari fæti í dag heldur en fyrir sameiningu. Rökin varðandi hagkvæmni stærðarinnar hafa bitnað á þeim - hvað ætli margir skólar hafi verið lagðir niður og sameinaðir stærri einingum? Hvernig líður börnum sem þurfa að sitja tvo, jafnvel þrjá tíma í skólabíl daglega? Slíks eru dæmi. Er það góð þjónusta? Sannleikurinn er einfaldlega sá, að það eru hagsmunir meirihlutans sem ráða ferðinni og fjárhagsleg rök eru notuð þegar dregið er úr þjónustu við útkjálka í dreifbýlu sveitarfélagi, eða "óhagkvæmar rekstrareiningar" lagðar niður. Samt sem áður eru rökin fyrir sameiningu sveitarfélaga þau að það eigi að efla þjónustugetu sveitarstjórnarstigsins.

Hvaða þjónustuþættir koma til með að batna? Mun heilsugæsluþjónusta batna? Munu almenningssamgöngur batna? Mun verslunar- og bankaþjónusta batna? Mun grunnskóla- og leikskólaþjónusta batna? Mun íþrótta- og tómstundaaðstaða batna? Mun tónlistarskólaþjónusta batna? Mun íbúalýðræði aukast? Munu skattar lækka? Mun aðstaða og lífskjör eldri borgara batna? Mér finnst þessum spurningum og fjölmörgum öðrum ósvarað. Ef hagkvæmni stærðarinnar væri einvörðungu höfð að leiðarljósi væri sjálfgefið að vera aðeins með eitt sveitarfélag á Íslandi, sveitarfélagið Ísland. Á heimsmælikvarða væri það alls ekki stórt hvað íbúafjölda snertir. Þá væri hagkvæmni stærðarinnar fullkomnuð.

Það skipti í sjálfu sér ekki miklu máli fyrir okkur hér á Vatnsleysuströnd og í Vogum hvort miðstöð sveitarfélagsins væri í Reykjavík eða Hafnarfirði. Afl okkar innan slíks sveitarfélags yrði ekkert tiltakanlega minna undir slíku fyrirkomulagi heldur en Hafnarfjarðarsamruna, þ.e. nánast ekki neitt. Það sem gleymist er að það sem gerir lítil og miðlungsstór sveitarfélög eftirsóknarverð og spennandi búsetuvalkost eru auknir möguleikar fólks til að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi og sú sköpunargleði og lífsfylling sem það getur veitt. Ég hef ekki séð nein haldbær rök sem benda til annars en þess að Vatnsleysustrandarhreppur geti í framtíðinni, jafnt sem nú, verið sjálfstætt sveitarfélag. Ef einhver rök benda til annars þætti mér vænt um að fá þau í hendur til að geta vegið þau og metið.

Því miður er tíminn sem gefst til að gera upp huga sinn í sameiningarmálum á þrotum og þegar mikilvægar ákvarðanir eru teknar ana menn ekki að neinu. Munum að hér er um kaþólskt hjónaband að ræða; skilnaður er ekki leyfður.

Upplýsingar og umræðu skortir. Farsælast er að hafna sameiningu, því það er háskalegt að velja leið sem óvíst er um hvert leiðir mann, sérstaklega þegar fyrirséð er að ekki verður aftur snúið, lendi menn í ógöngum. Munum Svarfaðardal! Kröftum sveitarstjórnarmanna væri betur varið í að einbeita sér að því að sækja til ríkisins þá fjármuni sem þarf til að veita íbúum sveitarfélaganna þá samfélagsþjónustu sem þeir eiga rétt á, en láta það eiga sig að ganga erinda sameiningartrúboðanna í Félagsmálaráðuneytinu.

Snæbjörn Reynisson,
Vogum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024