Að standa í vegi fyrir uppbyggingu
Nærri helmingur þeirra erlendu ferðamanna sem heimsóttu Ísland á síðasta ári (46,6%), gerðu sér ferð á Reykjanesið. Það eru 10% fleiri erlendir ferðamenn en fóru upp á hálendið, samkvæmt nýjum upplýsingum Ferðamálastofu um ferðaþjónustuna á Íslandi 2011.
Slæmu fréttirnar eru þær að nú stendur til að rústa framtíðarmöguleikum til uppbyggingar ferðaþjónustu á Reykjanesskaga með þéttriðnu neti orkumannvirkja frá Reykjanestá að Þingvallavatni. Stöðvarhús, skiljuhús, borteigar, gufuleiðslur, háspennulínur í stálgrindarmöstrum og vegagerð í ósnortnu landslagi er það sem einkenna mun landslag Reykjanesskaga á komandi árum, samkvæmt Rammaáætlun sem nú er fyrir Alþingi.
Nánast allur Reykjanesskaginn verður gerður að samfelldu orkuvinnslusvæði með allt að 16 virkjunarsvæðum. Þeirra á meðal er Krýsuvík í Reykjanesfólkvangi, einn helsti viðkomustaður ferðamanna um Reykjanesskaga og með vinsælustu útvistarsvæðunum í nágrenni við mesta þéttbýlissvæði landsins. Að meðaltali um eitt þúsund ferðamenn komu daglega að hverasvæðinu í Seltúni samkvæmt talningu yfir sumarmánuðina 2011, eða um 110-120 þúsund ferðamenn yfir tímabilið.
Samkvæmt Hagstofunni fjölgaði seldum gistinóttum á hótelum og gistiheimilum á Suðurnesjum um 27% milli áranna 2010 og 2011. Þetta er mesta aukning á landinu milli ára.
Þessar staðreyndir tala sínu máli um þann uppgang sem er í ferðaþjónustunni á vestanverðum Reykjanesskaga, þeirri atvinnugrein sem er í mestri sókn á Íslandi. Tækifærin til uppbyggingar í ferðaþjónustu eru sannarlega fyrir hendi.
En það hugnast ekki þeim er einblína á „uppbyggingu“ sem kostar óafturkræf náttúruspjöll og ósjálfbæra orkunýtingu. Það eru þeir hinir sömu og hneykslast yfir þeim sem „eru á móti öllu“ og „standa í vegi fyrir uppbyggingu“. Þeir tala um „ögfasjónarmið í umhverfispólitík“ en sjá engar öfgar í því að breyta heilu landsvæði í nánast eina samfellda iðnaðarlóð þar sem helstu náttúruperlum þess verður fórnað. Að setja niður allt að 16 virkjanir frá Reykjanestá til Þingvallavatns kalla þeir „skynsamlega nýtingu orkuauðlinda“ með gjörnýtingu á öllum orkuauðlindum svæðisins svo ekkert verður eftir handa komandi kynslóðum.
En aftur að tölum Ferðamálastofu: Þegar erlendu ferðamennirnir voru spurðir að því í hverju styrkleikar íslenskrar ferðaþjónustu lægju svöruðu 72% þeirra þeir væru í náttúru og landslagi. Í öðru sæti var fólkið og gestrisnin eða 30,5%.
Mikill meirihluti, eða rétt tæp 80% sagði náttúruna hafa haft áhrif á ákvörðunina um að ferðast til Íslands, 39% nefndu íslenska menningu og sögu en aðrir þættir komu þar langt á eftir.
Ein af áherslunum í markaðssetningu höfuðborgar Noregs í ferðaþjónustu miðar að því hve stutt sé að komast frá miðbæ Oslóar í ósnortna náttúru kringum borgina. Þetta er eitthvað sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum munu ekki geta gert í framtíðinni.
Ellert Grétarsson,
stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands.
stjórnarmaður í Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands.
Myndin er frá hverasvæðinu í Seltúni í Krýsuvík. Það svæði er innan fólkvangsins sem breytt verður í orkuiðnaðarsvæði, samkvæmt rammaáætlun.