Að sparka í ellilífeyrisþega
Fréttir af áratuga framgöngu Jóns Baldvins Hannibalssonar á gráa svæðinu hafa tröllriðið fjölmiðlum að undanförnu. Ellihruma gamalmenninu var stillt upp sem skotmarki af hinum herskáa blaðamanni Fanneyju Birnu í Silfrinu á RÚV sl. sunnudag. Fanney Birna tók ítrekað fram í fyrir Jóni Baldvini með yfirgangi og vanþekkingu sinni og hafði greinilega það eitt að markmiði að níða skóinn af fyrrverandi ráðherra, sendiherra, skólameistara, kennara og pólitíska leiðtoganum Jóni Baldvini.
Jón Baldvin er í hugum margra nánast stofnun í sjálfu sér þegar kemur að ræðusnilld, húmor og skerpu og því dapurlegt að sjá vegið að heiðri þessa virðulega herra. Eða hvað?
Þeirri hlið hefur samt verið haldið duglega á lofti af ákveðnum hópi þjóðfélagsins. Er farsæll starfsferill nóg til að afsaka að minnsta kosti 23 þekkt tilvik um kynferðislega misbeitingu í krafti stöðu sinnar? Eru fyrrverandi ráðherrar og/eða sendiherrar komnir með frítt spil varðandi eigin gjörðir? Jón Baldvin Hannibalsson er manneskja eins og við hin. Ef hinn almenni borgari brýtur á rétti annarra þá þarf sá hinn sami að bera ábyrgð á því ... sama hversu ölvaður hann var.
Eins og fyrr segir þá eru komin fram 23 tilvik þar sem Jón Baldvin notfærði sér stöðu sína og yfirburði til að ná fram sínum vilja og áreita konur og börn kynferðislega. Já, ég sagði börn. Þetta var ekki einu sinni stundarbrjálæði. Þetta er kerfisbundin hegðun yfir marga áratugi. 23 þekkt tilvik þýðir að þau eru væntanlega fleiri. Mikið, mikið fleiri. Öllu valdi fylgir ábyrgð.
Það var kjánalegt að horfa upp á Jón Baldvin reyna að kasta ábyrgðinni frá sér yfir á alla aðra og mömmur þeirra líka, sem hann hefur væntanlega káfað á í einhverju fylleríinu. Það var viðbjóðslegt að sjá hann ata dóttur sína auri sjálfum sér til varnar. Sérstaklega í ljósi alls sem á undan hefur gengið. Það gerði mig reiða að heyra Jón Baldvin skýla sér á bak við „fjölskylduharmleik“ þar sem hann leikur aðalhlutverk sem gerandi. Það sannfærði mig þegar Jón Baldvin kallaði alla aðra en sig lygara og þetta væri allt stórt samsæri til höfuðs honum. Afsakið orðbragðið, en hver heldur hann eiginlega að hann sé? Orð eru ódýr og aðgerðir segja meira en orð. Þess vegna langar mig að hrósa Fanneyju Birnu sérstaklega fyrir að leyfa Jóni Baldvini ekki að komast upp með að kaffæra okkur með orðaflaumi á rýmingarsölu. Aðgerðir Jóns Baldvins dæma sig sjálfar, ekki orðagjálfrið sem kemur út úr honum þegar hann er allsgáður.