Að sjá flísina í auga bróður síns
Kolfinna Snæbjörg Magnúsdóttir skrifar.
Komdu sæll og blessaður Styrmir.
Það litla sem ég þekki til þín segir mér að þú sért frábær maður, stórkostlegur kennari og afar gefandi samfélagsþegn. Það hryggir mig mjög að sjá að þú hafir fallið í þá gryfju að persónugera pólitíkusa sem eru að vinna fyrir samfélagið á óeigingjarnan hátt.
Það er nú þannig sem betur fer í lífinu að það er gott fólk alls staðar í pólitík hvar í flokki sem menn standa. Við viljum öll vel það er engin spurning, veljum þó mismunandi leiðir að markmiðunum bæði til skemmri og til lengri tíma. Pólitíkin er í eðli sínu þannig að menn greinir á um leiðir. Þó við séum ekki sammála þú og ég hvaða leið sé farsælust til að skapa samfélag sem við getum öll lifað og búið í þá erum við ekki vondar manneskjur. Nei, þvert á móti það á að vera pláss fyrir margbreytileikann fyrir okkur öll hvar í flokki sem við kunnum að standa.
Allar hugmyndir og skoðanir til að gera samfélagið betra hljóta að vera af hinu góða. Krossfestum ekki þá valdhafa sem hafa umboð frá kjósendum til að stjórna þó við séum þeim ekki algjörlega sammála. Ég get bara sagt þér eftir mjög erfiða reynslu og sársaukafulla úr pólitík þar sem persónulegar árásir voru viðhafðar af fyrrum samstarfsfólki í pólitíkinni að það gerir engum neitt gott síst af öllu því samfélagi sem við búum í. Þeir sem skrifa í þeim anda segja oftar en ekki meira um sig en þá sem þeir hallmæla.
Þeir sem gefa af sér til samfélagsins hvort heldur við gerum það í gegnum pólitísk embættisstörf eða önnur störf gerum við eftir bestu vitund á hverjum tíma. Svo er það allt annað mál hvernig til tekst.
Við erum öll mennsk sem þýðir að við gerum mistök. Það er í lagi að vera ófullkominn svo framarlega sem maður er þess umkominn að bæta í og gera betur í dag en í gær.
Það er heldur útilokað að gera öllum til hæfis alltaf.
Ég er hrygg í hjarta mínu að sjá að yndislegt fólk sem gefur af sér og er svo mikilvægt fyrir samfélagið skuli nú velja að berast á „banaspjótum“ í fjölmiðlum. Með þeim hætti vegum við að þeim persónum sem verkin vinna. Þannig ætti pólitík ekki að þurfa að vera. Ég er viss um að eiginkona bæjarstjórans þíns og samstarfsfélagi þinn til margra ára er særð einmitt vegna þess að hún veit hversu orð geta verið megnug. Hún veit hversu mikilvægu hlutverki þú gegnir í samfélaginu. Hún veit hversu mikið maðurinn hennar hefur lagt sig fram til að gefa af sér fyrir samfélagið.
Ég sé að margir standa vörð um þín skrif og spara ekki stóru orðin í garð Árna. Nú styttist í kosningarnar. Ég vona innilega að það góða fólk sem vill vinna fyrir samfélagið í heild hvar í flokki sem það stendur beri gæfu til að sýna þann þroska að skrifa með uppbyggilegum hætti fremur en að að tala niður til fólks þó við séum ekki sammála í öllu.
Það er mín persónulega skoðun að fólk hafi lítið að gera í stjórnmál ef það treystir sér ekki til að vinna með ólíkum aðilum úr hinum og þessum flokkum. Það þarf að vera pláss fyrir okkur öll hvar í flokki sem við kunnum að standa.
Höldum áfram að gera samfélagið að betra stað til að búa og Reykjanesbær sem er leiðandi fyrir öll Suðurnesin þarf að sýna gott fordæmi. Ég óska bæjarstjóra Reykjanesbæjar góðs gengis í komandi kosningum, þakka honum frábær störf. Ég óska Reykjanesbæ alls hins besta í komandi sveitarstjórnarkosningum og treysti íbúum Reykjanesbæjar fyllilega til að velja það afl sem hver og einn telur að sé farsælast til að leiða bæjarstjórnarsamstarfið á komandi kjörtímabil.
Kolfinna Snæbjörg Magnúsdóttir