Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að missa flugið
Sunnudagur 23. september 2012 kl. 08:08

Að missa flugið

Múkkinn / fýllinn hógværasti og tryggasti vinur fiskimannsins, hann er alltaf nálægur og gefur lífinu lit. Í huga minn kemur viðburðarík hvalaskoðunarferð sem farin var með útlendingum. Í lok ferðar mátti hver sem vildi, veiða einn eða tvo fiska. Veiðin gekk vel og kom að því að slægja fiskinn sem vakti mikla forvitni útlendinganna. Mergð múkka flögraði í kringum bátinn, þeir vissu að koma myndi að þeim. Þegar fyrsta slóginu var fleygt fyrir borð var múkkinn viðbúinn sendingunni og upphófst mikið sjónarspil sem uppskar hlátur mikinn og upphróp. Ekki var undrun fólksins minni þegar slóginu var haldið út frá síðu bátsins og fólk og múkki nánast í einni kös. Þessi uppákoma held ég að hafi verið, af mörgum góðum, hápunktum ferðarinnar.

Við hjónin búum í fjölbýlishúsi með bílaplani. Eitt sinn þurftum við að bregða okkur af bæ og þar sem við komum út er illa gangfær fugl að brjótast um á planinu, ég sé að þar er kominn múkki. Múkkinn er þeirrar náttúru að sjái hann ekki sjóinn missir hann flugið og er algörlega ósjálfbjarga. Eitt sinn vorum við að fara til Reykjavíkur og á Strandaheiðinni sjáum við hvar múkki er nærri vegakantinum og skammt þar frá mávar sem vissu að hann var þeim auðfengin bráð. Við námum staðar og tókum vininn og settum hann út hjá Straumi. Nú þurfti að bjarga múkkanum á bílaplaninu, sóttur var plastpoki því múkkinn á það til að spúa daunillum grút. Það gerði hann ekki, þessi hegðan hans gæti verið til að verja varpið. Auðvelt var að fanga múkkann og keyra niður í Gróf, velja honum stað þar sem hann sá sjóinn og gat hlaupið nokkur skref til að ná flugi og svífa eins og honum einum er lagið.

S.B.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024