Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að læra að verða foreldri
Sunnudagur 11. nóvember 2012 kl. 05:00

Að læra að verða foreldri

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja býður nú upp á nýja þjónustu sem miðar að þörfum ungmenna á aldrinum 16-25 ára. Vert er að vekja athygli á þessu jákvæða framtaki hjá HSS sér í lagi vegna mikilvægi foreldrafræðslu.  Í lokaverkefni Jónínu Jónasdóttur til embættisprófs í ljósmæðrafræði frá árinu 2005 sem fjallar um árangur/notagildi foreldrafræðslunámskeiða heilsugæslunnar kemur fram að þátttakendur eru eldri en almennt er um foreldra fyrsta barns og með hátt menntunarstig. Þannig höfðar fræðslan ekki til meirihluta foreldra.

Í MA rannsókn Guðbjargar Steinsdóttur um félagslega stöðu 18 til 23 ára ungmenna sem fengu þjónustu hjá Barnavernd Kópavogs (BK), kemur eftirfarandi fram: Rannsóknin var unnin að frumkvæði BK árið 2012 og niðurstöður leiddu í ljós að félagsleg staða fyrrum notenda BK er frábrugðin því sem almennt gerist. Flestir höfðu aðeins lokið grunnskóla, 36,6% þátttakenda fengu tekjur í formi bóta og/eða fjárhagsaðstoðar og 83,1% voru með tekjur undir 200 þúsund krónum á mánuði. Fleiri þátttakendur áttu börn en búist var við eða 42%. Þá var horft til hversu ungir þeir voru eða 18 til 23 ára, vert er að nefna til viðmiðunar að fram kemur í annarri rannsókn á ungu fólki að 7,7% þátttakenda utan framhaldsskóla áttu börn. Þetta bendir til þess að nemendur í efstu bekkjum grunnskólans séu sá markhópur sem helst þarf að ná til með fræðslu um foreldrahlutverkið.

Undirritaður býður skólum forvarnarverkefnið „Hugsað um barn“ sem Manngildissjóður Reykjanesbæjar styrkti árin 2004 – 2007. Verkefnið felst í því að drengir og stúlkur í efstu bekkjum grunnskóla fá ungbarnahermi með sér heim og fá reynslu af því að annast „ungbarn” allan sólarhringinn yfir helgi. Þessi reynsla felur í sér tækifæri til að læra um umönnun ungbarna, gera mistök og leiðrétta þau, án þess að það hafi áhrif á raunverulegt barn. Verkefnið er vinsælt hjá ungmennum og er notað í 50 löndum og öllum fylkjum Bandaríkjanna sem er einsdæmi. Í breyttri samfélagsgerð er sá þáttur að ungmenni geri sér raunhæfar hugmyndir um foreldrahlutverkið dýrmætar.  Ungmenni dreymir um farsælt fjölskyldulíf og stefna hátt í þeim efnum.

Hrafnhildur Eyþórsdóttir og Kristín B. Flygering, fjölluðu um verkefnið „Hugsað um barn” í lokaverkefni sínu til B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði árið 2007. Tilgangurinn var að kanna reynslu unglinga og foreldra þeirra af verkefninu. Í verkefninu ræddu þær við sex nemendur í Heiðarskóla og foreldra þeirra og þar kemur fram að margar rannsóknir hafi sýnt fram á góðan árangur verkefnisins. Verkefnið hjálpaði unglingunum að sjá hversu erfitt það getur verið að eignast barn á unglingsárum. Allir unglingarnir voru sammála um að þeir teldu sig ekki tilbúna í barneignir á næstunni. Verkefnið virðist auðvelda unglingum að gera sér raunhæfar hugmyndir varðandi foreldrahlutverkið. Foreldrar voru almennt ánægðir með verkefnið, töldu það hafa góð áhrif á samskipti þeirra við unglingana og það opnaði fyrir umræður um kynferðismál. Einnig vekja þær athygli á því að börn unglinga eru í aukinni hættu á námserfiðleikum og eins eru þau í meiri áhættu að verða fyrir líkamlegu og andlegu ofbeldi. Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar til að styrkja stöðu barna og ungmenna frá árinu 2007 er undir áhrifum frá Evrópsku ráðherranefndinni. Í bókun nefndarinnar til aðildarríkjanna kemur fram að ríkin skulu marka sér skýra stefnu um aukna foreldrafærnifræðslu m.a. til að fyrirbyggja ofbeldi gagnvart börnum.

Guðrún Ösp Theodórsdóttir og Tinna Halldórsdóttir fjölluðu um aðlögun að móðurhlutverki í lokaverkefni sínu til B.Sc. gráðu í hjúkrunarfræði árið 2007. Höfundar völdu viðfangsefnið vegna áhuga þeirra á líðan mæðra eftir fæðingu og aðlögun þeirra að móðurhlutverki, þar sem þær telja að þjónustu við mæður sé ábótavant. Þær fjalla um það sem þær nefna „þagnarsamsærið” um raunveruleika móðurhlutverksins. Í verkefni þeirra  kemur fram að Antonia Nelson, geðlæknir,  komst að þeirri niðurstöðu árið 1998 að sannfæringin um að móðurhlutverkið væri meðfætt ætti stóran þátt í fæðingarþunglyndi. Kennaranemar í Háskóla Íslands og laganemar í Háskólanum í Reykjavík hafa einnig notað „Hugsað um barn“ í verkefnum sínum. Allir hóparnir mæla með verkefninu. Verkefnið hefur hlotið sex tilnefningar til foreldraverðlauna Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra árin 2005 – 2006 og 2009.

Ný þjónusta HSS er hugsuð þannig að ungmenni geta sent tölvupóst á netfangið [email protected] með þeim spurningum, vangaveltum og vandamálum sem á þeim brenna og fengið svar frá hjúkrunarfræðingi innan 48 klukkustunda. Út frá þeim veruleika sem lýst er hér er afar jákvætt að HSS sé að leita nýrra leiða til að þjónusta 16 til 25 ára ungmenni og vonandi nýta þau sér sem flest þessa þjónustu.

Ólafur Grétar Gunnarsson
varaformaður Barnaverndarnefndar Reykjanesbæjar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024