Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Að horfast í augu við fortíðina
Föstudagur 6. mars 2009 kl. 08:10

Að horfast í augu við fortíðina

Ákveðinn hópur manna telur aðkomu ríkisins að öllum stigum þjóðfélagsins vera nauðsynlega til að tryggja afkomu  íslensks efnahags til framtíðar. Þeir telja kapítalismann látinn og því sé einsýnt að íbúar landsins vilji hverfa aftur til tíma hafta og ríkisvæðingar. Ungt fólk er skiljanlega órólegt yfir því að þessi sjónarmið verði ofan á enda vart ákjósanlegt að búa börnum sínum framtíð við slíkar aðstæður. Framþróun yrði lítil í slíku samfélagi þar sem frumkvæði og drifkraftur einstaklingsins yrði borinn ofurliði. Gamli tíminn getur kennt okkur margt og nauðsynlegt er að horfa til þeirra grunngilda sem hafa lengst af lýðveldistímanum verið ríkjandi í íslensku samfélagi. Við skulum læra af reynslunni án þess þó að hefta einstaklinginn í því að koma sínum hugmyndum í verk.

Ákveðinn hópur manna telur nauðsynlegt að Sjálfstæðisflokkurinn komi hvergi nærri því að endurreisa efnahag Íslands þar sem hann sé holdgervingur alls þess sem úrskeiðis fór. Er þetta sanngjörn fullyrðing? Er þetta kannski tímapunktur þar sem andstæðingar flokksins geta leyft sér að segja hvað sem er og halda að nú sé runnin upp sú stund að komið sé að því að draumurinn rætist um að ganga loksins af íhaldinu dauðu? En fyrir hvað stendur Sjálfstæðisflokkurinn? Grunngildi Sjálfstæðisflokksins byggja á því að samfélagið sé þannig gert að einstaklingurinn hafi frelsi til athafna. Sjálfstæðismenn hafa óbilandi trú á frelsi einstaklingsins samfara ábyrgð á eigin gerðum. Þeir hafa til að bera umburðarlyndi gagnvart mismunandi lífsviðhorfum og lífsháttum. Kjörorð flokksins “stétt með stétt” felur í sér það inntak að ólíkir þjóðfélagshópar hafa sameiginlega hagsmuni. Stétt vinni með stétt að því sameiginlega markmiði að gera samfélagið enn betra. Með því að auka það sem til skiptanna er verði sameiginlegir hagsmunir allra, sama hvaða stétt þeir tilheyra, best tryggðir, ekki síst þeirra sem eru hjálpar þurfi. Eru þessi grunngildi kannski einmitt það sem við viljum halda í heiðri áfram þrátt fyrir þá efnahagslægð sem dynur á landi okkar? Vissulega hafa mistök verið gerð og Sjálfstæðisflokkurinn þarf eins og aðrir að horfast í augu við fortíðina og fara heiðarlega yfir það hvað fór úrskeiðis. Sú vinna er hafin í Endurreisnarnefnd Sjálfstæðisflokksins og verður lokið við hana á landsfundi í lok mars. Innviðir Sjálfstæðisflokksins eru það sterkir að flokkurinn mun koma heill frá því uppgjöri.

Aðrir stjórnmálaflokkar, sérstaklega Framsóknarflokkur og Samfylking,  þurfa jafnframt að horfast í augu við sína fortíð en ég get ekki séð að þeir hafi sýnt tilburði til þess. Enda varla hægt að ætla þeim sem byggja á veikum grunni slík stórvirki.

Unnur Brá Konráðsdóttir
er sveitarstjóri í Rangárþingi eystra og gefur kost á sér í 2. sæti lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024