Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Að gera hlutina vel
  • Að gera hlutina vel
    Haraldur Árni Haraldsson, skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar, og fulltrúi í stýrihópi um nýja menntastefnu Reykjanesbæjar.
Þriðjudagur 16. febrúar 2016 kl. 06:10

Að gera hlutina vel

Helgi Arnarson, sviðsstjóri fræðslusviðs Reykjanesbæjar, skrifaði grein í síðasta tölublað Víkurfrétta vegna nýrrar menntastefnu fyrir Reykjanesbæ, sem nú er verið að móta. Ég mæli með því að þeir sem ekki hafa lesið þessa grein, geri það, til að fá innsýn í heildarmyndina.
 
Að móta nýja menntastefnu er yfirgripsmikið verkefni og mikilvægt að þeir sem áhuga hafa á menntamálum í bænum okkar taki virkan þátt í umræðunni, svo að menntastefnan endurspegli sem fjölþættust sjónarmið í þessum mikilvæga málaflokki. Menntun er okkar stærsta fjárfesting í nútíð og framtíð og allir ættu að láta sig hana varða.
 
Eins og gefur að skilja þá kemur stýrihópurinn sem vinnur að menntastefnunni inn á öll svið menntunar, umgjörð hennar og inntak. Eitt af því sem rætt er um og er afar mikilvægur þáttur í þessu öllu, er virkni foreldra og jákvætt viðhorf þeirra til náms og góðrar ástundunar. Með góðri ástundun eigum við ekki eingöngu við að mætingar séu góðar í það sem unga fólkið okkar tekur sér fyrir hendur, heldur einnig að það þurfi að sinna því vel í verki.
 
Þá er ég kominn að megininntaki þessarar greinar. Í Tónlistarskólanum eru fjölmargir nemendur sem eru í krefjandi tónlistarnámi, en eru jafnframt í tveimur eða jafnvel þremur öðrum greinum, íþróttum og eða dansi, fyrir utan svo auðvitað grunnskólann eða framhaldsskólann. Í öllum þessum greinum eru gerðar miklar kröfur um góða ástundun og í sumum þeirra kröfur um heimanám, a.m.k. í skólunum og tónlistarskólanum. Það gefur auga leið að vikan hjá þessum börnum og unglingum er ofhlaðin og ástundun lætur í flestum tilfellum undan.
 
Íþróttastarf er öflugt og gott hér í Reykjanesbæ og íþróttaiðkun mjög almenn. Það er ómetanlegt og allir ættu að stunda íþróttir. Svo hefur danslistin/-íþróttin fest sig í sessi sem er ánægjuleg viðbót við listmenntun bæjarins og gott innlegg í menningarlífið. En það þarf að gæta þess að þau verkefni sem unga fólkið okkar tekur sér fyrir hendur verði ekki svo mörg að þau nái ekki að sinna þeim vel, því þá eru verkefnin orðin íþyngjandi. Afleiðingarnar  verða oftast þær að gleðin, eftirvæntingin og vellíðanin, sem ætti að vera aðal drifkrafturinn, fer fyrir bí. Gætum þess að gæðin séu í fyrirrúmi frekar en magnið.
Að lokum er rétt að geta þess, að stýrihópur um nýja menntastefnu fyrir Reykjanesbæ, efnir til íbúaþings þriðjudaginn 8. mars nk. frá kl.17-19 í Stapa, Hljómahöll. Allir áhugasamir um menntamál í Reykjanesbæ eru hjartanlega velkomnir.
 
Haraldur Árni Haraldsson
skólastjóri Tónlistarskóla Reykjanesbæjar
og fulltrúi í stýrihópi um nýja menntastefnu Reykjanesbæjar
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024