Að gefnu tilefni vegna greinar Páls Jónssonar um Spkef
Enn á ný hafa umræður orðið um starfslok mín í Sparisjóðnum. Ég vil ítreka enn og aftur að starfslok mín við sparisjóðinn voru 6 mánaða laun, annað eru hrein og klár ósannindi. Þessi samningur var kynntur ítarlega á síðasta aðalfundi Sparisjóðsins, þar sem meðal fundarmanna voru ekki ómerkari menn en Páll Jónsson fyrrverandi sparisjóðsstjóri, sem sér sig í dag knúinn til að ala á alls konar vangaveltum og rógi á vef Víkurfrétta. Maðurinn sem hvatti mig til að halda áfram störfum á síðasta aðalfundi. Maðurinn sem lofaði Existu og félög því tengt á aðalfundi fyrir örfáum árum. Ég skora á hann að upplýsa um sín eigin starfslokakjör hjá Sparisjóðnum, ég hef gert ítarlega grein fyrir mínum.
Ég ætla ekki að svara grein Páls, enda hlýtur rannsókn að leiða hið sanna í ljós. Það er þó rétt að nota tækifærið og fara yfir nokkur atriði í rekstri Sparisjóðsins.
Ég skýrði afkomu Sparisjóðsins ítarlega á aðalfundi í apríl 2009. Hvað gerðist síðan þar til í apríl 2010 að sjóðurinn gat ekki staðið lengur við skuldbindingar sínar, get ég því miður ekki skýrt, enda lét af starfi sparisjóðsstjóra þann 1. júní 2009. Þá var sjóðurinn í hefðbundnum rekstri og beðið eftir framlagi ríkisins í samræmi við neyðarlögin. Jákvæð teikn voru jafnframt í samningum við erlenda kröfuhafa. Eftir fréttum að dæma virðist sem framlag ríkisins sé fyrst að líta dagsins ljós núna, rúmum tveimur árum eftir samþykkt neyðarlaganna. Það verða aðrir að skýra hvers vegna svo er.
Það var aldrei efi í mínum huga að hagkvæmast væri að sem flestir sparisjóðir væru undir einum hatti og að Sparisjóðurinn í Keflavík yrði miðstöð slíks samruna eða samstarfs. Sú útrás var ekki djarfari en svo að nýr eigandi, þ.e. ríkissjóður virðist vinna eftir sömu forskrift þ.e. að Sparisjóðurinn í Keflavík verði hornsteinninn í sparisjóðafjölskyldunni.
Varðandi Existu þá er rétt að halda því til haga að sparisjóðirnir gengu til samstarfs við Pétur Blöndal, stofnanda Kaupþings á sínum tíma í þeim tilgangi að taka virkan þátt í mótun verðbréfamarkaðar hér á landi. Þessi eign varð síðar að eignarhlut í Existu, en inni í því félagi voru mjög verðmætar eignir sem síðar urðu verðlitlar við hrun efnahagskerfisins. Arður af þessum eignum sjóðsins skipti vissulega sköpum fyrir afkomuna og nutu einstaklingar og fyrirtæki á Suðurnesjum góðs af í formi aukinnar þjónustu og útlána á svæðinu. Þá veitti sparisjóðurinn veglega styrki til íþrótta og menningarmála á Suðurnesjum. Afkoma af kjarnastarfsemi sparisjóðsins leið að sjálfsögðu fyrir þessa auknu þjónustu meðan hagnaður af dótturfélögunum var mikill. Suðurnesjamenn voru m.ö.o. látnir njóta.
Ég sat ekki í stjórn Existu. Aftur á móti var ég í stjórn Kistu og þar voru engin stjórnarlaun greidd. Aðrar stjórnir á vegum sparisjóðanna greiddu stjórnarlaun sem var mjög í hóf stillt, enda ætti ég ekki að þurfa að segja Páli það, hann sat í mörgum þessum stjórnum sjálfur og þáði laun fyrir.
Ég hef að mestu haldið mig til hlés frá því að umræðan um Sparisjóðinn fór í gang. Nú er svo komið að ekki verður lengur horft á. Ég skil vel reiði fólks sem tapaði fé við fall sjóðsins, ég tapaði sjálfur verulegum fjármunum þegar mitt stofnfé varð að engu, en ég held að enginn sé bættari með því að breiða út ósannindi og róg.
Ég vona svo sannarlega að hinn endurreisti sparisjóður eigi bjarta framtíð og komist aftur í hendur Suðurnesjamanna þegar fram líða stundir enda hefur hann á að skipa frábæru starfsfólki.
Geirmundur Kristinsson