Á síðustu mínútu leiksins...
– Friðjón Einarsson skrifar
Stóra stundin nálgast óðfluga, spennan eykst og taugar margra farnar að titra.
Baráttan um sætin er að ná hámarki, þetta minnir á kappleik og komið er fram á 89. mínútuna. Það er allt að gerast. Hver vinnur leikinn, hvernig endar þetta allt saman. Er allt að fara til fjandans? Hvað gerist ef við „töpum“.
Sigrum saman...
Ég vil bara fullvissa ykkur um að það verður allt í lagi á Sunnudaginn. Veröldin mun ekki hrynja. Það er ekkert að óttast þótt að Sjálfstæðisflokkurinn missi völdin. Við hin, sem erum í framboði, okkur þykir nefnilega líka vænt um bæinn okkar. Við viljum líka hækka launin og skapa ný verkefni í Helguvík. Við erum tilbúin að gera okkar besta.
Stöndum saman og byggjum betri bæ...
Nóg er komið að loforðum sem ekki munu standast. Við verðum að skapa heiðarlegra samfélag og fyrir alla. Hér eiga allir að vera jafnir. Styðjum þá sem minna mega sín og þökkum fyrir það sem okkur er gefið. Gleðjum aðra og reynum öll að gera okkar besta.
Kærar þakkir
Kærar þakkir til ykkar allra. Við sem erum að bjóða okkur fram í baráttuna viljum skapa betra samfélag fyrir alla. Það er bara þannig og ekkert öðruvísi. Með þessum greinarstúf vil ég nota tækifærið og þakka öllum sem hafa stutt okkar framboð, drukkið hjá okkur kaffi og gefið góð ráð. Ég vil líka þakka öllum þeim sem eru að bjóða sig fram fyrir aðra flokka og óska þeim alls hins besta. Öll viljum við gera okkar besta. Fögnum saman í leikslok og forðumst slysin.
Kærar þakkir
Friðjón Einarsson, oddviti XS