Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Á einkarekstur rétt á sér í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja?
Miðvikudagur 28. apríl 2010 kl. 14:26

Á einkarekstur rétt á sér í Heilbrigðisstofnun Suðurnesja?


Undirrituð hefur fundist umræðan um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu undanfarið vera byggð á miklum misskilningi. Stór hluti íslenskra þegna virðist telja að einkarekstur í heilbrigðiskerfinu sé á við hinn svarta sjálfan og hrein aðför að íslensku heilbrigðiskerfi. Það er fjarri lagi. Alveg skort í umræðuna að þegar talað er um verst rekna og dýrasta heilbrigðiskerfi í heimi þ.e. í Bandaríkjum Norður Ameríku, þá ber að ræða í leiðinni þau fjölmörgu heilbrigðiskerfi í heiminum sem talin eru best rekin og ódýrust og eru flest einkarekin líka.

Þetta á t.d. jafnt við í kommúnískum löndum sem kapítalískum. Ódýrasta og afkastamesta kerfið er t.d. í Taiwan þar sem allur rekstur er í höndum einkaaðila, einstaklingur bíður aldrei lengur en örfáar vikur eftir aðgerð og heilbrigðisþjónusta er frí fyrir þegnana og opin öllum. Þetta fæst með því að kaupandi þjónustunnar er Ríkissjóður viðkomandi lands sem ætlar að veita þegnum sínum einhverja lágmarks heilbrigðisþjónustu. Aðrar aðgerðir í heilbrigðiskerfinu eru söluvara og oftast valaðgerðir ýmiss konar. Þá má benda á þá einföldu staðreynd að á Íslandi hefur verið einkarekstur t.d. í endurhæfingaþjónustu í áratugi og hefur sú þjónusta reynst mun ódýrari en í löndunum sem við miðum okkur við og alveg sambærileg að gæðum ef ekki betri.

Ástæðan fyrir þessari grein er sú að undirrituð ásamt öðrum fagaðilum á Suðurnesjum, s.s. starfsfólk skurðstofa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, hefur verið að leita leiða til þess að hindra lokanir á skurðstofum og það mikla áfall sem slík skerðing hefði fyrir fæðingarþjónustu og öryggi á Suðurnesjum. Þá mun lokun skurðstofanna verða til þess að Suðurnesjabúar þurfi að leita einfaldra skurðaðgerða og annarrar sambærilegrar þjónustu á Reykjavíkursvæðið með tilheyrandi kostnaði og óþægindum fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra.

Lausnin varð sú að stefna að einkarekstri félags um skurðþjónustu á Suðurnesjum með von um að það félag fái að leigja skurðstofurnar af HSS og fái þjónustusamning við stofnunina um lágmarks skurðþjónustu við íbúana. Ráðuneytinu býðst þannig lausn til að takast megi að viðhalda lágmarks skurðþjónustu á svæðinu ef ráðherra hefur á því áhuga.
Framkvæmdarstjórn Heilbrigðisstofnunarinnar hefur verið tilbúin að leita allra leiða til þess að veita þjónustuna með minni kostnaði en hingað til og hefur alls ekki sett sig upp á móti slíkri niðurstöðu.

Þetta nýja félag mun þá láta þá samfélagslegu þjónustu sem ráðherra þóknast að veita á Suðurnesjum ganga fyrir en fylla upp í ónýtta þjónustu með valaðgerðum fullborgandi sjúklinga og með þjónustu við skurðlækna sem fyrir eru að störfum á Stór-Reykjavíkursvæðinu og áhuga kunna að hafa á að nýta sér þessa frábæra aðstöðu á Suðurnesjum. Þannig myndu haldast dýrmæt störf á svæðinu. Slíkt myndi einnig stuðla að því að á svæðið fengjust læknar sem ella þyrfti að heimsækja með utanbæjarferð og þessi lausn myndi veita lágmarksþjónustu og öryggi sem svo nauðsynlegt er að viðhalda á svæðinu, sérstaklega gagnvart fæðandi mæðrum.

Nú hvílir því sú ábyrgð á Ráðherra heilbrigðismála að fara að gefa skýr svör um það hvort henni hugnist þessi lausn eða hvort hún vilji frekar hafa stóran hluta íbúa án fæðingaröryggis og á ferðalögum á Reykjanesbrautinni með tilheyrandi óþægindum fyrir íbúa svæðisins.
Er ekki nóg komið að aðför gegn íbúum Reykjaness?


Adda Sigurjónsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024