Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Á bjargi byggði hyggin maður hús, á sandi byggði…
Föstudagur 7. ágúst 2015 kl. 10:10

Á bjargi byggði hyggin maður hús, á sandi byggði…

Ég hef frekar haldið mig til hlés í umræðunni um Landeyjarhöfn í þeirri von að betur horfði í þessu mikilvæga samgöngumáli Vestmannaeyja. Ég get ekki lengur á mér setið  að setja nokkrar línur á blað. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar á að opna tilboð í sanddælingu í og við Landeyjarhöfn þann 11. ágúst nk. 

Þar er gert ráð fyrir að dæla  750 þúsund rúmmetrum af sandi á næstu þremur árum en fyrri áætlanir um magn í sanddælingu hafa ekki staðist. Áætlað var í upphafi að dæla 30 þúsund rúmmetra á ári en það hefur engan veginn staðist og ég óttast að sama verði uppi á teningnum að þessu sinni.  Ég hef lagt mig eftir því að hlusta á þær raddir sem best þekkja aðstæður af eigin raun, raddir þeirra sem þekkja vel til ferjusiglinga og þeirra sem mikla reynslu hafa af hafnargerð. Því miður hafa spár þeirra og reynsla af Landeyjarhöfn orðið að staðreynd en höfnin og innsiglingin virka ekki sem sú samgöngubót fyrir Vestmannaeyinga eins og til var ætlast nema hluta úr árinu.

Rétt eins og  fyrisjáanleika þarf í sjávarútvegi og stöðuleika í atvinnulífi þá þarf stöðuleika í samgöngumál og örugga tengingu við flutningskerfi landsins bæði innanlands og ekki síður fyrir útflutning hvort heldur sem er við millilandasiglinar eða alþjóða flugvöllinn í Keflavík þar sem útflutningur á ferskum fiskafurðum fer ört vaxandi.

Afhendingaröryggi er hluti af gæðum fiskvinnslunnar í landinu og stjórnun veiða og vinnslu í samráði við kaupendur á erlendum ferskfiskmörkuðum lykillinn að aukinni verðmætasköpun í greininni. Samgöngur eru því hluti að gæðakerfi vinnslunnar en yfir helmingur af allri fiskvinnslu á landinu er innan við 100 kílómetra frá Keflavíkurflugvelli. Landeyjarhöfn er veikur hlekkur í þeirri virðiskeðju fyrir Vestmannaeyinga.
Ekki er það síður mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna í Vestmannaeyjum að hafa öruggar samgöngur þar sem hægt er bjóða upp á reglulegar ferðir allt árið þegar ferðatímabilið er sífellt að lengjast og teygja sig fram á veturinn.
Endurskoðum verkefnið frá upphafi til enda, möguleika hafnarinnar og hvernig ferjur standa sig best í þeim aðstæðum sem eru við Landeyjarhöfn. Það er hægt að leigja ferjur sem geta hjálpað til við að endurskoða verkefnið frá grunni. Stöldrum við í því að moka sandi fram og til baka í Landeyjunum og einbeitum okkur að því sem við þekkjum og reynsla manna um allan heim hefur kennt okkur. Við þurfum ekki að eyða opinberum fjármunum í að finna upp hjólið. Allar hugsanlegar ferjutegundir eru til af öllum stærðum og gerðum sem reynsla er komin á.  

Við sem höfum verið til sjós vitum að stundum verður að breyta um stefnu þegar við náttúruöflin er að etja og því fyrr sem horfst er í augu við það því betra. Ég tel að sá tími sé kominn í Landeyjahöfn. Landeyjarhöfn mun nýtast fyrir grunnristar farþegaferjur sem verða fljótar á milli lands og Eyja þegar veður leyfir meðan vöruflutningar verða með alvöru skipum til Þorlákshafnar. Lausleg könnun á Internetinu segir mér að ferja sem væri stærri og öflugri og gengi helmingi hraðar en Herjólfur kosti um 3 milljarða. Jafnvel þótt hún kosti meira en það þá yrði það mikil samgöngubót og varanleg fjárfesting.
Mikil fjárþörf liggur fyrir hjá mörgum höfnum landsins og ekki síst hér á Suðurlandi og má þar nefna Grindavík, Sandgerði og Hornarfjörð og í Þorlákshöfn en þar er áætlað að bæta og breyta innviðum hafnarinnar fyrir 2,2 milljarða á næstu árum. Aflagjöld standa engan veginn undir öðru en rétt reglulegum rekstri fiskihafna í dag og Hafnarbótasjóður sem á að styðja við bakið á þessum höfnum hefur verið sveltur í mörg ár. Faxaflóahafnir standa mjög vel og hyggja á milljarðafjárfestingar á sínu svæði enda bæði með meginhlutann af  inn og útflutningi landsmanna. Við Íslendingar erum rétt um 330 þúsund  eða eins og mjög lítið sjávarþorp í Evrópu. Er ekki kominn tími til að hugsa málin heildstætt í stað þess að vera að berjast hver í sínu horni og dreifa litlum fjármunum á of marga staði?

Faxaflóamótelið hefur reynst mjög vel og er ekki að sjá að Akranes hafi farið halloka í því samstarfi. Því spyr ég hvort ekki megi skoða þann möguleika að taka Þorlákshöfn og hafnir á Reykjanesi inn í Faxaflóahafnir. Faxaflóahafnir hafa það afl sem þarf til að byggja Þorlákshöfn upp sem viðkomustað stærri millilandaskipa ef horft yrði til lengri tíma. Því er það freistandi að samnýta mannvirkin fyrir öfluga Vestmannaeyjaferju sem færi vel með farþega í 90 mín. siglingu til Þorlákshafnar þó slæmt væri í sjóinn og örugga tengingu vöruflutninga við önnur flutningskerfi hvort sem er flug eða sjófragt.
Ég veit að þeir sem mesta trú hafa á því að sérfræðingar viti hvernig Landeyjarhöfn verði breytt svo hún verði sú lífhöfn sem hún þarf að vera, vilja vel. Bæjarstjóri Vestmannaeyja sem er mjög öflugur málsvari Vestmannaeyja er sannfærður um að sérfræðingar og stjórnvöld geti staðið við fyrri loforð sín um heilsárshöfn í Landeyjum og er duglegur að koma því á framfæri. Kannski ætti bæjarstjórinn að líta sér nær og hlusta meira á sitt eigið fólk og í þessu tilfelli á þaulreynda skipstjóra og sjómenn sem þekkja suðurströndina og sjólagið þar af eigin raun.

Fróðlegt verður að sjá tilboðstölur í væntanlega sanddælingu við Landeyjahöfn, en hverjir treysta sér til að dæla sandi við þessar erfiðu aðstæður allt árið um kring. Því miður er ég þeirrar skoðunar að það verði erfitt verkefni og ég er þess fullviss að minna skip en núverandi Herjólfur er ekki framtíðarlausn fyrir Eyjamenn.

Páll Jóhann Pálsson,
alþingismaður

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024