85 % af öllu því sem ég lofaði ekki en stóð við samt
Í gær eftir alla sólardagana, fannst mér tími til kominn að fara með eðalvagninn minn, Kangoo tveggja manna, á þvottaplanið hjá Olís í Reykjanesbæ.
Ég hafði ekki strokið kústinum nema nokkrum sinnum meðfram hliðinni á bílnum þegar tveir ungir drengir sem næst 8 ára komu á reiðhjólunum sínum og hófu þessa sömu iðju. Þeir skiptu með sér verkum þannig að annar beið á meðan hinn þvoði allt hvað af tók en þó aðeins sitt hjól. Þá gekk kústurinn á milli, lítill tvistvöndull var veiddur upp úr úlpuvasa og byrjað að þurrka sætið.
,,Þú mátt ekki þvo þarna svona mikið þá gæti öll olía farið af hjólinu,” sagði ungi drengurinn með tvistinn og vinur hans tók ráðleggingu hans um leið. Því næst lá leið þeirra að stóru ryksugunni. Þó gólfmottunum væri ekki fyrir að fara þurfti ýmislegt að gera fínt alla vega í þykjustunni.
Þessi litli atburður hafði þau áhrif á mig að það límdist á mig bros. Við Hafnargötuna fór ég nokkru síðar inn í matvöruverslun til að kaupa mér mjólkurpott en sá ekki fyrr en um seinan að ég hafði gengið skælbrosandi út um alla búð. Afgreiðslustúlkan horfði rannsakandi á mig og ég gat lesið úr augum hennar hvað hún var að hugsa: ,,Sá er tæpur á töflunum skal ég segja þér, sá.. er.. tæpur!”
Nú þegar sólin hækkar á lofti virðist vorfiðringur hafa gert vart við sig í pólitíkinni, menn stíga fram hver fyrir sinn flokk, Sjálfstæðismenn innan bæjarfélagsins farnir að gefa út bæklinga sem mikla hvert verk sem unnið hefur verið, eðlilega og framvarðarsveit úr öðrum flokkum lætur í sér heyra: Framsóknarmenn með beittan nýliða, sem kann að lesa ársreikninga bæjarfélagsins, Samfylkingin enn að hugsa sinn gang, Vinstri-grænir í startholunum og búnir að láta vita af sér og síðast en ekki síst Frjálslyndir boðað komu sína í slaginn með væntanlegan bæjarstjóra í broddi fylkingar, Baldvin Nielsen.
Já, þetta verður spennandi sumar og síðan vetur sem nær alveg fram á næsta vor.
Að byggja, byggja og byggja er lausnarorðið og gamla lögmálið, að hverju húsi þurfi að fylgja vinna, hóflegur lóðaskortur haldi verðgildi eigna sem næst sannvirði, í dag aðeins gömul lumma sem ekki er þess virði að halda upp á. Auðvitað er ég þessu ekki sammála en bjartsýnin er góð svo langt sem hún nær. Það næsta sem er til umræðu, fólksfjölgunin í byggðarlaginu, hvorki meira né minna en 100 manns jafngildir 25 fjölskyldum. Þetta hlýtur að vera forsenda allra bygginganna, mikið á döfinni og margt framundan. Flott mál.
En mér finnst alltaf vanta svarið hvað gerir bæjarfélag eftirsótt til búsetu þegar frá eru taldir hinir hefðbundnu póstar?
Það eru ekki bara byggingarnar, mikil vinna, einsetinn skóli, gott sjúkrahús, tvöfölduð Reykjanesbraut, heldur hvað okkur finnst um viðmótið sem mætir okkur í bæjarfélaginu og við sköpum líka hvert til annars. Ég er að tala um náungakærleikann, (mjög góður fyrir heilsuna) að hvergi sé að finna frumbyggja-vinatengsl sem útiloki eða einangri aðflutta frá eðlilegum vinatengslum við heimamenn og síðan nota bene að heimamenn búi yfir þeim þroska að þurfa ekki og vilja ekki flokka sig sem slíka.
Einn mesti bölvaldur sem fyrir finnst og vill festa rætur í minni bæjarfélögum er þessi undarlega tilhneigingin margra okkar að jafna út fjöllin ofan í dalina, að skreyta náungann með fölum og þyrnóttum rósum. Það er makalaust að illt umtal skuli ganga hraðar manna á milli en það sem vel er gert og það sem verra er að það er ekki hægt að finna þess merki, áþreifanlega, að brugðist sé við þessari óheillaþróun í nokkurri mynd. Samt er því ekki að neita að gott viðmót okkar hvers til annars er svo dýrmætt fyrir líðandi stund og alla aðra daga.
Með öðrum orðum þarf að fara leggja meiri áherslu á mannrækt því það er hún sem trekkir inn í byggingarnar sem verið er að reisa.
Við þurfum að láta okkur varða hvernig öðrum reiðir af, hreinsa atvinnuleysisskrárnar og búa til eftirsókn eftir vinnukrafti og hætta öllu þessu monti og snobbi, þessum hégóma sem alls staðar þvælist fyrir. Með þetta að leiðarljósi er ég þess fullviss að við byggjum góðan bæ sem gott er að búa í og fólksfjölgun upp úr öllu valdi inn í framtíðina.
Konráð K. Björgólfsson
Reykjanesbæ.