Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

32 % foreldra íslenskra barna hafa engar eða litlar áhyggjur af netnotkun barna sinna
Fimmtudagur 22. nóvember 2007 kl. 11:48

32 % foreldra íslenskra barna hafa engar eða litlar áhyggjur af netnotkun barna sinna

Undanfarna daga hafa nemendur og foreldrar barna í 8. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar verið heimsóttir og fræddir um ábyrga netnotkun. Í nýrri rannsókn á netnotkun barna og ungmenna kemur fram að börn eru að meðaltali 7, 7 ára þegar þau byrja að fara á internetið.  Þó svo að internetið sé stórkostleg uppfinning sem flestir nota á ánægjulegan hátt þá leynast margvíslegar hættur á internetinu. Neteinelti, barnaníðingar og netfíkn sem er að verða stærra vandamál en nokkurn óraði fyrir. Samkvæmt nýrri frétt frá samtökum áhugafólks um spilafíkn hafa um tuttugu fjölskyldur haft samband á þessu ári vegna þess að börnin eru farin að skrópa í skólanum útaf tölvuleikjum.  Ekki síst í ljósi þess að tölvan er farin í sumum tilfellum að hafa áhrif á skólasókn, er rétt að benda á að niðurstöður í þessari nýju rannsókn að 32 prósent foreldra hafa litlar eða engar áhyggjur af netnotkun barna sinna.

Hvað er til ráða?
Ekki eru til neinar töfralausnir en mikilvægt er að foreldrar ræði við börnin sín um tækifæri og ógnanir netsins. Sumir foreldrar hafa brugðið á það ráð að gera samning um netnotkun barnsins síns, tekið ,,router (beini)” úr sambandi á nóttunni, haft tölvuna í alrými og svona mætti lengi telja.
Góð ráð fyrir foreldra er að finna á heimasvæði saft.is og mikilvægt er að heimsækja saft.is með barni sínu og ræða saman um heilræðin sem þar er að finna.
Sonja Viðarsdóttir móðir drengs í 8. bekk í grunnskóla í Reykjanesbæ benti á í erindi sem hún hélt á fræðslukvöldi fyrir foreldra í Bíósal Duushúsa þann 21. nóvember að nýrri tölvur hefðu yfir að ráða forriti sem heitir Parential Control, hún og maðurinn hennar hafa notað þetta forrit með góðum árangri. Í forritinu geta þau stýrt hversu langan tíma barnið má vera í tölvunni á degi hverjum og einnig hvaða síður barninu er heimilt að skoða.

Eins og áður sagði þá hafa allir grunnskólar í Reykjanesbæ verið heimsóttir með netfræðslu og að auki var sér fræðsla fyrir foreldra í Duushúsum. Það var Samtakahópurinn sem vinnur að forvörnum í Reykjanesbæ sem stóð fyrir átakinu. Fyrirlesarar í grunnskólunum voru Hafþór Barði Birgisson forstöðumaður félagsmiðstöðva og Kristján Freyr Geirsson forvarnarlögregluþjónn. Í Duushúsum fluttu svo Hafdís Kjartansdóttir sálfræðingur, Loftur Kristjánsson rannsóknarlögreglumaður og Sonja Viðarsdóttir foreldri fyrirlestra. Fundarstjóri var Ása Eyjólfsdóttir verkefnisstjóri í forvörnum hjá Reykjanesbæ. Mjög góð mæting var á fræðslufundina og þakkar undirritaður öllum þeim sem lögðu hönd á plóginn.

Hafþór Barði Birgisson
Tómstunda- og félagsmálafræðingur
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024