1000 tonn ei meir
Umhverfissamtökin Blái herinn fögnuðu þann 16. september (Dagur náttúrunnar) þeim merka áfanga að hafa hreinsað úr náttúru landsins 1000 tonn af rusli (hráefni). Þetta eru auðvitað ekkert skemmtileg tíðindi, þetta segir manni það að við séum sóðar og að okkur þykir ekkert vænt um náttúru landsins.
Ef 1000 tonn eru farin spyrja eflaust einhverjir hvort það sé eitthvað eftir. Því er fljótsvarað, það eru mörg 1000 tonn eftir, hráefni sem bíður þess að komast úr okkar nærumhverfi og í endurvinnslu.
Það hafa nokkrir aðilar í gegnum tíðina reynt að hreinsa rusl og drasl úr náttúru landsins og vakið athygli á þeim sóðaskap og lýti sem óvirðing okkar er með því að reyna ekki að stoppa þessa vanþróun hjá okkur, verkefni eins og Hreint Land-Fagurt Land, Græni herinn o.fl. Ég kalla þetta vanþróun vegna þess að fyrir mér er allt þetta rusl og drasl hráefni sem á heima í endurvinnslu. Með hreinsun á því skapast atvinna við endurvinnslu, það verður til gjaldeyrir, við sýnum ábyrgð, hreinna umhverfi, bættari ímynd, betri umgengni og betri söluvara sem útivistarsvæði, bæði fyrir okkur sjálf og ferðamenn, svo ekki sé minnst á betra umhverfi fyrir komandi kynslóðir.
Kjarni málsins er sá að hreinna umhverfi er það sem samfélagið vill í framtíðinni, við hérna á Suðurnesjum eigum okkar tækifæri í því að andlit landsins fyrir ferðamenn, Reykjanesið sjálft, verði þannig í framtíðinni að eftir verði tekið sem hreint og fagurt land og að hér sé metnaðarfullt fólk sem býr og viðheldur hreinu og fallegu landi og sýnir það með stolti öllum sem hingað koma.
1000 tonn ei meir í náttúru okkar á Reykjanesinu en það tók 17 ár og 49.000 vinnustundir í sjálfboðaliðavinnu að ná þessum áfanga. Núna þarf að snúa bökum saman allir sem einn, við viljum ekki sjá rusl og drasl út um allan Reykjanesskagann, hérna spretta upp sóðar alla daga sem ekkert kunna í siðferði samfélagsins og henda rusli á víðavangi og það er ekki eins og það hafi ekki viðgengist áður en ef Reykjanesið á að vera söluvara sem hreint og fallegt land verðum við að stöðva þessa vanþróun og það strax.
Blái herinn á marga velunnara á Reykjanesinu og mörg fyrirtæki hafa stutt okkur í gegnum árin, samfélagið hefur tekið virkan þátt í því að hjálpa til og sýnir málefnum okkar mikinn skilning.
Blái herinn leggur til einn dag í mánuði sem gjaldfrjálsan dag í Kölku fyrir einstaklinga, Blái herinn vill auka umhverfisvitund okkar Suðurnesjamanna með eflingu andans á árvekni gagnvart sóðaskap og Blái herinn vill starfa áfram fyrir Suðurnesin, en helst af öllu vildum við ekki þurfa að skrifa svona pistil um okkur, en það er tækifæri að gera betur og það er núna.
Virðingarfyllst,
Tómas J. Knútsson
formaður og stofnandi Bláa hersins