1-0 fyrir fólkinu
Leikskólinn Suðurvellir í Vogunum á Vatnsleysuströnd er 4 deilda leikskóli og hefur inntökualdurinn miðast við 1 árs. Í nóvember á síðasta ári kom sú yfirlýsing frá bæjarstjórn Voga að skera þyrfti niður á leikskólanum Suðurvöllum, og það átti að gera með því að loka einni deild og hækka inntökualdurinn í 2ja ára. Með þessari hagræðingu var fullyrt af hálfu meirihluta bæjarstjórnar að það myndu sparast rúmar 15 milljónir í rekstri leikskólans.
Margir íbúar voru mjög óánægðir með þessa ákvörðun, sérstaklega þar sem það eru engin önnur úrræði fyrir barnafólk og að á biðlistanum voru þegar um 20 börn. Með þessari breytingu var útséð að næsta barn færi ekki inn fyrr en haustið 2013.
Þessu mótmæltu margir íbúar og á bæjarstjórnarfundi 30. nóvember 2011 var ákveðið að fresta þessari breytingu um 1 ár til þess að geta tæmt biðlistann á leikskólanum og ekki yrðu þá tekin inn börn undir 2ja ára.
Fannst mörgum eins og verið væri að slá vandanum á frest og vildi fólk berjast fyrir því að leikskólinn yrði áfram rekinn í þeirri mynd sem hann hafði verið rekinn. Nokkrir foreldrar tóku sig saman og söfnuðu undirskriftum með von um að það yrði haldin íbúakosning um þessi mál og var almennt mjög vel tekið í þá söfnun, þessum undirskriftarlista var ekki skilað inn vegna breyttra forsenda. Margir íbúar voru tilbúnir að gera allt til þess að þessi ákvörðun yrði ekki að veruleika.
Á sama tíma og þetta er allt að gerast er verið að ræða launahækkanir hjá nefndum og stjórnum í bæjarfélaginu, og það varð síðar raunin að þær hækkanir voru all verulegar. Til dæmis hækka laun forseta bæjarstjórnar um 100% eða um 660.000 kr á ári. Það þóttu einkennilegar áherslur hjá nýjum meirihluta að hækka laun hjá sjálfum sér um leið og verið var að skera niður þjónustu við barnafólk.
Þann 22. janúar 2012 skrifar forseti bæjarstjórnar grein á smugan.is, og þar segir meðal annars: "Þegar spilltir stjórnmálamenn komast til valda gera þeir allt til að skapa sjálfum sér og félögum sínum forskot, byggja undir öfl sem eru þeim sjálfum hliðholl og draga peninga og feitar stöður til sín. Allt til að halda völdum til að tryggja eigin yfirburði." En hvað var nýbúið að gerast? Á bæjarstjórnarfundi 28. desember 2011 var launahækkunin samþykkt hjá meirihlutanum.
Eftir bæjarstjórnarfund þann 25. janúar 2012, var mikil umræða um þessi leikskólamál þar sem fulltrúar meirihlutans ræddu við fólkið og þar er fullyrt af forseta bæjarstjórnar að ekki verði fallið frá þessari ákvörðun.
Þann 30. janúar 2012 bauð E-listi (minnihluti) til fundar þar sem þeir sýndu útreikninga sína á raunsparnaði með þessari hagræðingu. Þegar búið var að telja alla þætti saman var sparnaðurinn alls ekki rúmar 15 milljónir eins og kynnt hafði verið af H-listanum, heldur var hann kominn niður fyrir 4 milljónir. Í ljósi þessa leggur E-listi fram tillögu á bæjarráðsfundi þann 1. febrúar, sem í mjög grófum dráttum fjallar um það að þessi hagræðing verði afturkölluð þar til önnur úrræði verði til staðar fyrir barnafólk, fjármagna megi tillöguna með því að draga til baka launahækkun bæjarfullrúa. Fundargerðina má lesa inni á Vogar.is sem og aðrar fundargerðir. Formaður bæjarráðs leggur til að afgreiðsla þessa máls verði frestað til næsta fundar.
Í kjölfarið var fenginn fagaðili til að reikna þessi mál alveg frá grunni, og í ljós kom að rekstrarniðurstaða sem fá átti með lokun einnar deildar og breyttum aldursviðmiðunum á leikskólanum Suðurvöllum mundi ekki skila þeirri hagræðingu sem reiknað var með fyrr en í fyrsta lagi árið 2014 og þá ekki nema einum þriðja af upprunalegri hagræðingu.
Á bæjarstjórnarfundi 29. febrúar 2012 er tillaga formanns bæjarráðs um að falla frá breytingum á leikskólanum og ein af tillögum E-listans um hækkun niðurgreiðslu til dagforeldra samþykkt samhljóða. Niðurgreiðsla með barni til dagforeldra hækkaði þá úr 31.000,- í 40.000,- á mánuði.
Hvað launamálin varðar þá er búið að greiða út laun á þessu ári þrátt fyrir að í reglum standi að laun skulu vera greidd út tvisvar á ári eða í maí og desember. Er það leyfilegt?
Við erum mjög þakklát fyrir að það hafi verið hlustað á okkur og þessi mál skoðuð ítarlega í kjölfarið. Viljum við þá færa sérstakar þakkir til E- og L-lista fyrir nýjar tillögur um afturköllun fyrri ákvörðunar. Eins og staðan er í dag verður leikskólinn rekinn áfram eins og undanfarin ár þar til annað kemur í ljós.
Hera, Sæunn, Steinunn, Sigrún, Davíð og Kristinn.