Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

,,Føroyatúrur næminga í Myllubakkaskúlanum”
Miðvikudagur 9. júní 2004 kl. 10:50

,,Føroyatúrur næminga í Myllubakkaskúlanum”

Nítjánda til 28. maí fóru 10. bekkingar Myllubakkaskóla ásamt þrem kennurum, einu foreldri og ritara skólans í vorferð. Farin var hringferð um Ísland, með viðkomu í Færeyjum.
Í ferðinni um Ísland var gist í Grunnskólanum á Stöðvarfirði og í skólabúðum að Reykjum í Hrútafirði. Á báðum stöðum var tekið á móti okkur með miklum höfðingsskap enda eru gamlir Keflvíkingar húsráðendur þar.

Á Seyðisfirði gerðum við lykkju á leið okkar, Ingiber ók glænýjum fararskjótanum frá SBK um borð og við sigldum með Norrænu til Færeyja. Gist var í svefnpokaplássi um borð. Við höfðum fjóra 9 manna klefa. Hver klefi var eins og skápur og kojunum raðað eins og u-i í þrjár hæðir. Þar gilti: ,,þröngt mega sáttir sitja” enda freistuðust nokkrir til að vaka heldur lengi. Veitingastaðir, verslanir, spilasalir og diskótek voru spennandi og ýmsir þurftu að prófa framandi ístegundir.

Í Færeyjum tóku foreldrar og færeysku kunningjar okkar og vinir á móti okkur og hjá þeim dvöldum við í góðu yfirlæti.
Margt var til gamans gert og ýmsir staðir skoðaðir. Katrín Reynisdóttir ,,Njarðvíkingur” var leiðsögumaður okkar í Þórshöfn og fór með okkur, í suðrænni sólskinsblíðu, í gegnum Viðargerði niður að Þinganesi. þar tók á móti okkur Finnur Jakobsen tengdafaðir Katrínar en hann er áhugamaður um varðveislu þessa gamla bæjarhluta. Hann sagði okkur sögu staðarins. Í Þórshöfn dönsuðum við einnig færeyskan dans í Hornahúsinu, heimsóttum Eysturskúlann, fórum í sund, keilu og versluðum.
Í Norðurlandahúsinu fórum við á ,,Stjörnuskot”  tónleika ungs, færeysks tónlistarfólks. þetta var stórkostleg upplifun, boðið var upp á klassík, rokk, kórsöng, einsöng og allt sem nöfnum tjáir að nefna. Skærasta stjarnan var Brandur Enni sem kom og heilsaði upp á íslensku krakkana eftir tónleikana.
Við ókum til Gjáar, litum yfir til Kalseyjar sem tengist þjóðsögunni um ,,Selamóðurina”, sáum Risann og kerlinguna sem ætluðu að sameina Færeyjar og Ísland en döguðu uppi og urðu að steini og Slættaratind sem er hæsta fjall Færeyja og siglum til Klakksvíkur.

Í Klakksvík tók einn bæjarstjórnarmanna á móti okkur, sagði okkur frá bænum og bauð upp á marglita gosdrykki til hressingar. Johild, ein af færeysku mæðrunum var með í ferðinni og hún hafði samið við vinkonu sína að koma með skerpukjöt til að gæða Íslendingunum á. Mikið var um skyrpingar.
Við skoðuðum  einnig kirkjuna sem er sérlega falleg bygging. Eitt af því sem vakti athygli okkar var árabátur sem hékk í loftinu á kirkjuskipinu. Áður fyrr, þegar prestar þurftu að róa á milli eyjanna í vitjunum sínum, höfðu þeir yfir að ráða árabáti sem þeir lánuðu þess á milli til fátækra svo að þeir gætu aflað fiskjar.
 Einn daginn heimsóttum við Katrínu Reynisdóttur að Velbastað. Hún tók á móti okkur í skólanum og bauð upp á ís, kaffi og kökur. þarna komst Ingiber tölvusnillingur loksins í samband við heimalandið og gat loksins sent fréttir inn á heimasíðu Myllubakkaskóla.

Enn einn dagur rann upp bjartur og fagur og við héldum til Vestmanna og sigldum með Vestmannabjörgum. Ferðin út Vestmannasund gekk vel enda gott í sjóinn en undiraldan jókst þegar komið var út á Vestmannaflóann. þar sigldum við með björgunum, hurfum inn á milli klettanna og inn í hellana svo að stundum varð dimmt yfir og einungis sást dagskíma að utan í gegnum ótal sprungur í berginu. þetta minnti helst á gömlu þjóðsögurnar þegar menn hurfu í bergið til álfanna. Á heimleiðinni var nokkrum orðið órótt innan um sig og einstaka skilaði til baka síðustu máltíð sinni.

Síðasta kvöldið slógu allir krakkarnir, færeysku og íslensku, saman í grillmat og um kvöldið var mikil kveðju-grillhátíð heima hjá Danjal, einum færeyska drengnum.
Þegar við héldum heim til Íslands með Norrænu, stóð stór hópur færeyskra vina og veifaði. Vonandi eiga einhverjir eftir að hittast aftur  enda voru áform um það á kveðjustundinni. Til gamans má segja frá því að önnur íslenska kennslukonan  hitti færeyska konu sem nú er prestur í dómkirkjunni í Þórshöfn. þær kynntust fyrir tæplega 40 árum þegar þær spiluðu handbolta og UMFK heimsótti og tók á móti Færeyingum.  
Ekki sáum við Ísland rísa úr sæ, því réði þokan sem lá eins og huliðshjálmur yfir öllu og Norræna þurfti að nota þokulúðurinn á leið inn fjörðinn. Við komum að landi um klukkan 8:00, ókum upp í Egilsstaði í blíðskaparveðri og fengum okkur morgunmat. Landið okkar skartaði sínu fegursta og Fljótsdalshéraðið breiddi sig út fyrir framan okkur og sumir töldu sig jafvel sjá Lagarfljótsorminn.
ýmsar náttúruperlur voru skoðaðar á leiðinni í Hrútafjörðinn og mörgum þótti gott að teygja úr sér í sundlauginni að Reykjum er komið var í náttstað. 

Eftir ís í Borgarnesi ókum við heim og komum að Myllubakkaskóla um klukkan 14:00, eftir vel heppnaða og ánægjulega ferð. Eins og nemendur sögðu: ,,þegar heim var komið, biðu foreldrar eftir að kyssa og knúsa litlu dúllurnar sínar.”  Litlu dúllurnar áttu það svo sannarlega skilið enda var þeim hrósað aftur og aftur fyrir prúðmannlega framkomu og voru verðugir fulltrúar skólans og bæjarfélagsins.
Bílstjórinn okkar, Ingiber, er slunginn. Hann laumaði bílnum eftir þröngum götum, læddist um á tveimur hjólum þar sem þess þurfti og skilaði okkur heilum heim.
 
Við viljum þakka öllum sem gerðu okkur kleift að fara í þessa ævintýraferð og biðjum þeim blessunar.
     Ferðalangar

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024