Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Viðskipti

Vita hvar bæjarbúar geyma sjónvarpsfjarstýringuna
Erlingur Bjarnason hjá Kapalvæðingu.
Laugardagur 19. janúar 2019 kl. 09:00

Vita hvar bæjarbúar geyma sjónvarpsfjarstýringuna

– Bjóða meiri myndgæði og nethraða en samkeppnisaðilar

Kapalvæðing er fjarskiptafyrirtæki í Reykjanesbæ sem hefur verið starfandi í aldarfjórðung og á sér þó aðeins eldri sögu því fyrirtækið byggir á grunni kapalkerfis sem Viðar heitinn Oddgeirsson hóf að leggja í Keflavík og Njarðvík fyrir áratugum til að auka við fjölbreytni í sjónvarpsþjónustu á svæðinu þegar aðeins var í boði ein sjónvarpsrás eftir að útsendingum kanasjónvarpsins var hætt í gegnum loftnet en bæjarbúar náðu þeim útsendingum um tíma.
 

Kaninn bauð upp á afþreyingu í sjónvarpi

 
Menn áttuðu sig fljótt á því að það var mikil afþreying í útsendingum Kanasjónvarpsins og því var kapalkerfið kærkomið. Um það var dreift rás Ríkissjónvarpsins og svo gervihnattasjónvarpsstöðvum, enda heimamenn orðnir háðir því að horfa á mikið af amerísku sjónvarpsefni. Menn lögðu meðal annars mikið á sig til að reyna að ná sjónvarpsmerkinu sem var beint frá herstöðinni á Keflavíkurflugvelli og að ratstjárstöðinni í Rockville.
 
Það var svo árið 1994 sem Viðar seldi kapalfyriræki sitt, Koax, til nýrra eigenda og Kapalvæðing var stofnuð. Áfram var haldið að leggja koparstrengi um Keflavík og Njarðvík en tíu árum síðar, árið 2004, hófst ljósleiðaravæðing Kapalvæðingar sem stendur enn og nú ná kaplar fyrirtækisins til 80% heimila í Reykjanesbæ og dreifikerfið er enn að stækka. Tugir kílómetra af ljósleiðarastrengjum hafa verið lagðir í Reykjanesbæ af Kapalvæðingu.
 
„Kapalvæðing hefur að markmiði að veita gæðaþjónustu á hagkvæmu verði. Við erum stolt af því að geta boðið betra verð, meiri myndgæði og nethraða en samkeppnisaðilar okkar,“ segir Erlingur Bjarnason hjá Kapalvæðingu.

 

Í fararbroddi í ljósleiðaravæðingu Reykjanesbæjar

 
„Ljósleiðaravæðing bæjarfélagsins gengur vel og er Kapalvæðing þar í fararbroddi,“ segir Erlingur.  „Við sjáum þúsundum viðskiptavina fyrir háskerpusjónvarpstengingum og háhraðainterneti. Einnig sjáum við ýmsum fyrirtækjum fyrir ljósleiðaratengingum, m.a. eru nokkrir skólar og stofnanir Reykjanesbæjar samtengdar á ljósleiðaraneti okkar“.
 
Internet- og sjónvarpskerfi Kapalvæðingar byggir á ljósleiðaranetinu sem hefur verið lagt um Reykjanesbæ. Fyrstu árin var aðaláhersla Kapalvæðingar á sjónvarpsþjónustu með því að dreifa bæði innlendu og erlendu sjónvarpsefni um dreifikerfi sitt. Þannig er yfir 100 sjónvarpsstöðvum dreift um kerfi Kapalvæðingar. Með aukinni netnotkun ákvað Kapalvæðing að nýta öflugt dreifikerfi sitt í Reykjanesbæ og bjóða heimilum sem eru tengd kerfinu upp á háhraðainternettengingar og nú eru í boði tengingar sem sem gefa 101–505 Mb/s hraða. Á hluta Ásbrúar eru svo í boði enn öflugri tengingar eða 1000 Mb/s.
Nú starfa þrír starfsmenn við daglegan rekstur fyrirtækisins, Gunnar E. Geirsson er framkvæmdastjóri, Erlingur Bjarnason annast skrifstofu og sölu og Elías Jóhannsson er í tækniaðstoð. Auk þess starfa fjölmargir undirverktakar hjá fyrirtækinu í lagnavinnu og tengingum en öll ný hverfi og byggingar eru tengdar ört stækkandi dreifikerfi Kapalvæðingar. Lagnir eru lagðar í alla opna skurði og þá eru gröfukarlar að störfum út um allan bæ að koma fyrir lögnum.
 

Unglingarnir vilja svo bara internet og háhraða

 
Erlingur segir að eldra fólkið í bænum sé mjög hrifið af kapalkerfinu og þeirri línulegu dagskrá sem þar sé í boði. Sjónvörp í dag séu öll með innbyggðum móttökurum og því sé bara ein fjarstýring. Hann segir að unga fólkið sé hins vegar frekar að sækjast bara eftir internetinu og örfáum stöðvum til að horfa á. Yngra fólkið sæki orðið allt sitt sjónvarpsefni í gegnum netið og efnisveitur sem þar eru. Það sé þó áhugavert að sjá að þegar unga fólkið stofnar fjölskyldu og er komið með börn þá verður breyting. Þá komi þörf fyrir að fá sjónvarpsefni og sérstaklega barnaefni í sjónvarpi. „Unglingarnir vilja svo bara internet og háhraða og við höfum það,“ segir Erlingur.
 
„Sjónvarpið verður alltaf til en það mun breytast. Það er allt að færast á netið en sjónvarp verður alltaf til. Fólk vill fá afþreyingu en hún verður í öðru formi,“ segir Erlingur og bætir því við að Kapalvæðing fylgist vel með örum breytingum og muni fylgja þeim eftir.
 
Þeir félagar hjá Kapalvæðingu segja fyrirtækið hafa ákveðið forskot fram yfir önnur fjarskiptafyrirtæki sem dreifa sjónvarpi og neti í Reykjanesbæ. Kapalvæðing eigi sitt dreifikerfi og geti því boðið hraða og góða þjónustu inn á um 80% heimila í bænum. Fólk geti í flestum tilvikum verið komið með tengingu samdægurs. Kapalvæðing er lítið fyrirtækið í samanburði við fyrirtækið eins og Símann eða Vodafone en Erlingur segir að með því að bjóða gott verð fyrir sjónvarps- og netþjónustu þá sæki fólk á öllum aldri í þjónustu Kapalvæðingar.

 

Veit hvar bæjarbúar geyma fjarstýringuna

 
Þjónustan er einnig persónuleg og grínast er með það að Erlingur viti hvar helmingur bæjarbúa geymi fjarstýringuna að sjónvarpinu, því hann hafi komið inn á mörg heimili í bænum til að stilla sjónvarpsstöðvar inn á sjónvarpstækin. „Það er stokkið til strax ef beðið er um aðstoð, enda þekkjum við marga,“ sagði Erlingur og bætti við: „Það er svo gefandi að veita góða þjónustu í heimabæ sínum.“
 
Erlingur segir að þróunin hafi fylgt Kapalvæðingu. Áður fyrr var fólk með myndlykla eða móttökubox en nú er sá búnaður innbyggður í öll nýjustu flatsjónvörpin. Kapalkerfi eins og er í Reykjanesbæ eru nefnilega vel þekkt fyrirbæri, bæði í Evrópu og Ameríku, og því eru sjónvarpstækin í dag aðlöguð að kapaltækninni.
 
Á kapalkerfi Kapalvæðingar er dreift öllum innlendum sjónvarpsrásum og einnig fjölda erlendra rása. Mjög vinsæl rás á kerfinu er hins vegar „bæjarrásin“ sem formlega heitir Augnablik en gengur svo sem undir ýmsum nöfnum. Hún er jafnvel kölluð Víkurfrétta-rásin, þó hún sé alveg ótengd Víkurfréttum. Þar hefur mátt sjá allt sjónvarpsefni sem Víkurfréttir hafa framleitt í gegnum tíðina og þar eru t.a.m. sýndir vikulega þættirnir Suðurnesjamagasín sem Víkurfréttir framleiða fyrir Hringbraut og vf.is. Þá eru einnig mjög heimilislegir þættir á rásinni sem sýna ljósmyndir úr myndasöfnum bæjarbúa. Þannig hefur Erlingur varið ófáum stundum í að skanna upp úr myndasöfnum bæjarbúa og setja upp myndasýningar á bæjarrásinni.
 

Starfsemin öll á einum stað við Hafnargötu

 
Kapalvæðing hefur nýlega flutt starfsemi sína í húsnæði að Hafnargötu 21 í Keflavík við aðalverslunargötu bæjarins. Þar hefur öll starfsemi fyrirtækisins verið sameinuð á einn stað; sala, þjónustu og lager. „Framtíðin er björt hérna,“ segir Erlingur að lokum.
 
Viðtal og myndir: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson
 

Public deli
Public deli