Max Norhern Light
Max Norhern Light

Viðskipti

Viljum hafa verslanir okkar lifandi
Þú getur hæglega unnið þig upp ef þú stendur þig vel, segir forstjórinn Ómar Valdimarsson. Nettó-verslunin í Njarðvík í baksýn.
Marta Eiríksdóttir
Marta Eiríksdóttir skrifar
fimmtudaginn 12. september 2019 kl. 14:55

Viljum hafa verslanir okkar lifandi

Samkaups keðjan rekur 60 matvöruverslanir um allt land. Eitt stærsta fyrirtæki á Suðurnesjum og er með höfuðstöðvarnar þar

Verslanir Samkaupa byggja á gömlum grunni hér á Suðurnesjum en Kaupfélag Suðurnesja (KSK) var stofnað árið 1945. Nútímafólk gerir sér kannski litla grein fyrir því hve verslunarvenjur okkar hafa breyst mikið á þessum árum. Á fyrstu árum verslunar greiddi almenningur sjaldan fyrir vörur með peningum heldur fóru fram vöruskipti, með eigin framleiðslu sem gat verið saltfiskur, harðfiskur, söltuð ýsa eða þorskalýsi. Það orð hafði lengi legið á dönskum kaupmönnum að þeir hefðu meiri áhuga á að flytja inn vörur sem gáfu þeim meira í aðra hönd en þær sem landsmenn þurftu á að halda. Þannig var brennivínsframboðið hjá þeim meira en góðu hófi gegndi. Síðan eru liðin mörg ár og verslunarhættir hafa breyst mjög mikið á þessum tíma. Þeir sem eru farnir að grána í vöngum muna eftir verslunum þar sem starfsfólk stóð fyrir aftan búðarborðið og sótti vöruna sem viðskiptavinurinn vildi kaupa. Enn aðrir muna eftir búðarsendlum sem hjóluðu um bæinn með vörur framan á stálgrindum svarta reiðhjólsins, heim til þeirra sem höfðu hringt og pantað vörur heim. Í dag getur fólk jafnvel afgreitt sig sjálft ef það vill eða verslað á netinu. Marta Eiríksdóttir, blaðamaður, settist niður með Ómari Valdimarssyni, forstjóra Samkaupa, og ræddi við hann um rekstur og sögu fyrirtækisins.

Rætur Samkaupa liggja í Kaupfélaginu

Saga Samkaupa hf. er um margt merkileg, en Samkaup heitir hlutafélagið sem Kaupfélag Suðurnesja stofnaði árið 1998 og er KSK meirihlutaeigandi félagsins. Samkaup reka 60 verslanir um allt land undir merkjum Nettó, Kjörbúðar, Krambúðar og Iceland. Á launaskrá eru um 1200 starfsmenn og að jafnaði koma daglega á milli 35 og 40 þúsund viðskiptavinir í verslanir félagsins.

„Rætur Samkaupa liggja í kaupfélagsverslunum, upphaflega er KSK eini eigandi félagsins en það óx síðar í gegnum sameiningar á landsvísu og fleiri kaupfélög komu að eignarhaldinu. Samkaupsverslanir eru í dag komnar út um allt land. Á árunum í kringum 1990 var mörkuð framtíðarstefna KSK um sérhæfingu félagsins í rekstri verslana og þá helst á dagvörumarkaði. KSK var fyrsta verslunarkeðjan til að fara út á land og bjóða þar sama verð og á höfuðborgarsvæðinu, það gerðist þegar félagið tók yfir verslunarrekstur Kaupfélags Ísfirðinga í lok árs 1996. Félagið var brautryðjandi á þessu sviði en menn voru kannski ekki duglegir að segja frá í fjölmiðlum heldur létu verkin tala hjá almenningi. Fyrsta stóra sameiningin í sögu Samkaupa var árið 2001 er rekstur dagvöruverslana KEA rann inn í Samkaup og varð KEA þar með hluti af eigendahópi Samkaupa. KEA var á þessum tíma með mjög fjölbreyttan og umfangsmikinn rekstur en ákváðu að sameinast Suðurnesjamönnum KSK í Samkaup, þetta voru ólík félög en ákváðu að vinna saman innan verslunarfélags með starfsemi á landsvísu,“ segir Ómar sem er Bolvíkingur og hóf störf hjá Samkaup á Ísafirði fyrir margt löngu.

Verslun Kaupfélags Suðurnesja við Hafnargötu 30 í Keflavík var á sínum tíma ein af aðal verslunum félagsins.

Stefndi á annað

„Ég stefndi á raungreinar í menntaskóla og hóf nám í sjávarlíffræði en örlögin höguðu því þannig til að ég endaði á Bifröst árið 1988 og þaðan útskrifaðist ég árið 1991 með próf í rekstrarfræðum frá Samvinnuháskólanum á Bifröst. Löngu síðar, eða 2015, bætti ég svo við MBA námi við Háskóla Íslands. Að loknu námi á Bifröst lá leiðin aftur vestur á Ísafjörð og þar vann ég við sjávarútveginn. Á haustmánuðum 1996 fékk ég símtal frá Guðjóni Stefánssyni, þáverandi kaupfélagsstjóra KSK, en hann vissi af mér í gegnum vin minn. Guðjón bauð mér starf verslunarstjóra á Ísafirði en ég sagði honum að ég hefði aldrei unnið í matvöruverslun og hefði þar af leiðandi enga reynslu. „Fínt,“ sagði hann; „því þá kanntu enga ósiði.“ Ég vildi standa undir því trausti sem Guðjón sýndi mér, ákvað að henda mér í djúpu laugina og takast á við starfið. Nokkrum árum síðar bauðst mér að færa mig hingað suður til Reykjanesbæjar en þá var stjórnunarteymi félagsins eflt til að styrkja miðlæga stjórnun verslana. Þannig að í lok árs 1999 flutti fjölskyldan hingað suður. Frá árinu 2009 hef ég verið forstjóri Samkaupa,“ segir Ómar.

Dugnaður getur borgað sig

Innan Samkaupa er möguleiki á að vinna sig upp. Þeir sem standa sig vel, skera sig úr, eru duglegir og samviskusamir, geta náð lengra. Menntun er ekki alltaf lykillinn hjá Samkaupum heldur hversu vel starfsfólk sinnir starfi sínu.

„Margir af stjórnendum Samkaupa hafa byrjað að vinna í búðunum. Þú getur hæglega unnið þig upp ef þú stendur þig vel. Félagið hefur á að skipa mjög færu fólki, meðalstarfsaldur er langur og algengt að fólk vinni hjá félaginu í tugi ára. Þó langur starfsaldur sé algengur þá er samt stöðug endurnýjun og við fáum nýtt fólk inn og nýjar hugmyndir. Það er mikil samheldni og samvinna á milli verslana um allt land og þessi mikla samvinna er öflugur vettvangur sem skapar góða tengingu á milli verslunarstjórnenda. Það er gott að eiga vin annars staðar á landinu. Upplýsingaflæði er opið og búðarbreytingar eru mikið unnar þannig að starfsmenn annarra verslana koma að og taka þátt í breytingunum með starfsmönnum viðkomandi verslunar. Þannig myndum við þessa tengingu á milli verslana. Fólk kynnist og á hauk í horni þegar leita þarf ráða. Þetta hefur reynst vel,“ segir Ómar.

Persónuleg verslun

Ómar bendir á að verslanir Samkaupa séu mismunandi eftir landshlutum.

„Hver verslun tekur mið af samfélaginu í kringum sig. Á einum stað getur til dæmis verið 100 ára saga að baki verslunarinnar og sumstaðar er fólk jafnvel í reikning eins og var áður fyrr. Við viljum nýta styrkleika fortíðar og tengja inn í nútímann. Samkaup er jafnvel eina verslunin í sumum byggðalögum og það getur verið áskorun fyrir okkur. Hvernig getum við komið til móts við neytendur og um leið látið verslunina ganga, reksturinn verður að standa undir sér. Hver verslun hefur sína sérstöðu. Krambúðin er í stærri byggðalögum og hugsuð fyrir þá sem vantar lausnir á hraðferð. Kjörbúðir eru í minni byggðalögum og yfirleitt eina verslunin á svæðinu. Nettó eru lágvöruverðsverslanir í stærri byggðalögum og nýjasta vörumerkið er Iceland-verslanir,“ segir Ómar.

Hröð þróun

Verslanir eru að þróast hratt og meðal nýjunga eru sjálfsafgreiðsla og netverslun. Að auki hefur umhverfisvitund almennings aukist, viðskiptavinir krefjast þess hreinlega að verslanir bjóði þeim umhverfisvænni valkosti í umbúðum. Eftir tvö ár verða plastpokar bannaðir.

„Við erum bara rétt að sjá byrjunina í þróun dagvöruverslana. Sjálfvirknivæðing er að aukast og störf í verslunum munu snúast meira um þjónustu og sölu. Við vitum ekki hvernig framtíðin mun þróast en við viljum taka þátt í þessu. Við vorum til dæmis að opna nýja Nettó-verslun og þar er einn afgreiðslukassi með starfsmanni sem afgreiðir viðskiptavini en sjö sjálfsafgreiðslukassar þar sem fólk getur afgreitt sig sjálft. Hægt er að snúa þessum kössum á álagstímum því þjálfað starfsfólk er jú oft fljótara að renna vörunni í gegn,“ segir Ómar.

Umhverfisvernd

„Hollusta og heilsa skiptir neytendur máli. Endurvinnsla, plastumbúðir og fjölnota burðarpoki, allt þetta tengist umhverfisvitund fólks sem ýtir á okkur að svara þessum þrýstingi og auka umhverfisvernd í öllu sem við gerum. Við viljum fara vel með orkuna og höfum þess vegna lokað frystikössum. Notuð er orka úr kælivélum sem býr til hita sem hitar upp búðina. Við byrjuðum á þessu þegar nýja búðin var byggð í Sandgerði og höfum reynt að koma þessu við í öllum nýjum búðum síðan. Þessi tækni kostar meira í upphafi en borgar sig og sparar okkur seinna. Við erum að taka þátt í sjálfbærni. Það er hagstæðast fyrir okkur að flokka því við fáum greitt fyrir plast og pappa.“

Netverslun

„Netið er nýr vettvangur og er netverslun að aukast hjá okkur, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Þar er þessi þjónusta mest notuð, þar sem ferðatími er meiri og fólk hefur minni tíma. Auðvitað viljum við fá fólkið í búðirnar en sumir hafa ekki tíma í það og fyrir þá viðskiptavini er netið góður valkostur. Sumir vilja koma í búðirnar og snerta vöruna, velja grænmetið og ávextina sjálft, þær vörur sem fólk er að kaupa inn. Verslunin er stundum einnig staður þar sem þú hittir annað fólk. Mjög oft má sjá viðskiptavini á spjalli í búðinni,“ segir Ómar.

Verið að brjóta upp

Stundum verður fólk alveg ringlað þegar búið er að breyta og endurraða hillum matvöruverslana. Ómar segir breytingarnar gerðar í ákveðnum tilgangi.

„Hluti af því að hafa búðina lifandi er að breyta og setja á nýjan stað, ný vara, nýir litir. Viðskiptavinurinn er vanafastur og gengur alltaf á sama stað en þegar breytingar verða þá uppgötvar hann kannski nýja vöru og þá er tilganginum náð, fjölbreytni getur haft áhrif á neysluvenjur fólks.“

Heiðar Róbert Birnuson, rekstrarstjóri Kjörbúða:

Fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt

„Í dag er ég rekstrarstjóri Kjörbúðanna og Samkaup Strax. Ég hóf störf árið 2006 og þá sem almennur starfsmaður í Strax Borgarbraut á Akureyri. Ég vann þar og í Nettó Glerártorgi ásamt ýmsum sérverkefnum og tók svo við sem verslunarstjóri Strax Borgarbraut árið 2011. Árið 2012 tók ég við Nettó á Egilsstöðum og var þar þangað til ég tók við Nettó Krossmóa árið 2016. Ég hef verið rekstrarstjóri síðan 2017. Verkefnin eru misjöfn en starfið er afar fjölbreytt, krefjandi og skemmtilegt. Ég er heppinn með það að hafa frábært samstarfsfólk í kringum mig á öllum starfsstöðum mínum og hef eignast mikið af góðum vinum í gegnum árin.“

Gunnur Líf Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála:

Góður starfsandi og jákvæðni

„Ég starfa sem framkvæmdastjóri Mannauðssviðs hjá Samkaupum og hef gegnt því starfi í eitt ár. Ég er að mínu mati í frábæru starfi sem er mjög gefandi jafnt sem krefjandi. Það er einstakt að fá tækifæri til að vinna með og styðja við fjölbreyttan starfsmannahóp Samkaupa út um allt land. Það eru margir þættir sem gera Samkaup að góðum vinnustað. Þar ríkir góður starfsandi og jákvæðni, samstarfsfólk stendur með hvort öðru. Margir hafa unnið í langan tíma hjá fyrirtækinu sem styður við það að fólki líður vel og andrúmsloftið er gott. En umfram allt er gaman í vinnunni og fólk er að takast á við fjölbreytt verkefni.“