Nettó
Nettó

Viðskipti

  • Uppbygging skapað mikil verðmæti
    Frá Ásbrú. Mynd úr ársskýrslu KADECO fyrir árið 2017.
  • Uppbygging skapað mikil verðmæti
    Ísak Ernir Kristinsson, stjórnarformaður KADECO.
Mánudagur 25. júní 2018 kl. 17:07

Uppbygging skapað mikil verðmæti

- Starfsemi KADECO haldið áfram og Ísak Ernir nýr stjórnarformaður

Ísak Ernir Kristinsson er nýr stjórnarformaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco. Aðalfundur félagsins var haldinn í dag. Aðrir í stjórn eru þau Steinunn Sigvaldadótti og Hafsteinn S. Hafsteinsson. Ísak kemur í stað Georgs Brynjarssonar sem lét af stjórnarformennsku í dag. Ekki eru uppi áform um að hætta starfsemi KADECO.
 
Á aðalfundinum kom fram að hagnaður ársins 2017 nam 597 milljónum kr. samkvæmt rekstrarreikningi. Eigið fé félagsins nam í árslok 2.713,9 milljónum kr. samkvæmt efnahagsreikningi, þar af nemur hlutafé félagsins 20,0 millj. kr. Fjöldi hluthafa breyttist ekki á árinu og er allt hlutafé í eigu Ríkissjóðs Íslands.
 
Félagið hefur selt nánast allar fasteignir sem það hafði í umsýslu sinni við undirritun ársreiknings 2017. 
 
Stjórn félagsins á síðasta starfsári lagði áherslu á að einfalda reksturinn og var unnið að sameiningu dótturfélaga þróunarfélagsins auk þess að leggja áherslu á að selja þær fasteignir sem eftir voru í umsjá félagsins. Lagður var grunnur að stefnumótun varðandi úthlutun lóða hjá félaginu og var umtalsverð greiningarvinna unnin með það að markmiði að kanna samkeppnishæfni lóða á starfssvæði félagsins.
 
Mikil eftirspurn fasteigna á Ásbrú hefur haldist í takt við mikinn vöxt á Keflavíkurflugvelli og fyrirsjáanlega framtíðaraukningu umsvifa þar. Í samræmi við stefnu félagsins um að koma eignum sem fyrst í borgaraleg not og hámarka verðmæti eignanna í sölu, lagði félagið mikla áherslu á að nýta það tækifæri sem skapaðist til að koma eignum í umsjá félagsins í borgaralega nýtingu, segir í ársskýrslu KADECO fyrir árið 2017.
 
Eitt af markmiðum Kadeco var að selja eignir sem félagið hafði til umsýslu og leigja eignir eftir því sem við átti. Í desember 2016 voru nær allar fasteignir félagsins seldar í einni stórri sölu og markaði því ákveðin tímamót í umsýslu fasteigna Þróunarfélagins. Þær fáu eignir sem eftir voru var farið markvisst í að auglýsa til sölu.
 
Á árinu 2017 voru seldar alls 10 fasteignir í níu sölusamningum, allt iðnaðarhúsnæði. Söluvirði eignanna var um 430 milljónir króna. Í lok árs 2017 var félagið með þrjár fasteignir í sinni umsjá, sem allar voru í sölumeðferð.


Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KADECO.

Marta Jónsdóttir, framkvæmdastjóri KADECO, segir í ávarpi í ársskýrslunni að augljóst er að mikið er í húfi fyrir sveitarfélögin á Suðurnesjum, og þjóðina alla, að vel takist til með áframhaldandi þróun svæðisins enda eru svæði í kringum flugvelli með jafn góðar alþjóðlegar tengingar á borð við þær sem Keflavíkurflugvöllur hefur þjóðhagslega mikilvæg í hvaða landi sem er. Í dag er Keflavíkurflugvöllur stærsti vinnustaður landsins og ber stjórnvöldum skylda til að hlúa að honum og tryggja að frekari uppbygging á nærsvæðum hans nái fram að ganga. Það er nauðsynlegt að félagið sem nú hefur slitið barnsskónum fái að nýta þá þekkingu, færni og reynslu sem það býr yfir til áframhaldandi góðra verka.
 
„Sú þróun og uppbygging sem hefur átt sér stað á svæðinu hefur nú þegar skapað mikil verðmæti úr því landi sem félagið hefur umsýslu með. Um leið hefur grunnur verið lagður að aukinni virðisaukningu svæðisins í kringum flugvöllinn með tilheyrandi tækifærum. Frá stofnun hefur félagið unnið markvisst að því að laða að erlenda fjárfestingu og alþjóðleg fyrirtæki með ágætum árangri. Með skýrri stefnu má skapa mikil verðmæti úr landi við flugvöllinn, svo sem gert er víða erlendis, þar sem alþjóðleg fyrirtæki kjósa að staðsetja sig við vel tengda flugvelli. Bæði vegna möguleika til vörudreifingar en jafnframt til að nýta flugtengingarnar fyrir stjórnendur og starfsfólk. Flugvellir sem hafa pláss til að vaxa laða að atvinnustarfsemi í hávirðisgreinum ef rétt er haldið á spilunum. Þá styrkir öflugur flugvöllur með góðum tengingum innlenda starfsemi með auknum viðskiptatækifærum og atvinnumöguleikum, en því hefur verið haldið fram að flugvöllum megi líkja við vél sem knýr hagvöxt,“ segir Marta í ávarpi sínu.
 
Georg Brynjarsson, fráfarandi stjórnarformaður KADECO segir í sínu ávarpi; „Ég er afar stoltur að því að frágangi á skuldamálum Keilis – miðstöðvar vísinda, fræða og atvinnulífs - við Kadeco hafi verið lokið á starfsárinu. Um er að ræða langa sögu sem hefur falið í sér óvissu fyrir skólann og framtíð hans. Nú þegar rammasamkomulag um uppgjör milli félaganna hefur verið undirritað er þeirri óvissu eytt. Skólinn getur byggt sig upp til framtíðar og Kadeco getur verið stolt af aðkomu sinni að því merkilega frumkvöðlaverkefni sem skólinn er“.
 
Um 3000 íbúar eru í dag á Ásbrú og á þar eru einnig á annað hundrað fyrirtækja og stofnana með yfir 800 starfsmenn. Á síðasta ári var unnið að rammaskipulagi fyrir íbúasvæðið á Ásbrú en það svæði hefur enn sem komið er ekki verið deiliskipulagt. Mikil ásókn er í íbúðarhúsalóðir á svæðinu þar sem þörfin fyrir aukið húsnæði á Suðurnesjum er mikil. „Mjög brýnt er að ljúka þeirri vinnu og hefjast handa við vinnslu deiliskipulags svo unnt verði að úthluta byggingarlóðum til áhugasamra. Mikil tækifæri eru á svæðinu til að þétta byggðina og má leiða að því líkur að íbúðabyggðin á næstu 15 árum muni þrefaldast,“ segir í ársskýrslu KADECO fyrir árið 2017.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs