Viðskipti

Tískudrottningin Kóda 35 ára
Mánudagur 12. nóvember 2018 kl. 16:06

Tískudrottningin Kóda 35 ára

Þann 3. nóvember 1983 opnuðu þær Halldóra Lúðvíksdóttir og Kristín Kristjánsdóttir saman tískuverslunina Kóda í Keflavík við Hafnargötu, aðalverslunargötu bæjarins. Þær sáu meðal annars um að láta „eigthies“ tískustrauma berast til bæjarins og fóru í verslunarferðir til útlanda til að kaupa tískuföt í búðina sem fengust ekki annars staðar. Það hefur alltaf verið stefnan að bjóða upp á tískufatnað sem aðrar verslanir bjóða ekki upp á. Í dag eiga þær systur Kristín og Hildur Kristjánsdætur saman tískuverslunina Kóda og eru enn staðsettar á sama stað í hjarta bæjarins. Kóda bauð upp á 35% afslátt í tilefni afmælisins.
 

Afmælinu fagnað með viðskiptavinum

 
Í tilefni þessara tímamóta buðu eigendur Kóda upp á 35% afslátt alla afmælishelgina. Við hittum Kristínu eiganda að máli og forvitnuðumst um viðtökur bæjarbúa síðustu helgi. 
 
„Helgin gekk æðislega vel, svo gaman að sjá alla sem komu til okkar og fögnuðu með okkur. Bara æðislegt. Svo mikil hlýja og bara svo gaman. Það er bara svoleiðis. Fengum alveg ótrúlegt þakklæti frá konum en það er helsti kúnnahópur okkar, konur í öllum stærðum. Við fáum oft að heyra það hvað það er gott að við séum að þjóna konum svona vel og það gefur okkur kraft til að halda áfram,“ segir Kristín hæstánægð með viðtökurnar. 
 

Kóda lifði af hrunið 2008

 
„Já, Kóda er búin að standa af sér öll þessi 35 ár og gengið vel. Í kreppunni var sérlega mikið verslað við okkur því fólk fór ekki til útlanda að kaupa sér föt. Allir drógu saman seglin og versluðu meira hér heima. Auðvitað hefur oft verið hark inn á milli en við höfum ekki gefist upp. Við Dóra fórum af stað með Kóda á sínum tíma af ævintýraþrá, hún með fullt húsið af börnum og ég með tvo stráka. Þetta var ótrúleg bjartsýni, höfðum nóg að gera heima hjá okkur en svo bara gekk allt svo vel og viðtökurnar voru svo góðar. Við vildum gera eitthvað nýtt og vorum með tískusýningar en þá var tíðarandinn annar en núna. Skemmtistaðir eins og Glaumberg lifðu góðu lífi en við vorum einnig í samstarfi við Siddý Gunnars sem rak snyrtivöruverslunina Gloríu. Við unnum saman að þessum viðburðum í bæjarfélaginu, rosa gaman. Dóra flutti í Hafnarfjörð fyrir mörgum árum og þá kom Hildur systir inn í fyrirtækið og það hefur einnig gengið mjög vel hjá okkur,“ segir Kristín.
 

Verslun fyrir konur

 
Kristín segist ánægð með að vera í eigin verslunarrekstri, að vera sjálfs síns herra, það gefi henni ákveðið frelsi. „Mér finnst gaman að vera sjálfstæður atvinnurekandi. Ótrúlega mikið af góðum kúnnum sem við viljum þjóna vel. Það er alltaf mottóið okkar þegar fólk kemur hingað inn, að þjóna fólki eins vel og við getum. Það er áríðandi að vera á tánum þegar maður rekur verslun og hlusta eftir því sem konur vilja kaupa. Við viljum aðstoða við rétt kaup sem passa þeim og klæðir þær. Við stílum inn á konur en hingað koma einnig eiginmenn að leita að gjöf handa konunni sinni. Við aðstoðum þá einnig við valið,“ segir Kristín glaðlega.
 

Látum Hafnargötuna lifa áfram

 
Það er heilmikið vöruúrval í þeim verslunum sem eru reknar í miðbænum. Þar má meðal annars finna tískuföt, skófatnað, íþróttaföt, skartgripi, tvo gullsmiði, gjafavörur, blómabúðir, húsgögn og minjavöruverslun svo eitthvað sé nefnt. Ef bæjarbúar eru spurðir hvort þeir vilji halda byggð sinni í blóma, þá svara örugglega langflestir þeirri spurningu játandi. 
 
Þær verslanir sem eru reknar í bæjarfélaginu starfa saman í samtökunum Betri bær og standa fyrir allskonar viðburðum til að laða að meiri verslun í heimabyggð. Jólin og Ljósanótt eru hápunktar ársins í Reykjanesbæ en þess á milli hafa verið einstakir viðburðir fyrir bæjarbúa. 
 
„Við systurnar vinnum að því að hafa vöruúrval mjög mikið hjá okkur og förum öðru hvoru til útlanda til að kaupa inn vörur sem fást jafnvel ekki annars staðar. Verðlaginu stillum við í hóf og komumst ekkert upp með neitt annað því kúnninn veit velhvað hlutirnir eiga að kosta. Ef gengið lækkar þá lækkum við. Við viljum alltaf vera á tánum. Þótt við séum sjaldnar í dag að standa fyrir tískusýningum í bæjarfélaginu þá erum við í samstarfi við aðrar verslanir hér í bæ um viðburði. Kóda tilheyrir samtökunum Betri bær en þar eru verslunareigendur bæjarins mjög samstíga í að auka verslun í heimabyggð. Við erum stundum með Kósýkvöld sem laðar til okkar. Við bjóðum upp á kvöldopnun vegna jólanna. Þorláksmessa hefur alltaf verið geggjuð hérna á Hafnargötunni, mikil og góð stemmning þar sem allir eru í jólaskapi. Jólasveinar eru á vappi og nemendur Tónlistarskólans spila jólalög utandyra. Þetta er bara ofsalega gaman. Ég þrái að Hafnargatan lifi og að Reykjanesbær eigi áfram miðbæ. Ég veit að netverslun hefur aukist en það á samt ekki við um konurnar sem versla hjá okkur því þær vilja máta fötin sem þær kaupa og koma við efnið, finna efnið í flíkinni. Það er líka þetta félagslega að koma við í búðinni, hitta aðra og spjalla. Fólk gefur lífinu gildi,“ segir Kristín og hittir naglann á höfuðið þegar litið er yfir kvennahópinn sem hefur flykkst í Kóda til að gera góð kaup og fagna með þeim systrum í leiðinni.

 
Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Tískusýning frá Kóda fyrir mörgum árum