Nettó
Nettó

Viðskipti

  • Þægilegt að vera bara þrjár mínútur í vinnuna
  • Þægilegt að vera bara þrjár mínútur í vinnuna
Mánudagur 26. júní 2017 kl. 06:00

Þægilegt að vera bara þrjár mínútur í vinnuna

-segir Gísli Hlynur Jóhannsson, nýr rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar í Reykjanesbæ

Gísli Hlynur Jóhannsson er nýr rekstrarstjóri Húsasmiðjunnar í Reykjanesbæ. Hann tók við 16. maí sl. og segir að þetta leggist vel í sig. „Þetta er mikil áskorun fyrir mig að taka við þessu verkefni, ég þekki ágætlega til reksturs. Ég hef verið stjórnandi í ýmsu í gegnum árin, þekki marga og margir þekkja mig og þannig ætla ég m.a að reyna að auka umsvif Húsasmiðjunnar á Suðurnesjum.“

Þægilegt að vera bara þrjár mínútur i vinnuna
Gísli var að vinna sem þjónustustjóri í sölu- og markaðsdeildinni hjá Íslenska Gámafélaginu áður en hann tók við starfi rekstrarstjóra Húsasmiðjunnar. „Ég var búinn að vera í tæp þrettán ár hjá Íslenska Gámafélaginu þegar ég ákvað að breyta til og sækja um stöðuna í Húsasmiðjunni. Það fór að meðaltali einn og hálfur tími á dag í að ferðast á brautinni en þetta var skemmtilegt starf. Ég var mikið á ferðinni og einnig þó nokkuð úti á landi í heimsóknum, hitti marga og þá var einnig mikið rætt um sportið og dómgæsluna. Þetta var góður tíma hjá Íslenska Gámafélaginu og þakka ég öllum hjá fyrirtækinu fyrir þann tíma.  Ég er aðeins farinn að átta mig á því hvað það er þægilegt að vera eingöngu þrjár mínútur að keyra í vinnuna eða bara átta mínútur á hjóli en ég flutti í Njarðvík í byrjun janúar sl.“

Mikill uppgangur á svæðinu
Það eru níu fastráðnir starfsmenn í Húsasmiðjunni og síðan leysa af sex einstaklingar í sumar þegar aðrir eru í sumarleyfi. „Það hefur verið nóg að gera síðan ég byrjaði, bæði hjá mér og einnig í versluninni á öllum vígstöðvum. Ég tek mér tíma að komast inn í alla hluti og verð að vera þolinmóður. Það er ekki hægt að gera allt fyrstu vikurnar. Ég kem inn í sumarvertíðina þannig að það er mikið að gera í timbursölunni og málningardeildinni. Einnig er mikið að gera í búðinni í alls konar vörum. Sumarblómin, mold og fleira koma sterk inn. Síðan er ávallt mikið að gera í pípulagninga-deildinni Ég vil koma Húsasmiðjunni á enn hærri stall en hún er á nú þegar, þ.e. að bjóða upp á fleiri vörur fyrir fólkið. Þar þurfum við öll að vinna saman, vöruhúsin í Reykjavík, birgjar og flutningur á milli Reykjavíkur og Reykjanesbæjar. Það er mikill uppgangur á svæðinu og mörg tækifæri fyrir einstaklinga og verktaka og þá verðum við að eiga vöruna sem beðið er um.“

Búinn að leggja skóna, spjöldin og flautuna á hilluna
Nú ert þú þekktur handboltadómari. Ertu ennþá að dæma?
„Við félagarnir, ég og Hafsteinn, lögðum skóna, spjöld og flautur á hilluna sl. haust eftir 34 ár í dómgæslunni. Þetta var orðið gott og þægilegt að geta hætt á eigin forsendum og á toppnum eftir farsælan feril. Ég er aðeins byrjaður sem eftirlitsdómari í handboltanum og verð það kannski áfram. Síðan ég hætti að dæma í fótboltanum fyrir 11 árum hef ég verið í eftirliti þar og tekið að mér dómarakennslu.“

Skiptir máli að fá heimamann í þetta verkefni
„Ég vil bjóða alla velkomna í Húsasmiðjuna í Reykjanesbæ. Þar er heitt er á könnunni og ávallt vel tekið á móti viðskiptavininum. Ég hlakka til að sjá öll þau andlit sem ég hef ekki séð í mörg ár þar sem ég hef verið mikið í Reykjavík að vinna. Sumir sem ég hef ekki séð lengi hafa sagt við mig að nú fari þau að sjá mig oftar, en hér áður gátu þau fylgst með mér í sjónvarpinu í dómgæslunni. Einnig hef ég heyrt að það skipti máli að fá heimamann í þetta verkefni,“ segir Gísli að lokum.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs