Nettó
Nettó

Viðskipti

Orka náttúrunnar og Advania Data Centers semja um rafmagnskaup
Þriðjudagur 27. febrúar 2018 kl. 13:15

Orka náttúrunnar og Advania Data Centers semja um rafmagnskaup

- 15 megavött til að knýja stækkað gagnaver í Reykjanesbæ

Orka náttúrunnar (ON) og Advania Data Centers hafa samið um sölu á 15 megavöttum vegna stækkunar gagnavers félagsins í Reykjanesbæ. Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON, segir samninginn vera mikilvægan fyrir ON þar sem fyrirtækið fái hærra verð fyrir raforkuna en áður og frá grænni starfsemi.
 
Orka náttúrunnar mun ekki þurfa að ráðast í framkvæmdir eða virkja sérstaklega til að afla umræddrar orku því á næstu misserum munu eldri samningar um orkusölu til stóriðju renna út. Með samkomulagi sínu við ON hefur Advania Data Centers tryggt sér orkuna sem hefur verið bundin í allt að 20 ár með eldri samningum. ON er eitt þriggja orkufyrirtækja sem leggja gagnaverinu í Reykjanesbæ til orku.
 
Advania Data Centers hefur vaxið ört á undanförnum misserum. Í lok árs munu ríflega 50 manns starfa hjá félaginu og ráðgert er að veltan á þessu ári verði um sex milljarðar króna.
 
„Við höfum viljað auka fjölbreytnina í hópi okkar viðskiptavina og samningurinn við Advania Data Centers fellur að okkar markmiðum. Auk gagnavera erum við líka að horfa til áhugasamra viðskiptavina sem vilja byggja upp fjölbreyttan rekstur í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun. Jarðhitagarðurinn er umgjörð um fjölbreytta starfsemi sem stuðlar að sem bestri nýtingu afurða Hellisheiðarvirkjunar, jákvæðum umhverfisáhrifum og verðmætasköpun. Þar er nú þegar stunduð kísilvinnsla og kolefnisföngun úr lofti og áhugasamir þörungaræktendur eru að skoða kostina við að hafa sinn rekstur í Jarðhitagarðinum. Þar eru því tækifæri til að vinna áfram að markmiðum fyrirtækisins í sölu á varma- eða raforku eða öðrum auðlindastraumum sem jarðhitanýtingunni fylgja,“ segir Bjarni Már Júlíusson, framkvæmdastjóri ON.
 
„Alþjóðleg eftirspurn eftir okkar þjónustu hefur aukist hratt, enda höfum við á undanförnum árum fjárfest markvisst í þekkingu og tæknilegri getu til að þjónusta kröfuharða viðskiptavini. Til að mæta eftirspurninni erum við að stækka gagnaverin og fjárfesta fyrir 6 milljarða króna á þessu ári í uppbyggingu þeirra. Gagnavörslu- og reiknigetan sem verður til í stækkuðu gagnaveri er nú þegar uppseld og það er ljóst að tækifærin til frekari vaxtar eru mikil. Orðspor Íslands í þessari atvinnugrein er gott og í henni liggja fjölmörg tækifæri. Ef fyrirtækin í greininni, birgjar og stjórnvöld halda rétt á spilunum getum við skapað hér mikil útflutningsverðmæti og haft verulega jákvæð áhrif á hagkerfið allt,“ segir Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers.
Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs