Verne Global Atvinna
Verne Global Atvinna

Viðskipti

Öflug liðsheild lykill að góðu rekstrarári Samkaupa
Mánudagur 12. apríl 2021 kl. 10:00

Öflug liðsheild lykill að góðu rekstrarári Samkaupa

Ársreikningur Samkaupa hf. fyrir rekstrarárið 2020 var samþykktur á aðalfundi félagsins þann 10. mars 2021. Rekstur ársins gekk vel þrátt fyrir að árið hafi verið óvenjulegt á marga vegu. Velta vegna erlendra ferðamanna dróst verulega saman strax í upphafi heimsfaraldursins en á móti varð mikil aukning í veltu netverslunar. Þá varð breytt neysluhegðun, með tilkomu samkomutakmarkana og sóttvarnaraðgerða, til þess að aukning varð í veltu minni hverfisverslana og vörukarfan stækkaði. Heilt yfir leiddi Covid-19 til meiri viðskipta í dagvöruverslunum en á móti jókst kostnaður líka. Þegar árið er borið saman við fyrra ár er mikvilægt að hafa í huga að árið 2019 einkenndist af umtalsverðum kostnaði vegna yfirtöku nýrra rekstrareininga.

Áhersla var lögð á að tryggja öryggi og velferð starfsmanna og viðskiptavina í krefjandi aðstæðum samkomutakmarkana á árinu. Álag í verslunum var mikið og framlag starfsmanna í framlínu ómetanlegt. Stjórn félagsins samþykkti á árinu að veita allt að 150 millj. kr. í aðgerðarpakka sem var sérstaklega ætlaður framlínustarfsmönnum í verslunum undir yfirskriftinni „Takk fyrir að standa vaktina!“. Hjá Samkaupum starfa um 1400 starfsmenn og þar af eru 1350 í framlínu í verslunum.

Félagið hefur nú í fyrsta sinn gefið út samfélagsskýrslu sem er aðgengileg á heimasíðu þess. Samkaup hefur um langt skeið unnið að mikilvægum samfélagsmálum í eigin starfsemi en áhersla hefur verið lögð á að félagið sé öflugur þátttakandi í samfélaginu, leggi góðum málefnum lið og hafi jákvæð áhrif á þróun samfélagsins. Þannig hefur félagið m.a. beitt sér fyrir minni sóun, bættu umhverfi og heilsueflingu.

Verkefni ársins 2021 eru mörg og er félagið vel í stakk búið til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru. Áhersla verður lögð á að Samkaup verði áfram framsækið verslunarfyrirtæki sem er þekkt fyrir að fara alla leið í þágu vörugæða og þjónustu, samtímis því að vera í fararbroddi í nýsköpun og skapa tækifæri fyrir viðskiptavini, samfélagið og starfsfólk.

Helstu niðurstöður rekstrarársins 2020:

  • Vörusala nam 38.329 millj. kr. samanborið við 34.292 millj. kr. á árinu 2019.
  • Framlegðarhlutfall nam 24,4% samanborið við 23,9% á árinu 2019.
  • Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 2.335 millj. kr. samanborið við 1.909 millj. kr. á árinu 2019.
  • Hagnaður eftir skatta nam 446 millj. kr. samanborið við 238 millj. kr. á árinu 2019.
  • Heildareignir í árslok námu 17.982 millj. kr. samanborið við 17.166 millj. kr. á árinu 2019.
  • Eigið fé í árslok nam 2.585 millj. kr. samanborið við 2.439 millj. kr. á árinu 2019.
  • Eiginfjárhlutfall var 14,4% samanborið við 14,2% á árinu 2019.