Nettó
Nettó

Viðskipti

Netverslun á fleygiferð
Fimmtudagur 21. desember 2017 kl. 10:51

Netverslun á fleygiferð

-Starfsmannafjöldi UPS hefur þrefaldast á áratug

„Netverslun er í gríðarlegum vexti og við höfum verið að upplifa mjög hraðan vöxt í rekstrinum á undanförnum árum,“ segir Skúli Skúlason, framkvæmdastjóri UPS, en starfsemi fyrirtækisins flutti í nýtt húsnæði í síðustu viku. Fyrirtækið er í sömu byggingu og Airport Associates á Keflavíkurflugvelli.

„Það var gjörbylting að að komast í alvöru húsnæði, plássleysi á hinum staðnum var orðið erfitt. Þetta skiptir okkur miklu máli.“

Skúli segir að fyrirtækið hafi verið stofnað árið 2005 þegar það tók við umboði UPS á Íslandi.

Til að byrja með hafi starfsmenn verið um tíu en með aukinni netverslun hafi starfsemin aukist mikið og nú séu starfsmennirnir orðnir þrjátíu.

UPS er stærsta og öflugasta hraðsendingafyrirtæki heims með þjónustunet til rúmlega 220 landa um allan heim. Undanfarin ár hefur UPS verið í mikilli sókn í Evrópu og er nú orðið leiðandi fyrirtæki á þeim markaði. Daglega eru afhentir tæplega 16 milljónir pakka um allan heim að sögn Skúla.

Í gegnum öflugt samskiptanet UPS er auðvelt að sjá hvaða sendingar séu á leið til landsins eða hvar þær séu staðsettar á leiðinni og auðvelt er að rekja sendinguna frá upprunalandi til ákvörðunarstaðar. UPS er elsta hraðsendingafyrirtæki í heiminum, stofnað í Bandaríkjunum árið 1907.

„Yngri kynslóðin er að kaupa mikið á netinu. Þau fara mörg hver ekki í búðir. Þjónustan er mjög góð og kaupandi getur fengið vöruna í hendurnar daginn eftir að hann pantar ef hann gerir pöntun að morgni,“ segir Skúli en á hverjum morgni fara að minnsta kostur tugur bílstjóra út úr húsi með pantanir.

„Það eru áskoranir núna að halda góðu starfsfólki en þetta hefur gengið vel hjá okkur. Hraður vöxtur er oft vissulega erfiður en við höfum náð að taka við honum. Mér finnst ekki ólíklegt að það hægi eitthvað á honum,“ segir Skúli Skúlason hjá UPS.

Skúli Skúlason framkvæmdastjóri UPS.

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs