Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Viðskipti

Kosmos & Kaos opnar skrifstofu í Stokkhólmi
Inga Birna Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri og Guðmundur Bjarni Sigurðsson eigandi Kosmos & Kaos.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 31. ágúst 2019 kl. 08:14

Kosmos & Kaos opnar skrifstofu í Stokkhólmi

Kosmos & Kaos opnar skrifstofu í Stokkhólmi

Kosmos & Kaos opnaði í ágúst nýja skrifstofu í Stokkhólmi sem lið í því að útvíkka starfsemi sína til Norðurlandanna. Skrifstofan er til húsa hjá WeWork, einu stærsta fyrirtæki heims á sviði samhýstrar skrifstofustarfsemi, en byggingin er staðsett í hjarta borgarinnar og í henni starfa upp undir 1000 fyrirtæki úr ýmsum greinum atvinnulífsins.

Samhliða þessu hefur Kosmos & Kaos ráðið Inga Má Elvarsson í starf svæðisstjóra (e. Country Manager) en hann starfaði áður sem stjórnandi hjá EC Software, Framfab og SAS Institute meðal annarra og býr yfir mikilli reynslu á sviði sölu- og markaðsmála í stafræna geiranum.

Public deli
Public deli

„Þetta nýja skipulag styður vel við framtíðarstefnu fyrirtækisins,“ segir Inga Birna Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Kosmos & Kaos. „Við höfum verið að vinna fyrir erlenda viðskiptavini um nokkurra ára skeið en með starfsstöð í Stokkhólmi er ætlunin að ná til viðskiptavina á Norðurlöndunum og víðar.“

Skrifstofurnar tvær í Stokkhólmi og Reykjavík munu starfa sem ein heild með það að markmiði að verða leiðandi á þessum nýja markaði en mikill uppgangur er í stafrænni umbreytingu fyrirtækja og stofnana í Svíþjóð um þessar mundir og stórar áskoranir framundan sem spennandi verður að takast á við. Með hönnun að leiðarljósi hefur Kosmos & Kaos skipað sér í fremstu röð á sviði stafrænnar umbreytingar á Íslandi og ljóst er að eftirspurn eftir þeirri reynslu og þekkingu sem orðið hefur til innan fyrirtækisins er mikil utan landsteinanna.

Um Kosmos & Kaos

Kosmos & Kaos var stofnað árið 2010 og er í eigu Keflvíkingsins Guðmundar Bjarna Sigurðssonar. Fyrirtækið hefur vakið athygli fyrir metnaðarfulla vefhönnun, auk áherslu á samfélagslega ábyrgð, umhverfisvernd og lýðræði í ákvarðanatöku. Fyrirtækið hefur einnig verið í vöruþróun á undanförnum árum og hefur styrkt stöðu sína í forritun og stafrænni hönnun. Á meðal viðskiptavina þess eru Arion banki, VÍS, Vodafone, Orkuveita Reykjavíkur, Gagnaveita Reykjavíkur, Orka náttúrunnar og Íslandsstofa. Fimmtán manns starfa hjá fyrirtækinu í Reykjavík og Stokkhólmi.

Séð inn í WeWork en það er stærsta fyrirtæki heims á sviði samhýstrar skrifstofustarfsemi.