Viðskipti

Höfum búið til liti eftir Kitchen Aid-hrærivél
Eðvald Heimisson hjá Slippfélaginu í Reykjanesbæ. VF-myndir/rannveig.
Þriðjudagur 10. júlí 2018 kl. 06:00

Höfum búið til liti eftir Kitchen Aid-hrærivél

- Mattir litir eru vinsælir í dag, segir Eðvald Heimisson hjá Slippfélaginu í Reykjanesbæ

„Mattir litir eru vinsælir í dag, fólk málar rými og glugga í möttum litum og háglansinn er í smá hvíld núna,“ segir Eðvald Heimisson hjá Slippfélaginu í Reykjanesbæ. Slippfélagið opnaði verslun sína á Hafnargötunni í apríl í fyrra og hafa viðskiptin gengið vel frá því að hún opnaði. Fyrirtækið sjálft var stofnað árið 1902 og má því segja að það sé með nokkuð góða þekkingu þegar kemur að málningu og undirbúning fyrir málningarvinnu. Víkurfréttir hittu Eðvald, eða Ella eins og hann er gjarnan kallaður, á Hafnargötunni og spurðu hann meðal annars að því hvað þarf að hafa í huga áður en byrjað er að mála pallinn.

Góð sala þrátt fyrir vætutíð

Í sumar hefur salan gengið vel þrátt fyrir vætutíð en það hefur ekki farið framhjá neinum sem býr á Suðurnesjum að það hefur rignt ansi mikið í sumar. Elli segir að það megi þakka nýbyggingum, flugvellinum og fleiru fyrir góða sölu í sumar. En hvað hefur fólk helst verið að versla í sumar? „Flestir eru að kaupa útimálningu á húsin hjá sér en um leið og það hefur stytt upp og þornað þá kaupa allir pallaolíu. Hér í Reykjanesbæ eru einnig margar nýbyggingar, verið er að breyta húsum og þess háttar þannig að innimálningin er alltaf stöðug.“ Elli segir að það sé augljóst að einstaklingar séu að bíða eftir því að það hætti að rigna og það framkvæmi meira innanhúss í sumar vegna vætutíðar.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Góð hreinsiefni mikilvæg

Undirbúningsvinnan er mikilvæg áður en pallurinn er málaður eða olíuborinn og það skiptir miklu máli að hreinsa hann vel. „Við erum með öll hreinsiefni sem til þarf, hvort það er til að taka gráma af eða græna slikju þá erum við með efni til að hreinsa það, við erum líka með efni til að hreinsa pallinn alveg. Svo er grundvallaratriði að leyfa viðnum að þorna eftir að hann hefur verið þveginn og helst í tvo til þrjá daga, þó svo að við höfum ekki fengið þannig þurrk hér hjá okkur enn í sumar.“ Þurrkurinn skiptir líka máli þegar mála á steypu og stein en grunna þarf nýsteypu til að málningin haldist á.



Þekjandi viðarvörn vinsæl

Tekk litir voru afar vinsælir hér fyrir nokkrum árum síðan en Elli segir að pallaolían sé að koma sterk inn. „Við getum nánast blandað alla liti í pallaolíu. Grár er mjög vinsæll litur, allt frá ljósgráu og alveg upp í svart, fólk er farið að þora meira þegar kemur að litavali á pallana sína.“ Þegar kemur að málningu á sumarbústaðinn er þekjandi viðarvörn vinsæl. „Ef það er bara borin olía á bústaðinn, þá þarf að gera það á hverju ári. Þekjandi viðarvörnin er því vinsælli enda endingin meiri og betri en við  erum ekki bara með þessa hefðbundnu olíuviðarvörn lengur, heldur erum við með olíuakrýl sem er í rauninni eins og venjuleg málning en með viðarvörn.“



Ekki lengur allt hvítt

Heitustu litirnir í dag eru gráir og grádrappaðir að sögn Ella en þeir hafa verið vinsælir í talsvert langan tíma. „Fyrir nokkrum árum var allt hvítt en núna er fólk farið að mála heilu rýmin í dökkum lit eða öðrum lit en bara hvítum og það á líka við um loftin.“ Vinsælustu litirnir hjá Slippfélaginu um þessar mundir eru litir frá Sæju en Elli segir að litir séu að koma sterkt inn aftur. „Fjólublár, blár og  grænn eru að koma sterkir inn en þeir eru ekki mjög skærir, frekar mildir, dempaðir og aðeins muskaðir. Hér áður málaði fólk bara með lit inni í barnaherbergjum en það er að breytast, það eru komnir litir í stofum, eldhúsum og almenna rýminu líka.“



Hægt að blanda nánast hvaða lit sem er

Mattir litir eru að ryðja sér til rúms um þessar mundir og háglansinn er í smá hvíld að sögn Ella. „Við seljum mikið af litaprufum á dag og eru margir duglegir að prófa litina á veggnum í rýminu áður en byrjað er á því að mála, því liturinn lítur allt öðruvísi út á litaspjaldi eða í tölvunni heldur en þegar hann er kominn á vegginn og í rýmið sjálft.

Slippfélagið sérblandar einnig liti og það er nánast hægt að koma með hvaða hlut sem eða hvað sem er til að láta búa til málningu eftir. „Við höfum búið til liti eftir ýmsu, meðal annars eftir Kitchen Aid-hrærivél, hlutum úr barnaherbergjum og við getum búið til nánast hvaða lit sem er eftir hverju sem er.“

Höfum búið til liti eftir Kitchen Aid-hrærivél, segir Eðvald í Slippfélaginu.

Allar gerðir af teipum.

Séð inn í verslun Slippfélagsins.

Allar stærðir af penslum.