Rétturinn
Rétturinn

Viðskipti

Helmingur eldisbleikju í heiminum alin upp í Grindavík og slátrað í Sandgerði
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 15. maí 2020 kl. 07:17

Helmingur eldisbleikju í heiminum alin upp í Grindavík og slátrað í Sandgerði

Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum.Framleiðir um 3.800 tonn árlega en það er nærri helmingur allrar eldisbleikju sem framleidd er á heimsvísu. Verið að bora þrjár nýjar holur í hrauninu við stöðina í Grindavík.

Framkvæmdir hafa staðið yfir að undanförnu við fiskeldisstöð Samherja á Stað við Grindavík. Verið er að bora í þrjár nýjar sjóholur í hrauninu við stöðina. Um er að ræða talsverða fjárfestingu til að auka afkastagetu stöðvarinnar, segir Hjalti Bogason, rekstrarstjóri fiskeldis Samherja á Suðurnesjum.

Seiði alin upp í Grindavík

Tilgangurinn er að tryggja betur vatnsbúskapinn eftir stækkanir síðustu ára og undirbúa næsta áfanga stækkunar. Á Stað við Grindavík starfrækir Samherji bæði seiðastöð og áframeldi fyrir bleikju. Kviðpokaseiði eru flutt í seiðastöðina frá klakstöð fyrirtækisins að Núpum í Ölfusi. Seiðin eru alin í seiðastöðinni í tíu til tólf mánuði, eða þangað til þau hafa náð 100 gr. að stærð. Þá eru þau flutt úr seiðastöðinni yfir í áframeldið sem er utandyra í kerjum á landi. Þegar fiskur nær tilskilinni stærð er hann svo fluttur lifandi í sérútbúnum tankbílum til slátrunar og vinnslu í Sandgerði.

Það er Ræktunarsamband Flóa og Skeiða sem sér um boranirnar á nýju sjóholunum og þær hafa gengið vel þrátt fyrir að þurft hafi að breyta verklaginu vegna núverandi ástands. Framkvæmdir eru langt komnar og á þeim að ljúka með virkjun nýrra hola fyrir lok júní næstkomandi.

Eykur afköstin

„Þetta mun auka afkastagetu fiskeldisstöðvarinnar umtalsvert en þetta er mikið vatnsmagn sem við erum að dæla. Þegar framkvæmdum lýkur mun stöðin geta dælt tveimur og hálfum rúmmetra af vatni á sekúndu,“ segir Hjalti Bogason, rekstrarstjóri Samherja fiskeldis á Suðurnesjum, á heimasíðu Samherja. Nýlega fékk fiskeldisstöðin að Stað stækkun á rekstrarleyfi sínu í 3.000 tonn og félagið er að auki með 1.600 tonna leyfi að Vatnsleysu. Að sögn Hjalta mun fiskeldið á Suðurnesjum geta framleitt tæplega 4.000 tonn af bleikju þegar þessum hluta framkvæmdanna lýkur.

Tuga milljarða útflutingsverðmæti

Samherji fiskeldi er stærsti framleiðandi bleikju í heiminum með um 3.800 tonn árlega en það er tæplega helmingur allrar eldisbleikju sem er framleidd á heimsvísu. Radarinn, mælaborð sjávarútvegsins sem rekið er af SFS, greindi nýlega frá því að útflutningsverðmæti eldisafurða hafi verið 25 milljarðar króna á síðasta ári. Það er 90% aukning frá fyrra ári og hefur útflutningsverðmætið aldrei verið meira.Hjalti Bogason rekstrarstjóri Samherja fiskeldis á Suðurnesjum.

FJÖLBREYTT EFNI Í NÝJUSTU VÍKURFRÉTTUM - SMELLIÐ HÉR AÐ NEÐAN