Bílrúðuþjónustan
Bílrúðuþjónustan

Viðskipti

Góð verslun í Reykjanesbæ í desember
Föstudagur 29. desember 2017 kl. 10:45

Góð verslun í Reykjanesbæ í desember

„Við finnum alltaf fyrir nálægðinni í Reykjavík og þegar það er renniblíða þá er kannski freistandi að renna í Kringluna eða Smáralindina og klára þetta þar. En maður hefur heyrt af fólki sem finnst gott að koma hingað. Hér er rólegt og notalegt og vöruúrvalið er gott þannig að almennt erum við nokkuð sátt,“ segir Dalrós Jóhannsdóttir í Skóbúðinni sem er forsvarsmaður betri bæjar sem eru samtök verslana í bæjarfélaginu.

Desembermánuður hefur verið fínn í verslun á svæðinu og segist Dalrós vera ánægð með það hvað fólk sé duglegt að versla við þau og einnig að stemningin hafi verið ágæt. Nálægðin við höfuðborgina heilli þó alltaf og einhverjir virðast nýta sér það.

Mikil fjölgun hefur verið á svæðinu og í bæjarfélaginu á undanförnum árum og segir Dalrós að þau finni fyrir því, það sé mikið af fólki að koma í búðina sem hefur ekki komið í hana áður, fólk komi alls staðar af sem er nýflutt í bæjarfélagið.

Mikil stemning og skemmtun var á Þorláksmessu á Hafnargötunni þar sem ungir sem aldnir létu sjá sig, hvort sem það var til að klára að versla jólagjafirnar eða skoða mannlífið. „Það er frábært að geta lokað götunni að hluta til og fá jólasveinana og rútuna þeirra, það er gaman að fólk skuli taka svona vel í þetta og vonandi verður þetta árlegt hjá okkur.“

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs