Viðskipti

Eitt stærsta sjávarafurðafyrirtæki heims kaupir hlut í Ægi sjávarfangi í Grindavík
Föstudagur 6. desember 2019 kl. 11:09

Eitt stærsta sjávarafurðafyrirtæki heims kaupir hlut í Ægi sjávarfangi í Grindavík

Thai Union, eitt af stærstu sjávarafurðafyrirtækjum heims hefur keypt stóran hlut í niðursuðufyrirtækinu Ægi sjávarfangi í Grindavík en það sérhæfir sig í niðursuðu á þorskalifur. Meðal fyrirtækja innan Thai Union fyrirtækjasamstæðunnar eru þekktir framleiðendur eins og King Oscar, Chicken of the Sea, John West, Petit Navire, Parmentier, Mareblu. Thai Union er með 47 þúsund starfsmenn víða um heim og er meðal annars stærsti framleiðandi niðursoðins túnfisks en fimmta hver dós af niðursoðnum túnfiski sem seld er í heiminum er frá Thai Union.

Mikilvægt fyrir íslenskan niðursuðuiðnað

„Það hefur gríðarlega þýðingu fyrir okkur og íslenskan niðursuðuiðnað í heild að tengjast þessu öfluga fyrirtæki. Samstarf við Thai Union veitir vörum okkar ákveðið söluöryggi og aðgang að sterku sölu- og dreifikeri sem opnar möguleika á markaðssetningu út úm allan heim á þeim niðursuðuvörum sem er hugsanlega er hægt að framleiða hér á landi,“ segir Guðmundur P. Davíðsson stjórnarformaður Ægis sjávarfangs. Guðmundur segir að Ægir sjávarfang muni halda áfram að framleiða niðursoðna þorskalifur undir eigin merkjum og einkafyrirtækjamerkjum annarra eins og til dæmis verslanakeðja. Vörumerki Ægis sjávarfangs eru iCan og Westfjords. Þá segir hann að samstarf sem verið hefur í sölu- og markaðsmálum milli verksmiðju Ægis í Grindavík og niðursuðuverksmiðju HG í Hnífsdal verði haldið áfram en hjá þessum tveimur verksmiðjum eru í dag um 30 stöðugildi í framleiðslu-og markaðsmálum.

Public deli
Public deli

Vottun um sjálfbærar veiðar skipti máli

Í tilkynningu sem Thai Union hefur sent frá sér vegna viðskiptanna segir framkvæmdastjórinn, Thiraphong Chansiri, að Ægir sjávarfang hafi í nærfellt aldarfjórðung verið þekkt fyrir að framleiða eina bestu þorskalifur á markaðinum og segir hann að fjárfestingin í Ægi muni styrkja stöðu King Oscar sem leiðandi aðila á markaði fyrir niðursoðnar sjávarafurðir. Thai Union keypti norska fyrirtækið King Oscar árið 2014 en það er með sterka markaðsstöðu í Noregi, Bandaríkjunum, Póllandi, Belgíu og Ástralíu. Þá er í tilkynningu Thai Union sérstaklega tekið fram að allt hráefni Ægis megi rekja til sjálbærra þorskveiða Íslendinga og að vörur fyrirtækisins séu MSC vottaðar (Marine Stewardship Council) sem af alþjóðlegum sérfræðingum sé viðurkennt sem traustasta staðfesting á sjálfbærri nýtingu sjávarafurða.

Þorskalifur er fyrst og fremst unnin í þremur löndum sem hafa aðgang að norður Atlantshafs þorskstofninum en það eru Ísland, Noregur og Rússland og kemur um 70% af heimsframleiðslu niðursoðinnar þorskalifur frá Íslandi. Að sögn Guðmundar P. Davíðssonar stefnir Ægir sjávarfang að því að framleiða 20 milljón dósir af niðursoðinni þorskalifur á næsta ári en til samanburðar má geta þess að árleg framleiðsla Thai Union er um 1 milljarður dósa af niðursoðnu sjávarfangi.