Optical Studio
Optical Studio

Viðskipti

Bækur enn á óskalista margra
Aníta, Lilja og Helena í verslun Pennans. Á myndina vantar Ásdísi. VF-myndir/Marta.
Laugardagur 1. desember 2018 kl. 09:57

Bækur enn á óskalista margra

Úrvalið af bókum er stórkostlegt í Pennanum í Reykjanesbæ

Bækur hafa alltaf verið vinsælar jólagjafir. Aníta Gunnlaugsdóttir, verslunarstjórinn í Penninn Eymundsson, segir bækur ennþá vera á óskalista margra. Jólatraffíkin er alveg að fara í gang. Sumir eru byrjaðir að kaupa jólagjafir. Starfsfólkið hennar finnur það. Kósíkvöld 6. desember markar þó meira upphafið að jólaverslun bæjarbúa en þá hafa langflestar verslanir opið hjá sér fram til klukkan 22:00.

Bækur standa alltaf fyrir sínu

Margir hafa meiri tíma um jólin til að lesa bækur. Sumum finnst það notaleg tilhugsun að setjast í hægindastól með góða bók og hverfa á vit ímyndunaraflsins.

„Úrvalið hjá okkur af bókum er auðvitað bara stórkostlegt, bókatitlarnir eru nokkur hundruð talsins. Allskonar bækur, barnabækur, bækur fyrir fullorðna, matreiðslubækur og fleira. Það er alltaf vinsælt að gefa bók í jólagjöf, einnig púsl og borðspil. Við þekkjum bókamarkaðinn og getum mælt með bókum fyrir mismunandi aldurshópa og kyn, þannig að persónuleg þjónusta er kannski frekar veitt í bókaverslun. Við bjóðum viðskiptavinum okkar að pakka inn ef fólk verslar vöruna hjá okkur. Barnabækur seljast alltaf mjög vel. Höfundar þeirra eru duglegir að fara í skólana og kynna bækur sínar. Við merkjum það eftir þessar höfundaheimsóknir í skólana, því allt í einu eru krakkarnir komnir hingað til að gá að bók eftir þennan og hinn höfundinn. Þessar bækur fara þá á jólagjafalista barnanna. Það er alltaf rosagóð stemning í desember. Allir bara svo glaðir og Þorláksmessan er skemmtilegasti dagurinn finnst mér og þó að maður hafi samt nóg að gera heima hjá sér, þá er stemningin ómissandi niðri í bæ,“ segir Anita en bókabúðin er farin að selja meira en bara bækur. Þar er hægt að kaupa ýmsa gjafavöru, geisladiska og margt fleira. Sjón er sögu ríkari.

„Við erum líka með allskonar gjafavöru og mjög vinsælar jólavörur, ma. fyllta jólasveina sem rjúka út hjá okkur. Eftir 15. desember erum við með lengri opnunartíma eins og flestar verslanir hér í kring og þá byrjar jólastemningin fyrir alvöru. Bara gaman,“ segir Anita hress í bragði.   

 

Ljósmyndastofa Oddgeirs
Ljósmyndastofa Oddgeirs