Föstudagur 1. janúar 2021 kl. 14:13

„Við búum í einstöku samfélagi. Það vilja allir leggja sitt af mörkum“

Ávarp Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra í Keflavíkurkirkju á nýársdag

„Þrátt fyrir Covid 19 og margvíslega aðra erfiðleika hér á landi höfum við það betra en stór hluti fólks um víða veröld. Ég vil því hvetja okkur öll til þess að hugsa frekar um það sem er jákvætt og gott en forðast neikvæðar hugsanir og vangaveltur. Við þurfum öll sem eitt að leyfa kærleik og samstöðu að leiða okkur inn í nýtt ár. Þá er líklegra að árið 2021 sem nú er að hefjast verði okkur gott,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ í áramótaávarpi sem hann flutti í guðsþjónustu í Keflavíkurkirkju en hún var tekin upp á aðventunni og sýnd rafrænt á miðlum Víkurfrétta og Keflavíkurkirkju.

Prestar Keflavíkurkirkju, Sr. Erla Guðmundsdóttir og Sr. Fritz Már Jörgensson þjónuðu fyrir altari. Kór Keflavíkurkirkju og Vox Felix sungu, Arnór Vilbergsson stjórnaði og lék á orgel og píanó.


Hér má sjá ávarp Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra:

Ágætu kirkjugestir, íbúar Reykanesbæjar og aðrir tilheyrendur

Gleðilegt nýtt ár og bestu þakkir fyrir árið sem var að líða.

Enn á ný stöndum við á krossgötum áramótanna og horfum bæði til baka sem og fram á veginn. Reynum að læra af því sem liðið er til að gera betur í því sem koma skal.

Ég vil nota þetta tækfæri, fyrir hönd bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, og þakka  öllum sem hafa og eru að leggja hönd á plóg á fjölmörgum vígstöðvum í samfélaginu svo okkur megi lánast að komast sem best í gegnum þær náttúruhamfarir sem heimsfaraldur Covid19 í raun og veru er.

Heilbrigðisstarfsfólk, lögregla, sjúkraflutningarmenn, björgunarsveitir, Rauði krossinn, starfsfólk í margvíslegum framlínustörfum s.s. í skólum, umönnunarstörfum við aldraða og faltaða og þjónustu við þá sem þurfa margvíslega aðstoð, fá þakkir frá okkar dýpstu hjartarótum.

Það er viðbúið að samfélög víða um heim, þar á meðal á Íslandi, eigi eftir að glíma við heimsfaraldurinn í einhver misseri í viðbót og því mikilvægt að við gefumst hvorki upp né gefum eftir í ítrustu sóttvörum og varúðarráðstöfunum. Við Suðurnesjamenn höfum borið gæfu til að standa saman og hingað til náð góðum árangri í baráttu við veiruna og skulum gera það áfram.

Atvinnuleysi er í sögulegum hæðum í okkar landshluta og þótt gripið hafi verið til margvíslegra aðgerða er ekkert sem kemur í staðinn fyrir áhugaverð, góð og vellaunuð störf þar sem fólk fær notið sín og skapar margvísleg verðmæti fyrir sig og sína. Að því stefnum við auðvitað en gerum okkur grein fyrir að vegna hlutfallslegrar stærðar alþjóðaflugvallarins gæti tekið lengri tíma að ná atvinnuleysinu niður. Þangað til þarf margþætt velferðarkerfi ríkis og sveitarfélaga að grípa þá sem ekki ná að fóta sig né ná endum saman. En með tilkomu bóluefnis hafa vonir vaknað um skjótari viðsnúning sem við treystum á að verði veruleikinn og mikilvægt fyrir okkur að missa ekki trú og von um betri tíð og bætan hag með hækkandi sól.

Reykjanesbær fylgir stefnumörkun sveitarfélagsins til ársins 2030 sem er tengd við innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þar segir í  framtíðarsýninni að Reykjanesbær verði fjölskylduvænn bær sem þroskar og nærir hæfileika allra í gegnum öflugt skóla-, íþrótta- og menningarstarf og íbúar sinni fjölbreyttum störfum í vistvænu fjölmenningarsamfélagi sem einkennist af virðingu, eldmóði og framsækni.

En hvað þýðir þetta í raun og veru? Hvað þarf að vera til staðar til að Reykjanesbær teljist fjölskylduvænn bær? Hvaða inniviði og þekkingu þurfa stofnanir og félagsamtök að hafa yfir að ráða svo allir geti notið góðrar grunnmenntunar og þroskað hæfileika sína með þátttöku í íþróttum, fjölbreyttu tómstundastarfi og menningu? Hvað þarf til að auka fjölbreytni í atvinnulífinu? Hvers konar menntun og þekkingu þurfa íbúar og frumkvöðlar að hafa yfir að ráða til að hér megi vaxa og þroskast ný og fjölbreytt starfsemi vel rekinna fyrirtækja? Þetta eru spurningar sem bæjaryfirvöld og við öllum þurfum að leita svara við og taka svo höndum saman um að færa til betri vegar. 

En hvað þýðir vistvænt fjölmenningarsamfélag? Samkvæmt íslenskri nútímamáls orðabók stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þýðir vistvænn sá sem ekki mengar eða spillir náttúru eða lífríki og telst því umhverfisvænn.

Samkvæmt sömu orðabók er fjölmenningarsamfélag skilgreint sem samfélag fólks með margvíslegan menningarlegan bakgrunn. Sú skilgreining á vel við í okkar samfélagi þar sem fjórðungur íbúa, um 5000 manns, eru með erlent ríkisfang og koma frá rúmlega 90 löndum. Meirihluti þeirra kemur samt frá einu og sama landinu; Póllandi. Slíkt samfélag býr við mikinn fjölbreytileika, ekki bara í þjóðerni íbúa heldur líka í trúarbrögðum, litarhætti, reynslu, lífsskoðunum og svo mætti lengi telja. Þess vegna hefur stefnumörkunni verið gefið yfirheitið; „Í krafti fjölbreytileikans“.

Auk framtíðarsýnarinnar, sem hér var skýrð, samanstendur stefnumörkun Reykjanesbæjar til ársins 2030; Í krafti fjölbreytileikans, af 3 gildum og 6 megináherslum. Gildin eru Virðing, Eldmóður og Framsækni og megin áherslurnar 6 eru;

1. Börnin í fyrsta sæti 2. Vellíðan íbúa 3. Vistvænt samfélag

4. Fjölbreytt störf 5. Skilvirk þjónusta og 6. Kraftur fjölbreytileikans.

Innan hverrar megin áherslu eru svo skilgreind margvíslegar aðgerðir sem ætlað er að styðja við að markmiðin okkar gangi eftir.

Fyrsta aðgerðin sem ég vil nefna er innleiðing Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Það er verkefni sem hófst í haust í samvinnu við félagsmálaráðuneytið og áætlað er að taki um 2 ár og styður við megináhersluna „Börnin í fyrsta sæti“.

Önnur aðgerð tengist megináherslunni „Vellíðan íbúa“ og felur í sér áframhaldandi stuðning við Fjölþætta heilsueflingu 65 ára og eldri, sem leidd er af dr. Janusi Guðlaugssyni. Það verkefni hefur svo sannarlega slegið rækilega í gegn og fært okkur heim sanninn um að það er aldrei og seint að hefja líkamsrækt.

Það þriðja sem ég vil nefna er aðgerð sem tengist megin áherslunni „Skilvirk þjónusta“ þar sem leitað verður margvíslegra leiða, svo sem aukinnar sjálfvirkni og rafrænna lausna, til að leysa sem flest mál og fyrirspurnir sem íbúar koma með til Reykjanesbæjar í fyrstu snertingu, eins og það er orðað.

Fjölmörg önnur verkefni og framkvæmdir eru í vinnslu víðs vegar hjá stofnunum og sviðum Reykjanesbæjar sem vert væri að nefna en verða að bíða betri tíma.

Ágætu tilheyrendur.

Það var stórhuga fólk sem lagði grunn að byggingu Keflavíkurkirkju fyrir rúmum 100 árum. Á þeim tíma rúmaði kirkjan alla bæjarbúa og rúmlega það. Íbúar og sóknarbörn hafa notið þessa stórhugar æ síðan en á heimasíðu kirkjunnar segir m.a.;

„Kirkja var byggð í Keflavík rétt fyrir aldamótin 1900, timburkirkja sem fauk áður en smíði hennar var fulllokið skömmu eftir aldamótin. Sá atburður setti söfnuðinn í mikinn vanda þar sem talsverð skuld var á byggingunni og erfitt reyndist að hefja byggingu nýrrar kirkju með skuldina á bakinu. Ólafur Á. Olavsen annar eigandi verslunar H.P. Duus, sýndi þann rausnarskap að bjóðast til að greiða skuld kirkjunnar að hluta og hann ásamt systrum hans lögðu einnig umtalsvert fé í byggingarsjóð nýrrar kirkju sem var svo vígð þ. 14. febrúar 1915“.


Þann 1. júní árið 2000 blessaði sr. Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, safnaðarheimilið Kirkjulund og vígði nýja kapellu, Kapellu vonarinnar og árið 2012 var ráðist í endurbætur á kirkjuskipinu. Meðal annars var gamla predikunarstólnum og grátunum komið fyrir að nýju í kirkjunni en þau höfðu verið fjarlægð á sínum tíma.

Og á nýliðnu ári var framkvæmdum á sönglofti kirkjunnar og endursmíði orgelsins lokið. Enn á ný hafa slíkar framkvæmdir notið stuðnings og velvilja nærsamfélagsins og fjölmargir lagt og aflað fjár í Orgelsjóðinn. Fyrir allt þetta vil ég þakka.

En það má þakka fyrir fjölmargt fleira. Í kjölfar mikils atvinnuleysis í Reykjanesbæ og Suðurnesjum hafa aðstæður mjög margra breyst til hins verra. Margir einstaklingar og fjölskyldur búa við erfiðar aðstæður og líða skort. Fjölmörg fyrirtæki og félagsamtök, stór og smá, hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar með margvíslegum hætti. Þannig birtist mikil og góð samstaða enn og aftur í okkar samfélagi á erfiðum tímum. Öflug fyrirtæki hér á svæðinu og utan af landi eins og Nettó og Kaupfélag Skagafjarðar leggja sitt svo sannarlega af mörkum við Velferðarsjóð kirkjunnar og Fjölskylduhjálpina. Mér fannst hún Þórunn Þórisdóttir, starfsmaður kirkjunnar, orða þetta vel þegar hún sagði; „Kjartan. Við búum í einstöku samfélagi. Það vilja allir leggja sitt af mörkum“. Við alla þessa aðila segi ég; Bestu þakkir til ykkar allra.

Kæru vinir

Þrátt fyrir Covid 19 og margvíslega aðra erfiðleika hér á landi höfum við það betra en stór hluti fólks um víða veröld. Þegar maður setur hlutina í þetta samhengi  er maður gjarnan sagður vera eins og Pollýana sem reyndi alltaf að sjá björtu hliðarnar á málum. Það eru jú alltaf tvær hliðar á öllum málum, ekki satt? Það er vísindalega sannað að það er auðveldara og tekur minni orku að vera jákvæður og í góðu skapi. Ef okkur tekst að stilla og kyrra hugann og temja okkur jákvætt viðhorf vegnar okkur betur. Ég vil því hvetja okkur öll til þess að hugsa frekar um það sem er jákvætt og gott en forðast neikvæðar hugsanir og vangaveltur. Við þurfum öll sem eitt að leyfa kærleik og samstöðu að leiða okkur inn í nýtt ár. Þá er líklegra að árið 2021 sem nú er að hefjast verði okkur gott.