Mánudagur 16. september 2013 kl. 10:40

Verðlaunuð fyrir hugmynd til eflingar ímyndar Suðurnesja

Gerðaskóli hlaut á dögunum i-pad og viðurkenningu frá Heklunni, atvinnuþróunarfélagi Suðurnesja fyrir besta verkefnið í samkeppni grunnskóla á Suðurnesjum sem miðaði að því að efla ímynd Suðurnesja.

Öllum grunnskólum á Suðurnesjum bauðst þátttaka en verkefnið er liður í Sóknaráætlun landshluta sem felst í því að bæta ímynd svæðisins.

Nemendur unnu ýmiss verkefni sem miðuðu að því að efla þekkingu á menningu, sögu og náttúru Suðurnesja.

Að sögn Berglindar Kristinsdóttur framkvæmdastjóra Heklunnar er mikilvægt að efling á ímynd svæðisins hefjist heima og að ungt fólk læri að þekkja sitt byggðarlag og sé stolt af því. Þar leiki skólar stórt hlutverk.

Nemendur Gerðaskóla fóru ásamt kennurum í vettvangsferð í Fjöruna við Fuglavík á Stafnesi. Ferðina nýttu þeir til þess að finna hluti í fjörunni sem nýst gætu til þess að búa til ásláttarhljóðfæri. Öllu því sem krakkarnir söfnuðu saman var komið upp á pallbíl frá sveitarfélaginu og ekið með það í skólann. Smíðakennari og tónlistarkennari unnu saman að gerð hljóðfæranna ásamt nemendunum og að því loknu voru hljóðfærin tekin í notkun og sömdu nemendur tónverk sem þau fluttu á árshátíð skólans sl. vor.

Verkefni féll ennfremur vel að markmiðum Gerðaskóla þar sem endurvinnsla og nýting hluta er mikilvægur þáttur en skólinn hlotið Grænfánann.
 Berglind Kristinsdóttir framkvæmdastjóri Heklunnar og Skarphéðinn Jónsson skólastjóri Gerðaskóla.