Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
miðvikudaginn 10. júlí 2019 kl. 11:03

Varnarlið í verstöð - áhugaverð sýning í Duus Safnahúsum

Varnarlið í verstöð er nafn sýningar sem nú er opin í Gryfjunni, sýningarrými í Duus Safnahúsum í Grófinni. Sýningin mun standa til 4. nóvember. Í spilaranum hér að ofan er umfjöllun Sjónvarps Víkurfrétta um sýninguna en innslagið var tekið upp þegar unnið var að uppsetningu sýningarinnar.

Um sýninguna segir á vef Duus Safnahúsa:

Í miðri síðari heimsstyrjöld hófst nýr kafli í sögu Suðurnesja sem markað hefur djúp spor. Hermenn streymdu að og stórvirkar vélar og tæki hófu framkvæmdir við herflugvelli og braggahverfi risu ógnarhratt í næsta nágrenni við fiskibæina. Stríðið var komið til aldagamalla verstöðva Suðurnesja án þess að íbúarnir fengju nokkru um það ráðið.

Ólíkt því sem gerðist á öðrum stöðum landsins, þar sem reistar voru herstöðvar á stríðsárunum, lauk þessari sögu ekki við stríðslok. Aðeins fáeinum árum eftir að friður komst á tók við nýtt stríð; Kalda stríðið. Árið 1951 kom bandarískt herlið á ný til Suðurnesja, Varnarliðið svonefnda, og stóð vaktina í Norðurhöfum til ársins 2006.


Saga Varnarliðsins og samskipti þess við heimamenn er afar merkileg og einstök í sögu landsins. Nábýli erlendrar herstöðvar við fornar verstöðvar, þar sem allt hafði snúist um fiskveiðar frá upphafi landnáms, breytti mörgu í atvinnulífi, mannlífi og menningu á þessu tímabili sem spannar hátt í heila öld. Og er ekki lokið, því áhrif Keflavíkurflugvallar eru ennþá gríðarlega mikil á svæðinu, en flugvöllurinn á rætur sínar að rekja til komu herjanna um miðja síðustu öld.

Það fennir fljótt í sporin. Frásagnir gleymast, munir og hlutir týnast og tvístrast um víðan völl og áður en nokkur veit af hefur niður tímans lagt hulu yfir þessa merkilegu sögu. Byggðasafn Reykjanesbæjar hefur því ráðist í skipulagt átak í söfnun og varðveislu mynda, muna og frásagna um þetta tímabil og er þessari sýningu einkum ætlað að vekja athygli á því verkefni. Þá er markmiðið einnig að leita til fyrrverandi og núverandi íbúa Suðurnesja varðandi frekari söfnun frásagna, mynda og muna, og er fólk hvatt til að leggja söfnuninni lið.

Markmiðið er að opna metnaðarfulla fastasýningu um sögu Varnarliðsins innan fárra ára, þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að kynna sér ótal spennandi og fróðlega þætti þessarar áhugaverðu sögu.

Verkefnið nýtur styrks frá Uppbyggingarsjóði Suðurnesja. Sýningarstjóri er Eiríkur P. Jörundsson.


Hluti af þessum bragga er á sýningunni í Duus Safnahúsum.