Fimmtudagur 12. september 2019 kl. 20:30

Uppskeruhátíð menningar og lista í Reykjanesbæ í Suðurnesjamagasíni

Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20:30. Þáttur er fjölbreyttur þó svo viðfangsefnið sé aðeins eitt; Ljósanótt.

Ljósanótt er nýafstaðin í Reykjanesbæ. Hún er ein stærsta bæjarhátíðin hér á landi og stóð að þessu sinni yfir í fimm daga. Hátíðin í ár var jafnframt sú tuttugasta í röðinni en Ljósanótt var fyrst haldin árið 2000 og var þá skemmtun eitt síðdegi á laugardegi þar sem kveikt var á lýsingu á Berginu í Keflavík. Síðan þá hefur hátíðin stækkað mikið en Ljósanótt er nokkurs konar uppskeruhátíð í menningu og listum suður með sjó. Suðurnesjamagasín er helgað Ljósanótt að þessu sinni.

Í þætti kvöldsins er m.a. rætt við Valgerði Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa Reykjanesbæjar, sem hefur haft verkefnastjórn með Ljósanótt í þessi tuttugu skipti sem hún hefur verið haldin. Þátturinn er einnig litskrúðugur og þar er að finna mikið af tónlist, enda einkenna tónlistarviðburðir Ljósanótt.