Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 15. janúar 2021 kl. 07:36

Tónlistarkona og aktívisti í baráttu fyrir bættri kynfræðslu

Sólborg Guðbrandsdóttir er Maður ársins á Suðurnesjum 2020

Sólborg Guðbrandsdóttir er 24 ára tónlistarkona, fyrirlesari og laganemi. Hún gerðist einnig bókaútgefandi á nýliðnu ári og þá er hún líka aktívisti sem lætur hlutina gerast. Bætt kynfræðsla í grunn- og framhaldsskólum á Íslandi er málefni sem hefur brunnið á henni. Sólborg tók því til sinna ráða og hvatti fólk til að senda hvatningu á tölvupóst menntamálaráðherra um bætta kynfræðslu í skólum. Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra, greip boltann á lofti, fékk Sólborgu og Siggu Dögg, kynfræðing, til fundar við sig í ráðuneytinu og hefur nú skipað Sólborgu sem formann í starfshópi sem á að skila tillögu um kynfræðslu í skólakerfinu. Sólborg hefur einnig verið ötul baráttukona gegn stafrænu kynferðislegu ofbeldi og haldið úti síðunni Fávitar á Instagram sem m.a. hefur varpað ljósi á stafræna kynferðisofbeldið á internetinu. Víkurfréttir hafa valið Sólborgu mann ársins á Suðurnesjum 2020 fyrir baráttu hennar fyrir aukinni kynfræðslu í grunn- og framhaldsskólum.

Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með Sólborgu fyrir framan sjónvarpsvélarnar í myndveri Víkurfrétta og fyrst var rætt um bókina Fávitar sem Sólborg gaf út fyrir nýliðin jól. Bókin er í ellefta sæti á metsölulistum eftir jólin og útgefandinn ungi frá Keflavík er sögð vera nýliði ársins í bókaútgáfunni.

„Þetta eru algjörar kanónur sem eru á rithöfundalistanum og það er frekar mikill heiður að fá að vera þarna með öllum þessum snillingum með bók sem heitir Fávitar,“ segir Sólborg.

– Gastu ímyndað þér að þú yrðir með elleftu mest seldu bókina á Íslandi?

„Ég fékk mjög góðar viðtökur í ferlinu þegar ég var að klára bókina en þegar ég lít til baka þá hefði mig ekki grunað að ég fengi svona góðar viðtökur, þó svo ég hafi vitað að eftirspurnin eftir svona fræðslu er mikil. Nei, ég bjóst eiginlega ekki við þessu og það kom mér eiginlega á óvart að Fávitar kæmust inn á einhverja svona lista. Það eru líka svo margir sem gáfu út frábærar bækur um jólin og það var metsala í bókum.“

Ekki verið gefin út svipuð bók á Íslandi áður

– Þú ert líka að gefa út eitthvað allt annað. Þú ert ekki með glæpasögu. Þú ert með eitthvað sem er ekki mjög algengt í bókum í dag.

„Ég var ekki beint með samkeppni við aðra með þessari bók núna um jólin og ég er ekki viss um að það hafi verið gefin út svipuð bók á Íslandi áður, sem hefur tekið saman spurningar frá unglingum og svör við þeim eingöngu. Þetta var eitthvað nýtt.“

– Segðu okkur í stuttu máli frá efni bókarinnar.

„Fávitar er samansafn af spurningum sem ég hef fengið frá ungu fólki á samfélagsmiðlum og á fyrirlestrum sem ég hef haldið undanfarin ár um kynlíf, ofbeldi, fjölbreytileika, líkamann og ýmislegt fleira. Ég tók þetta saman og setti spurningarnar og svörin í eina bók.“

– Hvenær fæddist þessi hugmynd hjá þér?

„Fyrir einu og hálfu ári var ég farin að velta þessari bók fyrir mér. Svo hafði ég samband við listamanninn Ethorio úr Keflavík og spurði hvort hann væri til í að myndskreyta og um hálfu ári síðar fór ég að vinna þetta af alvöru og fór að taka saman pælingar um hvernig ég ætti að gera þetta.“

– Var mikil vinna að gera efnið tilbúið fyrir bók?

„Nei, svo sem ekki. Ég veit að margir höfundar eru ár og jafnvel mörg ár að skrifar bækur en af því að þetta var sett upp í auðskiljanlegt form sem spurningar og svör þá var ég fljótari að þessu en ef þetta hefði verið samfelldur texti. Ferlið við að skrifa bókina var nokkrir mánuðir í heildina en ég var ekki að skrifa upp á hvern einasta dag og var að sinna ýmsu öðru á meðan þetta var í gangi.“

– Þetta er mjög sérstök uppbygging á bók. Þarna er litadýrð og teikningar og bókin er auðlæsileg.

„Ég vildi líka hafa þetta þannig, því markhópurinn minn er fyrst og fremst börn og unglingar en bókin er miðuð við að vera fyrir tólf ára og eldri. Við vitum það á tímum samfélagsmiðla og allt það sem snjallsímar hafa upp á að bjóða að krakkar eru kannski ekki rosalega mikið að lesa bækur. Ég vildi að þetta væri hnitmiðað og liti vel út með allar myndirnar og litina. Þetta mátti heldur ekki vera fráhrindandi fyrir fullorðið fólk sem ég veit að hefur líka gaman af að lesa svona auðskiljanlegt efni.“

„Ég vaknaði einn daginn og var komin með nóg af aðgerðarleysi varðandi þessi mál. Mér finnst ungt fólk vera búið að kalla eftir aukinni kynfræðslu í áratugi og ég vildi ná athygli stjórnmálamanna og fá þá til að hlusta á það sem almenningur var að biðja um.“

Dýrmætt að setja efnið í bók

– Þú ert að ná til markhóps sem er mjög mikið í símanum og er ekki mikið að lesa bækur. Var markmiðið að hvetja þau til þess?

„Markmiðið með bókinni var ekkert endilega að fá ungt fólk til að lesa sérstaklega. Ég var búin að svara mörgum af þessum spurningum inni á Fávita-Instagraminu á síðustu árum. Efnið þar er hins vegar meira falið og dettur jafnvel út eftir 24 tíma í Story á Instagram. Að taka þetta saman í bókarform var svo dýrmætt. Þetta er svo dýrmæt heimild um það sem unglingar eru að velta fyrir sér.“

– Og þetta eru spurningar sem þú hefur fengið frá ungmennum á fyrirlestrum sem þú hefur verið að halda.

„Já og á samfélagsmiðlum. Ég hef alltaf boðið upp á nafnlausar spurningar í lokin á öllum mínum fyrirlestrum og þar eru krakkarnir ekkert feimnir við að spyrja mig, því þau fá að spyrja í gegnum símana. Þar er nafnleynd og þá þora þau frekar að spyrja að því sem þau vilja raunverulega fá svar við og bókin sýnir að krakkarnir eru ófeimnir við að spyrja um það sem þeim dettur í hug. Alls konar áhugaverðar og skemmtilegar spurningar.“

– Þú ert að vinna með orð í þessari bók sem mörg hver eru tabú hjá fólki í kynfræðslunni.

„Alveg 100%. Ég þurfti meira að segja að æfa mig sjálf í að tala um þessa hluti upphátt. Um leið og maður er mættur upp á svið fyrir framan hundrað, fimmhundruð eða þúsund manns að svara spurningum um hluti sem mér finnst meira að segja sjálf vera tabú, það getur verið krefjandi. Ég þurfti að æfa mig í að svara þessu fyrir framan fullt af fólki og venja mig á þessi orð og þennan talsmáta, því þetta er svolítið feimnismál hjá okkur mörgum. Þetta má líka alveg vera áfram feimnismál en það verður samt sem áður að afmá þessa skömm sem er í kringum þetta.“

Skólarnir að vinna með bókina

– Þú gerir þér vonir um að bókin seljist áfram. Þetta er ekki einungis jólabók.

„Efni bókarinnar er viðeigandi á öllum tímum ársins og það er nóg til af henni ennþá og ég vona að fólk haldi áfram að kaupa bókina. Ég er í sambandi núna bæði við grunnskóla og framhaldsskóla og það er áhugi að fá bókina inn í þá marga hverja, hvort sem það er á skólabókasöfnin eða til kennslu en ég veit um nokkra skóla sem eru að vinna með bókina og það er rosalega skemmtilegt.

– Að öðru baráttumáli hjá þér. Þú hefur verið að fjalla um stafrænt kynferðislegt ofbeldi. Er þetta einhver sérstakur hópur sem verður fyrir þessu ofbeldi eða eru þetta aðallega ungar konur?

„Já, rannsóknir sýna það almennt að þetta eru oftast konur, frekar en karlar, sem verða fyrir þessu. Það þýðir ekki að karlar verði ekki fyrir ofbeldi en það virðist vera sjaldnar þannig. Þetta er að miklu leyti kynbundið ofbeldi. Ég veit hins vegar að karlar eiga erfiðara með að stíga fram og segja frá ofbeldi út af karlmennskupressu og meiri skömm í kringum það þegar þeir verða fyrir ofbeldi, sem við þurfum að taka utan um og breyta.“

– Hvað er það sem einkennir þetta stafræna ofbeldi?

„Þetta eru alls konar skilaboð. Oft eru þetta óumbeðnar kynfæramyndir, boð um vændiskaup, alls konar hótanir um kynferðisofbeldi, dreifingu nektarmynda. Einnig ýmis konar óviðeigandi kynferðislegur talsmáti á internetinu.“

– Heldur þú að með bókinni náir þú að hafa áhrif á þetta hér á landi?

„Ég vona það og ég held að Fávita-Instagramið hafi síðustu ár náð að varpa ljósi á það hversu algengt það er að fólk sé að tala svona á netinu. Þessi skilaboð og ofbeldi hafa fengið að þrífast í þögninni. Ef við vitum ekki að það er að gerast, hvernig eigum við þá að taka á vandanum og breyta því? Ég held fyrst og fremst að það skipti máli að koma þessu upp á yfirborðið og ég vona að ég hafi náð að gera það með Instagram-síðunni. Ég vona líka að bókin verði áfram til og verði til gagns. Það eru aðrir unglingar á næsta ári og næstu áratugina sem verða með svipaðar spurningar. Það er mikilvægt að við höldum áfram að svara þeim.“

Óvelkomnar typpamyndir

– Ég heyrði umræðu um daginn um efni bókarinnar. Finnst strákum virkilega töff að senda myndir af typpinu á sér og trúa þeir því að það virki ef þeir eru skotnir í einhverri stelpu?

„Ég á svo erfitt með að trúa því, eftir alla þessa umræðu um óumbeðnar typpamyndir og hvað þær eru óvelkomnar, að þetta sé ennþá byggt á einhverjum misskilningi. Ég held að þetta sé frekar eitthvað stjórntæki og markaleysi hjá þessum ungu en oft líka fullorðnu mönnum sem eru að gera þetta. Ég held að við séum búin að gefa það nokkuð skýrt út að þetta sé ekki í lagi.“

– Þú ert búin að gefa það út að Instagram-reikningur Fávita sé kominn á endastöð. Þú sért búin að gera þitt.

„Já, ég nenni ekki meiru í bili. Þetta er verkefni sem varð bara til, ekki af því að mig dreymdi um að verða fyrirlesari eða baráttukona gegn kynferðisofbeldi. Ég var að verða fyrir þessu sjálf á netinu og ég vildi gera eitthvað í því. Ég sá svo bara hvað þörfin var mikil eftir að ég fór að vinna í þessu. Í dag held ég að ég sé búin að segja það sem ég þarf að segja með fyrirlestrum mínum og með bókinni. Það er fullt af öðru fólki sem getur tekið við keflinu og haldið áfram að ræða þessa hluti en ég er komin með nóg í bili.“

Kaffærði tölvupóst menntamálaráðherra

– Í framhaldi af baráttu þinni þá ertu skipuð formaður starfshóps af menntamálaráðherra til að fara að vinna að kynfræðslumálum fyrir grunn- og framhaldsskóla.

„Ég fór í smá átak á samfélagsmiðlum. Inni á Fávita-Instagraminu var ég kominn með nokkuð stóran fylgjendahóp og þeir eru í dag yfir 30.000 manns. Ég vaknaði einn daginn og var komin með nóg af aðgerðarleysi varðandi þessi mál. Mér finnst ungt fólk vera búið að kalla eftir aukinni kynfræðslu í áratugi og ég vildi ná athygli stjórnmálamanna og fá þá til að hlusta á það sem almenningur var að biðja um. Ég hvatti fólk til að senda tölvupóst á menntamálaráðherra til að óska eftir aukinni kynfræðslu og útskýra hvers vegna. Ég held að ég hafi svolítið kaffært tölvupóstinn hennar Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra. Það var alls konar fólk úr öllum stéttum samfélagsins að senda henni póst og óska eftir meiri kynfræðslu. Þetta fór alls ekki framhjá Lilju. Í kjölfarið óskaði hún eftir fundi sem ég og Sigga Dögg, kynfræðingur, mættum á og það endaði þannig að tveimur mánuðum síðar vorum við báðar skipaðar í starfshóp sem þarf að útlista hvernig kynfræðslu í skólakerfinu ætti að vera háttað. Innan þessa hóps eru einstaklingar úr öllum áttum samfélagsins. Þarna eru einstaklingar úr menntakerfinu, þarna eru kynfræðingar, einstaklingar sem aðstoða brotaþola kynferðisofbeldis, þannig að fólk er að koma úr ólíkum áttum inn í þennan hóp. Við munum fara yfir það hvernig kynfræðslunni eigi að vera háttað að okkar mati, hvenær hún eigi að byrja, hvað eigi að vera kennt, hverjir kenna og ýmislegt svoleiðis. Við erum ekki búin að hittast ennþá en það fer að koma að því. Þetta er að fara á fullt og við eigum svo að skila lokaskýrslu í maí.“

– Var ekki skemmtilegt að fá þetta verkefni upp í hendurnar?

„Þetta er bæði skemmtilegt og krefjandi. Ég hef aldrei starfað innan ráðuneytis og ég er ekki með háskólagráðu en ég er með annars konar menntun eftir starfsreynslu mína síðustu ár í þessu. Þetta verður krefjandi fyrir mig en ég fer inn í þessa vinnu tilbúin að leggja mig fram og einnig tilbúin að biðja um aðstoð þegar ég þarf á því að halda því ég veit ekki allt.“

– En þetta var gott skef hjá menntamálaráðherra að taka þessa ákvörðun. Það virkaði sem þú gerðir þó svo þú hafir kannski ekki beint verið að biðja um starfshóp.

„Ég vildi eitthvað. Innan þingsins var nýlega samþykkt aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi og kynferðislegri áreitni til næstu ára. Samkvæmt þeirri áætlun á námsefni fyrir grunnskóla að vera tilbúið árið 2023. Í grunnskóla í dag eru krakkar sem græða ekkert á því að námsefnið verði tilbúið eftir tvö ár. Við þurfum því að finna leiðir til að fræða núna. Það skiptir máli að þau fari ekki bara úr grunnskólanum sínum og hafi aldrei fengið kennslu um þessa hluti eða afskaplega litla.“

Vinnur að plötu

– Að öðru hjá Sólborgu. Í hverju er hún að vinna þessa dagana?

„Ég er tónlistarkona og er að vinna í plötu sem ég næ vonandi að gefa út fyrir sumarið. Það er markmiðið en það er minn stærsti draumur að gefa út plötu. Svo er ég í lögfræðinámi og hef verið að reyna það samhliða öllu þessu og vonandi get ég gefið mér aðeins meiri tíma í það núna – en mér þykir vænt um tónlistina og hún veitir mér gleði og eitthvað gott inn í líf mitt og ég hef meira gaman af að fást við hana en að fræða um kynferðisofbeldi.“
Nánar er rætt við Sólborgu Guðbrandsdóttur, mann ársins 2020 á Suðurnesjum, í Suðurnesjamagasíni á Hringbraut og vf.is á fimmtudagskvöld kl. 20:30.

Maður ársins á Suðurnesjum frá 1990 til 2020

1990 - Dagbjartur Einarsson

1991 - Hjörtur Magni Jóhannsson

1992 - Guðmundur Rúnar Hallgrímsson

1993 - Guðjón Stefánsson

1994 - Júlíus Jónsson

1995 - Þorsteinn Erlingsson

1996 - Logi Þormóðsson

1997 - Steinþór Jónsson

1998 - Aðalheiður Héðinsdóttir

1999 - Sigfús Ingvason

2000 - Bláa lónið / Rúnar Júlíusson / Íþróttafélagið Nes

2001 - Freyja Sigurðardóttir / Norðuróp / Fræðasetrið í Sandgerði

2002 - Guðmundur Jens Knútsson

2003 - Áhöfnin á Happasæl KE fyrir björgunarafrek

2004 - Tómas J. Knútsson

2005 - Guðmundur Kristinn Jónsson / Kristín Kristjánsdóttir

2006 - Hjörleifur Már Jóhannsson / Bergþóra Ólöf Björnsdóttir

2007 - Erlingur Jónsson

2008 - Sigurður Wíum Árnason

2009 - Jóhann Rúnar Kristjánsson

2010 - Axel Jónsson

2011 - Guðmundur Stefán Gunnarsson

2012 - Nanna Bryndís Hilmarsdóttir / Brynjar Leifsson

2013 - Klemenz Sæmundsson

2014 - Fida Abu Libdeh

2015 - Sigvaldi Lárusson

2016 - Stopp hópurinn - hingað og ekki lengra

2017 - Elenora Rós Georgesdóttir

2018 - Guðmundur Ragnar Magnússon

2019 - Már Gunnarsson

2020 - Sólborg Guðbrandsdóttir

Auk Sólborgar Guðbrandsdóttur þá bárust Víkurfréttum einnig aðrar tilnefningar um Suðurnesjamann ársins 2020. Þau sem voru nefnd til leiks voru m.a. Sveindís Jane Jónsdóttir, knattspyrnukona, Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, og hans teymi, Sigurjón Héðinsson, bakarameistari í Sigurjónsbakaríi, bakarafeðginin í Hérastubbi bakara í Grindavík, Vikar Sigurjónsson, líkamsræktarfrömuður, fyrir líkamsrækt á netinu, Kristbjörg Kamilla Sigtryggsdóttir fyrir baráttu eftir erfitt slys, verkefnið Frú Ragnheiður á Suðurnesjum og fólkið í framlínunni á Suðurnesjum í baráttunni við kórónuveiruna.