Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
fimmtudaginn 20. janúar 2022 kl. 13:39

Suðurnesjamagasín: Tónlist er lífsgæðaaukandi

„Þetta er mjög lifandi og skólastjórastarfið er miklu skemmtilegra en ég gerði ráð fyrir. Tónlist er náttúrlega lífsgæðaaukandi og sýnir sig kannski best þegar elsti nemandinn er 85 ára,“ segir Halldór Lárusson, skólastjóri Tónlistarskóla Sandgerðis.

Í Suðurnesjamagasíni þessarar viku, sem frumsýnt er á fimmtudagskvöld kl. 19:30 á Hringbraut er rætt við þennan aldna blokkflautunemanda sem á níræðisaldri ákvað að skrá sig í tónlistarnám í Sandgerði og sækir tíma tvisvar sinnum í viku. Með fréttinni má sjá stutta stiklu úr þættinum.

Ásóknin í tónlistarnám í tvo tónlistarskóla í Suðurnesjabæ er svo mikil að ekki er hægt að anna allri eftirspurn. Píanó- og gítarleikur eru efst á blaði en svo er flest annað í boði. Að undanförnu hefur ásókn aukist í söngnám og trommuleik.

Í þætti vikunnar af Suðurnesjamagasíni er einnig tekið hús á trillukörlum i Sandgerði sem eru í harðfiskframleiðslu og gera að margra mati einn besta harðfisk landsins.

Suðurnesjamagasín kl. 19:30 á Hringbraut og vf.is.